02.11.1970
Neðri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2664)

11. mál, fiskiðnskóli

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Út af því máli, sem hér er til umr., langar mig að segja nokkur orð. Mér finnst það mjög miður, að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera í salnum til að hlusta á, hvað þm. segja um þetta mál, en hann getur að sjálfsögðu lesið það, sem sagt verður, en það er nú svo, að sumir hafa heyrnarminni og aðrir sjónminni. Það hefur komið fram hjá flm. þess frv., sem hér liggur fyrir til umr., að það séu 10 ár, síðan þessu var fyrst hér hreyft á þinginu og það mun rétt vera. Ég man það, að áður en ég kom á þing fyrir 7 árum, þá var ég í fiskmatsráði, fiskimálanefnd og Landssambandi ísl. útvegsmanna — á þessum þremur stöðum — búinn að mæla eindregið með því og af fullum hug, að það yrði athugað um að setja á stofn fiskiðnskóla á landinu. Þáltill. var svo ekki samþ. fyrr en á þinginu 1963–1964 og var ég einmitt í allshn. Sþ., þegar gengið var frá þessu máli.

Ég hef satt að segja alltaf vænzt þess, að það mundi verða meira en nefndaskipanir og álitsgerðir, sem út úr þessu kæmi. Vissulega er stórt og mikið álit frá fiskiðnskólanefnd, sem ég skal ekki segja, að sé í öllum atriðum það, sem við treystum okkur til að samþykkja í dag, en það er áreiðanlega mikill fróðleikur í því, sem hægt .er að vinna úr og getur verið undirstaða þess, sem gera þarf. Ég segi það, að ég er því mjög fylgjandi, að þetta mál komist af athugunarstigi fyrr en seinna. En aðeins til þess að undirstrika, að þetta er ekki það, sem mér hefur komið í hug í dag, þá vil ég lesa hér upp kafla úr ræðu, sem ég flutti fyrir rúmu ári á landsfundi Sjálfstfl. um sjávarútvegsmál og þess háttar og kom þar inn á iðnskóla. Ég sagði m. a.:

„Menn hafa mjög mikið um það rætt, að skólakerfi landsins væri ekki í nógu góðum tengslum við aðalatvinnuvegi þjóðarinnar og hafa þeir nokkuð til síns máls, ekki hvað sízt, að því er varðar kennslu í þéttbýli. Að mínu viti gegnir nokkru öðru máli í smærri byggðarlögum, þar sem unglingarnir alast upp við að vinna þessi verkefni og í sveit, þar sem verkefnin eru alltaf við höndina. Ég man, hvað ég varð undrandi fyrir nokkrum árum, þegar háttsettur háskólaborgari sagði mér, að hann hefði aldrei séð lóðaröngul. Ég tel, að það sé brýn nauðsyn, að hagnýt fræði um undirstöðuatvinnuvegi okkar verði í það minnsta meira kennd og kynnt t.d. í gagnfræðaskólunum, en verið hefur til þessa, m.ö.o. að hagnýt verknámskennsla verði tekin upp í ríkari mæli en verið hefur. Í framhaldi af þessum hugleiðingum mínum um sjávarútveginn og framtíðarverkefni, er þar bíða úrlausnar, tel ég, að sjávarútvegurinn þurfi í mjög ríkum mæli í framtíðinni á vel menntuðum háskólagengnum mönnum að halda við úrlausn hinna mörgu tækni— og vinnsluverkefna, svo sem á sviði skipatækni, fiskifræði, fiskiðnfræði, haffræði, efnaverkfræði, véla— og kælitæknifræði og ýmissa rannsóknarfræða. En á það vil ég leggja áherzlu, sem ég hef drepið á áður, að allir þessir aðilar þurfa að hafa sem nánasta samvinnu og samstarf við þá menn, sem um árabil hafa alizt upp við þessi störf og vita oft ótrúlega mikið um það, sem við í dag köllum vísindi og þá vil ég einnig á það benda, að í þessum efnum dugar engin 30—36 tíma vinna. En eitt vil ég þó láta koma fram, að við þessar 200 þús. sálir, sem byggjum þetta land, skulum ekki vera svo miklir draumóramenn að halda, að við getum í nánustu framtíð sett á stofn við Háskóla Íslands allar námsgreinar, sem þörf er á til að veita atvinnuvegum okkar alla tækni— og vísindamenntun og þjónustu, sem þeir þarfnast. Þar verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti og leita í nánustu framtíð til vizku brunna nágrannaþjóðanna, eins og hingað til. Aftur á móti tel ég, að full þörf sé á, að fiskiðnskóli verði settur á stofn hér á landi, svo fljótt sem kostur er á, en hann þarf ekki nauðsynlega að vera reistur í þéttbýliskjarnanum og hef ég nú um sinn verið með í huga stað, þar sem byggja mætti á fiskiðnfræði, sem fyrir er og ætti að koma að góðum notum. Fiskiðnskóli mundi að sjálfsögðu taka við því hlutverki, sem fiskmat ríkisins hefur af veikum mætti staðið fyrir um nokkur undanfarin ár og verður þá framhald af þeirri viðleitni, sem sjútvrn. hefur falið Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins að koma á stofn nú í haust og veita forstöðu.

Það væri að vísu freistandi að ræða þetta nánar, en tímans vegna verð ég að láta hér staðar numið.“

Þetta sagði ég þá og það var við þær aðstæður. En það kemur einmitt fram þarna, að það sé mikil þörf á því að mennta þjóðina í sambandi við þetta, en það þarf einnig að byrja á byrjuninni. Ég segi, að byrja á byrjuninni. Enda þótt það séu ýmsar brotalamir í sambandi við þetta, þá hefur meðferð á fiski verið kennd aðilum, sem sjá um rekstur vinnslustöðva. Fisksölufyrirtækin eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sölusambandið, S.Í.S. og fleiri og fleiri hafa einmitt lagt fram mikla fjármuni til þess að kenna þetta. Það breytir því ekki, að það þarf einmitt að byrja á því að innræta bæði góða meðferð, eins og hv. 2. þm. Reykn. minntist á hér áðan, í gagnfræðaskólum. Ég viðurkenni það, að þetta kom fram hjá hæstv. menntmrh., þessar hugsanir, að það þyrfti að taka þetta allt föstum tökum og byrja á því stigi, en ég get ekki varizt þeirri hugsun eftir þá ræðu, sem hann flutti hér í fyrra sem svar við fsp. um þetta mál og við yfirlestur á þeirri ræðu, sem ég las núna um daginn, að þá finnst mér, að það sé raunverulega ekki alveg hinn rétti andi í sambandi við athugun á þessu máli. Ég er ekki að segja, að í öllum atriðum sé hægt að fara eftir því frv., sem hér liggur fyrir frá hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 2, þm. Reykn., Jóni Skaftasyni, og einnig má vel vera að það frv., sem hv. 3. þm. Sunnl. hefur flutt og minntist á hér áðan, það þurfi eitthvað að samræma í þessu og athuga það. En á framkvæmdastig þarf þetta að koma fyrr en síðar. Við vitum það, að hv. þm. Guðlaugur Gíslason mun hafa flutt þetta m.a. vegna þess, að í Vestmannaeyjum hefur verið samþ. að leggja fé til þess að koma á stofn svona skóla. Ég veit það, að í Reykjaneskjördæmi og sérstaklega í Keflavík er einnig mikill áhugi fyrir þessu og iðnskólanemendur héldu fund um þetta í fyrra og vilja mjög vel, að þetta sé athugað. Nú skýrði hæstv. menntmrh. frá því, að það væri ný n., sem hefði verið skipuð til þess að athuga um þetta frekar og ég verð að segja það, að ég saknaði þess mjög, að hvorki fiskmatsstjóri né nokkur frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins var í þeirri n. Það er ekki af því, að ég beri neitt vantraust til þessara aðila, þeir eru áreiðanlega vel hæfir til sinna verka, en að mínu viti þá mundu þeir þurfa að fá leiðbeiningu frá þeim, sem hafa verið í sem nánustum tengslum við sjávarútveginn.

Ég skal ekki við þessa umr. orðlengja þetta mjög mikið, en ég held, að í huga hæstv. menntmrh. sé meira um það að ræða að veita æðri menntun í þessum efnum. Við þurfum vissulega á að halda mönnum með æðri menntun, fiskiðnfræðingum og doktorum og verkfræðingum og það má vel vera að það verði, áður en mjög langt um líður, hægt að stofna embætti við verkfræðideild Háskólans til þess að kenna þessi efni. En þetta er mjög langt og mikið nám. Við Íslendingar eigum t.d. fiskiðnfræðing, sem var hvorki meira né minna en 8 ár að læra þessar fræðigreinar vestur í Ameríku fyrir mörgum árum. Það sem var í mínum huga, var að það yrði stofnaður fiskiðnskóli, sem veitti undirstöðukennslu við meðferð fisks, svo kunnátta í þessum efnum mundi verða almennari en nú er hjá ungu fólki, þegar það kemur út í vinnslustöðvarnar. Ég veit, að það eru uppi hugmyndir um, að það eigi að stefna að því að setja á stofn fiskiðnskóla, fiskiðnfræðingaskóla o.s.frv. og það eru vissulega athyglisverðar hugmyndir, sem ég hef séð um það, að það verði byrjað á byrjuninni og námið verði í 5 liðum og það verði viss réttindi, sem hvert námsár veitir, eftir að komið er á annað eða þriðja námsár. Ég held, að við verðum að sjálfsögðu að leita talsvert til Norðmanna og það væri alls ekki úr vegi, að við tækjum þá okkur til fyrirmyndar í sambandi við kennslu í fiskiðnaðinum.

Ég sagði í þessari ræðu, sem ég vitnaði í áðan, að ég teldi það ekki endilega víst, að það væri nauðsynlegt að þetta væri í þéttbýlinu. Ég skal ekki halda fast við það og ef sveitungar mínir í Keflavík mynduðu aðstöðu til þess að koma þessu upp, þá mundi ég fagna því mjög. Ég hef kannske verið með það í huga, að Norðmenn hafa þann hátt á, að þeir hafa fiskiðnskóla í Vardö, sem er á 70. breiddargráðu og er 4—5 þús. manna bær. Þar kenna þeir í fyrsta lagi verkstjórum 4 mánuði og þar er aldursmarkið 35 ár til þess að fá inngöngu í skólann. Það er aðeins til þess, að þeir geti fullkomnað sig í sinni þekkingu í sambandi við þau störf, sem þeir hafa unnið. Það mætti kannske einmitt líkja þessu við þau námskeið, sem haldin hafa verið á vegum sjútvrn. á undanförnum árum. Í fyrra var settur á stofn skóli undir skólastjórn Sigurðar Haraldssonar. Milli 30 og 40 menn munu hafa sótt hann og hafa þeir áreiðanlega haft gott af, þótt stuttur tími væri.

En svo er næsta stigið, þ.e. 10 mánaða námskeið og það fær enginn að fara á það yngri en 18 ára. Það námskeið veitir ekki svo ýkjamikil réttindi. Það kennir meðhöndlun á fiski, bæði skreið, saltfiski, skelfiski o.s.frv. og helmingur tímans fer í bóklegt nám. Síðan er sex mánaða námskeið, sem þessir aðilar geta farið í þessum skóla og veitir það þeim þá rétt til verkstjórnar, matsréttindi o.s.frv. Það eru 10 Íslendingar, sem hafa sótt þennan skóla. Það munu vera 3 Íslendingar þar núna, en 10 munu í það heila hafa sótt þennan skóla. Hafa allir þeir, sem ég hef hitt af þessum aðilum, lokið upp einum munni um það, að þeir hafi haft mjög gott af þessu og þetta sé ágætur skóli. Eftir því sem mér er tjáð, þá eru núna uppi hugmyndir um það, að þessi skólaganga veiti aðilunum rétt að fara í matvælaiðnskóla og ég veit, að það er einn skóli í Þrándheimi í Noregi, sem útskrifar matvælaiðnfræðinga, ekki eingöngu í fiski, heldur einnig í kjöti og þess háttar. Það má segja að þetta allt saman þarf tíma til athugunar, en þeir sem taka að sér athugun á þessu, verða að kafa verulega ofan í það. Ég hef í mínum huga álítið, að þessi skóli væri einmitt líkur tækniskóla, en mér finnst hæstv. menntmrh. leggja höfuðáherzlu á, að þessi fræði verði kennd þar. Nei, það þarf að byrja á byrjuninni, það er mitt álit. Þessir skólar tveir, sem ég hef minnzt á, eru ríkisskólar, en í Stavanger er skóli, sem kennir niðursuðufræði og það eru einstaklingar, sem reka hann. Það er náttúrlega alls ekki hægt fyrir okkur að gera þetta allt undir einu þaki og koma þessu öllu fyrir á einum og sama stað. Það þarf að byrja á byrjuninni. Til viðbótar við þetta hefur mér verið tjáð, að í Lófóten í Noregi væri verið að gera tilraun með iðnfræðslu í fiskmeðferð og það er ekki langt síðan það byrjaði, en það er kannske næst þeirri hugmynd, sem iðnskólanemendur í Keflavík voru með í huga í fyrra, þegar þeir héldu sinn fund. Þetta þarf vissulega að athuga, en það er náttúrlega orðinn langur tími, sem þetta er búið að vera í athugun og ég segi það, að í heild er ég því mjög fylgjandi, að til framkvæmda komi. Ég er ekki að segja, að ég sé fylgjandi þessu frv., sem hér liggur fyrir, algjörlega eins og það liggur fyrir og ekki kannske frekar frv. hv. 3. þm. Sunnl. eins og það liggur fyrir, en að málið komist af umræðustiginu, mundi ég telja mjög mikla nauðsyn og það fyrr en síðar.