25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2688)

15. mál, námskostnaðarsjóður

Jónas Árnason:

Herra forseti. Sennilega hefur hv. síðasti ræðumaður ekki gert sér ljóst, að hæstv. menntmrh. er ekki staddur í salnum og raunar enginn hæstv. ráðh., því að hann beindi máli sínu í lok ræðu sinnar beint til ráðh. Það er ekki við því að búast, þegar menn standa hér í ræðustól, að menn geri sér ljóst, hve margir ráðh. eru staddir í salnum. Við höfum ekki augu í hnakkanum. En ég verð að segja það, að mér finnst ástæða til þess að víta það, að við þurfum að standa sér og halda ræður og hlusta á ræður dag eftir dag og iðulega langtímum saman, án þess að nokkur hæstv. ráðh. sé staddur í salnum. Að sjálfsögðu flytjum við ræður okkar ekki hvað sízt til þess að hafa áhrif á þá. —Ég biðst nú afsökunar, ég sé, að hæstv. utanrrh. situr hér í hliðarherbergi — en við flytjum að sjálfsögðu ræður okkar ekki hvað sízt til þess að hafa áhrif á þá, sem mestu ráða um stjórn landsins. Menn segja kannske, að hæstv. ráðh. séu að stjórna landinu. En ég spyr þá, hvað erum við að gera hér? Er þetta orðinn einhvers konar málfundaklúbbur?

Ég vek máls á þessu hér, vegna þess að ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er ekki sú, að ég ætli enn einu sinni að fara að halda ræðu um það mál, sem hér er til umr., þ.e.a.s. mismunandi aðstöðu ungs fólks til náms á Íslandi. Það hef ég margsinnis gert eins og við margir fleiri þm. utan úr dreifbýlinu, sem þekkjum vel þetta vandamál. Ég sakna þess, að hæstv. menntmrh. er ekki í salnum, vegna þess að ástæðan til þess, að ég stend hér upp núna, er fyrst og fremst sú ræða, sem hann flutti hér áðan. Þetta var ein af þeim ræðum hæstv. ráðh., sem einkennast mjög af orðinu „rækilegur“. Þetta orð kom fyrir aftur og aftur í ræðu hæstv. ráðh., bæði sem lýsingarorð í öllum kynjum, — það hafði farið fram rækileg athugun í málinu, rækilegt mat á mismunandi aðstöðu ungs fólks til náms, átt sér stað rækilegur undirbúningur og einnig kom það oft fyrir sem atviksorð — málið hafði verið rækilega athugað og ekki bara í eina viku eða einn mánuð, því málið hefur verið rækilega athugað undanfarin tvö ár. Og þessi rækilega athugun stendur enn.

Ég stend hér upp til þess að lýsa yfir stuðningi við það frv., sem hér liggur fyrir. En ég hefði látið nægja að greiða því atkv., ef ekki hefði verið þessi ræða. Mér hefur nefnilega virzt, að þegar hæstv. ráðh. ræðir mál, sem þannig hafa verið unnin, að það nálgist hvergi nærri merkingu þessa orðs, „rækilegur“, þá noti hann þetta orð þeim mun meira í ræðum sínum um þau. Og eins og við vitum, þá er síður en svo, að þeir, sem eiga að njóta góðs af þessari rækilegu athugun, hafi fengið að sanna það í reynd, að hún hafi borið rækilegan árangur. Ég vil sem sé endurtaka það, að mér virðist yfirleitt, að það sé maðkur í mysunni, þegar hæstv. ráðh. flytur þessar ræður sínar. Og það er að mínum dómi vægast sagt hlálegt, þegar verið er að tala um þessar 10 millj. í fyrra og 15 millj. núna, ,sem einhverja lausn á þessu máli. Því fer svo víðs fjarri, að með þessum 10 millj. í fyrra eða 15 millj. nú í ár hafi komið í ljós rækilegur árangur af hinni rækilegu athugun.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við frv. og þær brtt., sem hv. minni hl. flytur við það. En svona ti1 fróðleiks fyrir hæstv. menntmrh., sem nú er kominn í salinn, þá flutti ég þessa ræðu vegna þess, að mér virðist, að slælega hafi verið unnið að máli þessu, árangurinn af hinni rækilegu athugun hafi alls ekki verið í hlutfalli við það, hversu oft þetta orð kemur fyrir í ræðum hæstv. ráðh. um málið. Og þegar hæstv. ráðh. segir í lok ræðu sinnar, að með því að samþykkja till. hv. meiri hl. n. að vísa málinu ti1 ríkisstj., þá mundu alþm. vera að staðfesta það, að þeir vilji, að þessi rækilega athugun haldi áfram, þá virðist mér, að fengizt hafi sönnunin fyrir því, hve mikil þörfin er einmitt fyrir samþykkt þessa frv. og þá um leið þörfin fyrir áminningu til hæstv. ráðh. af hálfu hv. þm. um það, að þeim finnist, að ekki hafi nógu rækilega verið að þessum málum unnið.