25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2692)

15. mál, námskostnaðarsjóður

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. nema aðeins um nokkur orð. Ég vil taka það fram, að ég er einn þeirra þm., sem vilja stefna að því að jafna þann aðstöðmun, sem er fyrir nemendur í strjálbýli að stunda nám, og ég er í megin efnum sammála því, að það sé stefnt að því að stofna Námskostnaðarsjóð. En ég er ekki sammála því að lögbinda þetta nú á þessu þingi, það er annað árið, sem framlagið er veitt á fjárl. til greiðslu námskostnaðar og það hefur verið, eins og hefur komið fram hér áður í þessum umr., 10 millj. fyrra árið og 15 millj. á yfirstandandi ári, en það þarf auðvitað að hugsa betur fyrir tekjum slíks sjóðs eða tekjustofni. En það er eitt, sem ég er algerlega á móti, sem er í þessu frv. og ég vil láta það koma fram. Ég er á móti því að lögbinda það, að 5% af söluverði allra vara Áfengis— og tóbaksverzlunar ríkisins fari í Námskostnaðarsjóð, Í raun og veru er ég undrandi yfir því, að þeir .menn, sem eru algjörir reglumenn bæði á vín og tóbak og vilja alls ekki, að slík verzlun eða starfsemi sé í okkar landi, skuli blanda hugsjónarmálum sínum saman við það að láta brennivín og tóbak standa að meginhluta undir þessari fjáröflun. Og ég veit það, að jafnfróðir menn og 1. flm. þessa frv. er, gætu vel fundið betri og eðlilegri tekjustofn en þennan.

Ef við athugum, hvernig þessi mál standa núna, hver framlögin eru, sem eru 15 millj. og hvað hv. flm. leggja til, að sé lögboðið framlag samkv. þessu frv., þá er stökkið úr 15 millj. í 92 millj. Miðað við söluverð á áfengi og tóbaki árið 1969 samkv. ríkisreikningum, er það um 1.235 millj., sem mundi jafngilda um 62 millj. í sjóðinn, sennilega meira núna, og nálægt 30 millj. kr. í framlag ríkisins, 150 kr. á hvern íbúa landsins. Ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég tel það á engan hátt óeðlilegt og mjög athugunarvert að 1ögbinda framlag ríkissjóðs við ákveðna upphæð, sem væri miðuð við íbúatölu landsins, til að greiða í slíkan sjóð, sam stofnaður yrði. Ég er ekki sammála 1. flm. frv. í þeim efnum, að það sé hægt án þess að taka jafnframt til athugunar og það rækilegrar athugunar, svo að við notum marg umrætt orð menntmrh., öflun tekna til þess að standa bæði undir þessum útgjöldum ríkissjóðs og öðrum. Í raun og veru deilum við alls ekki um þörf þessa sjóðs, en ég held, að það sé nauðsynlegt bæði í þessum efnum og öðrum, sem við stefnum ti1 aukinna framfara á, að stíga ekki of stór skref í einu, þannig að við þurfum þá kannske næsta ár eða næstu ár að stíga skrefið til baka.

Ég er að mörgu leyti þakklátur hv. 1. flm. þessa frv. fyrir að hafa flutt það. Það verður auðvitað til þess að ýta undir framgang þessa máls og ég segi fyrir mitt leyti, að þótt ég geti ekki fallizt á þetta frv. af þessum ástæðum nú, þá er það ekki af illvilja til málsins, en ég tek það fram, að ég get greitt atkv. með því að vísa þessu máli til ríkisstj. í fullu trausti þess, að hún taki málið — hvort sem það verður þessi ríkisstj. eða sú sem við tekur — til rækilegrar athugunar og undirbúi löggjöf, sem hún leggi fyrir næsta Alþ. Ég hygg, að þegar menn vilja vera sanngjarnir í þessum málum, eigi þeir að geta fellt sig við þessa afgreiðslu, en þó því aðeins að þetta sé fyrir hendi. Mín mening er alls ekki að vísa þessu máli til ríkisstj. upp á það, að það yrði lagzt á það og ekkert gert meira í þessum efnum. Ég tel, að með þessari tveggja ára reynslu, sem fengin er af námsstyrkjunum, sé komið að því, að það eigi að undirbúa löggjöf. En ég vildi aðeins, að þetta sjónarmið mitt kæmi hér fram og sömuleiðis andúð mín á fyrri tekjuöflunarleiðinni, sem er í þessu frumvarpi.