27.10.1970
Neðri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (2724)

30. mál, verðstöðvun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég var nú farinn að halda, að hæstv. viðskrh. ætlaði að sitja hér þegjandi þrátt fyrir þær brýningar, sem hann fékk hér í framsöguræðu hv. þm. Lúðvíks Jósefssonar áðan og raunar var sú yfirlýsing, sem hæstv. ráðh. gaf, ákaflega efnislítil og raunar fólst ekki í henni neitt efni annað, en þetta almenna umtal um það, að ríkisstj. sé að ræða þessi mál efnislega við aðra aðila en Alþingi Íslendinga, þ.e. við fulltrúa Alþýðusambandsins, atvinnurekenda og bænda.

Nú hef ég ekkert á móti því í sjálfu sér, að hæstv. ríkisstj. ræði við þessa aðila og það er áreiðanlega mjög gagnlegt. En ég vil vara ákaflega mikið við því viðhorfi, sem hefur farið vaxandi að undanförnu, að slík mál sem þessi megi alls ekki ræða á Alþ., fyrr en hæstv. ríkisstj. er búin að taka endanlega ákvörðun og þarf að keyra málið í gegn á nokkrum dögum. Einmitt með þessu er verið að sýna Alþ. fullkomna óvirðingu og slík vinnubrögð hafa vaxið mjög á undanförnum árum. Ég held, að það sé skylda hæstv. ríkisstj. og hafi verið skylda ríkisstj. að gera Alþ. málefnalega grein fyrir stöðu þessara mála strax, þegar þing kom saman í haust og greina frá meginviðhorfum sínum um þau efni. Og raunar hefði hæstv. ríkisstj., ef hún hefði haft vald á viðfangsefnum sínum, átt að hafa tiltækar ráðstafanir, til þess að gera tillögur um, þegar þing kom saman. Ástæðan til þess, að verið er að ræða við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, er varla sú, að hæstv. ríkisstj. telji, þá ágætu menn, sem þar mæta á fundum, hafa svo mikla yfirburði fram yfir alþm., að betra sé við þá að ræða heldur en þá, sem sæti eiga hér í þessari stofnun. Ástæðan til þess, að verið er að ræða við þessa aðila, er sú, að hæstv. ríkisstj. ætlar að fara fram á vissa hluti við þessa aðila. Þetta vita allir. Og fyrst hæstv. ráðh. fór að víkja að þessum umr., þá hefði mér þótt ákaflega fróðlegt, að hann hefði svarað hér lítilli spurningu, sem býsna margir hafa velt fyrir sér að undanförnu. Það er þó nokkuð liðið síðan stjórn Alþýðusambandsins birti opinbera yfirlýsingu. Í þessari yfirlýsingu var það sagt í upphafi, að frá hálfu stjórnar Alþýðusambandsins væri það forsenda fyrir frekari viðræðum, að ríkisstj. lýsti yfir því, að hún mundi ekki beita neinum lögþvingunum til þess að takmarka þá samninga, sem gerðir voru í vor. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. að því, hvort ríkisstj. er reiðubúin til að gefa slíka yfirlýsingu, því að sé hæstv. ríkisstj. það ekki, þá finnst mér, að þessar viðræður séu þar með búnar að vera. En ég hef ekki séð þessa yfirlýsingu neins staðar. Hins vegar hef ég heyrt og það hafa býsna margir heyrt, að áform hæstv. ríkisstj. séu þau að koma í veg fyrir, að sú vísitöluuppbót, sem launamenn eiga rétt á 1. desember n.k., komi til framkvæmda með aðgerðum, sem fyrst og fremst verði gerðar á kostnað launamanna. Þ.e.a.s. þarna verði klipin út úr vísitölukerfinu þau 5-6–7 vísitölustig — að því er mér skilst, að sérfræðingar telji — með ráðstöfunum, sem raunverulega skerða þá samninga, sem gerðir voru í vor.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort þetta séu áformin. Það er ekkert betra, hæstv. ráðh., að láta fólk út um allt land vera að ræða þessi mál, en standa svo hér og segjast ekki geta sagt neitt við hv. alþm.

Raunar er það óljósa umtal, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft nú um skeið og ekki sízt hæstv. forsrh., um nauðsyn verðstöðvunar einhvern tíma síðar, ákaflega annarleg vinnubrögð. Verðstöðvun er ráðstöfun af svipuðu tagi eins og gengislækkun og ýmsar aðrar ráðstafanir. Hún hefur ákaflega víðtæk áhrif á hag margra aðila og það er þeim mikið hagsmunamál að vita slíka hluti fyrirfram. Einmitt þess vegna tíðkast það alls staðar í þjóðfélögum, að það er gripið til ráðstafananna í verki, áður en farið er að kvisast um þær. En að ráðh. standi upp og tilkynni, að það eigi að gera slíkar ráðstafanir einhvern tíma seinna, það er algerlega fráleitt. Og ég satt að segja efast um, að ráðherrum, sem þannig hegðuðu sér, væri talið vært í ráðherrastólum hér í nágrannalöndum okkar. Þetta er svo ósiðlegt athæfi og furðulegt og óskynsamlegt, að það tekur engu tali.

Mér hefur virzt það dálítið furðulegt að undanförnu, þegar hæstv. ráðh. hafa verið spurðir um verðbólgumál, til að mynda í sjónvarpi, að fylgjast með viðbrögðum þeirra. Þeir hafa sett upp svona vinsamlegt bros og sagt: „Ja, þetta er nú vandamál, sem flestum hefur gengið illa að ráða við síðustu 20–30 árin.“ Þeir virðast vera búnir að gleyma því, þessir ágætu ráðherrar, að þeir tilkynntu fyrir rúmum áratug, að þeir hefðu fundið ráðin, sem dygðu. Þeir bjuggu til í viðreisnarkerfinu alveg tiltekna aðferð og ég vil leyfa mér að rifja hana hér upp, með leyfi hæstv. forseta, fyrst hæstv. ráðh. eru alveg hættir að nefna hana. Í þeirri ágætu bók Viðreisn segir svo á bls. 23 um það ástand, sem upp muni koma eftir viðreisnarráðstafanirnar:

„Ákvörðun grunnlauna verður eftir sem áður háð frjálsum samningum á milli atvinnurekenda og stéttarfélaga. Þrátt fyrir þetta getur ekki hjá því farið, að viðhorfið í launamálum verði annað að lokinni framkvæmd þeirra ráðstafana, sem hér er gert ráð fyrir, heldur en það hefur verið um langt skeið undanfarið. Útflytjendur hafa um margra ára skeið talið öruggt, að þeir gætu fengið sérhverja launahækkun, er þeir veittu starfsmönnum sínum, jafnaða með hækkun útflutningsbóta. Á sama hátt hafa aðrir atvinnurekendur miðað við það, að þeir gætu fengið sérhverja launahækkun endurgreidda í hækkuðu verði á vörum sínum og þjónustu. Þetta hefur orðið til þess, að æ ofan í æ hefur verið samið um launahækkanir, sem ekki áttu sér stoð í auknum framleiðslutekjum og ekki gátu heldur leitt til breyttrar tekjuskiptingar þjóðarinnar. Slíkar launahækkanir eru launþegum gagnslausar, en leiða hins vegar til verðbólgu og hafa þannig hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir efnahagslíf landsins, þegar til lengdar lætur.

Ríkisstj. telur, að með þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem tillögur hennar fela í sér, muni nýtt viðhorf skapast. Útflytjendur verða framvegis að sæta ríkjandi gengi og geta ekki fengið aukinn launakostnað endurgreiddan í hækkuðum útflutningsbótum. Þá er það einnig ætlun ríkisstj. að leyfa engar verðhækkanir á innlendum vörum og þjónustu vegna launahækkana. Með þessu móti getur því aðeins skapazt grundvöllur fyrir launahækkunum, að um sé að ræða aukningu framleiðslutekna, sem launþeginn njóti góðs af fyrir sitt leyti í hækkuðu kaupi. Það er líka aðeins með þessu móti, sem launahækkanir geta orðið launþegum til raunverulegra hagsbóta.“

Þetta var sú einfalda aðferð, sem viðreisnarstjórnin hafði fundið, sem sé sú, að atvinnurekendur yrðu sjálfir að standa við þá kjarasamninga, sem þeir gerðu og sjálfir að greiða þær kauphækkanir, sem þeir semdu um, en þeim yrði ekki leyft að velta kauphækkununum aftur út í verðlagið, þeim sem það geta hér innanlands og útflutningsiðnaðurinn gæti ekki treyst því að fá beinar eða óbeinar gengislækkanir til þess að aðstoða sig. Þetta var stefna hæstv. ríkisstj. og ég get sagt það alveg hreinskilnislega, að þetta er í eðli sínu alveg rétt stefna. Það er að vísu ekki hægt að framkvæma hana eins og einhverja kreddu. Atvinnurekendur eru oft mismunandi vel undir það búnir að standa við slíka samninga og það mun þurfa að gripa til ýmissa efnahagsráðstafana til þess að jafna þau met. En engu að síður er það algert grundvallaratriði, að kjarasamninga verður að gera þannig, að atvinnurekendur standi við þá sjálfir, því að sú aðferð, sem tíðkast nú, að menn velti af sér því, sem þeir semja um, út í verðlagið, leiðir ekki til neins annars en þess, að nýjar kollsteypur blasa við, fyrst óðaverðbólga innanlands og síðan gengislækkanir.

Ríkisstj. sagði í viðreisnarplaggi sínu, að grundvöllur fyrir launahækkunum þurfi að vera aukning framleiðslutekna. Það vita allir, að um slíka aukningu var að ræða í vor og um það eru ótvíræðar yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj. Því var fyllsta ástæða til þess að krefjast þess, að þessi stefna viðreisnarstjórnarinnar yrði framkvæmd í vor og að í vor yrðu gerðar ráðstafanir til þess að leyfa engar verðhækkanir á innlendum vörum og þjónustu vegna launahækkana, eins og þarna er komizt að orði. Þessi stefna, sem ég er hér með er, eins og ég sagði áðan, á engan hátt tilbúningur minn. Þetta er sjálf hin hvíta bók viðreisnarinnar.

En aðalerindi mitt hér upp í ræðustólinn var þetta, að fá svör hæstv. ráðh. við þeim spurningum, sem ég bar fram, annars vagar um það, hverju ríkisstj. ætlar að svara skilyrði Alþýðusambands Íslands, og í annan stað, hvort það sé rétt, að ríkisstj. hugsi sér að svara því í verki á neitandi hátt og ætli í staðinn að skerða þá samninga, sem gerðir voru í sumar, með því að taka af 5–6 eða 7 vísitölustig, fyrst og fremst á kostnað launamanna.