04.11.1970
Neðri deild: 12. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (2757)

46. mál, menntaskólar

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Það var á Alþ. 1964–1965, sem lagt var hér fram stjfrv., þar sem menntaskóli á Austurlandi skyldi tekinn í lög. Og þetta frv. varð að lögum á þinginu 1964 –1965. Ég hafði mikinn áhuga fyrir því, að þetta fengist lögfest, en menntaskólinn á Austurlandi er samt ekki enn þá orðinn að veruleika. Þess vegna hef ég nú flutt frv. um breyt. á menntaskólalögunum á þskj. 46, sem gerir ráð fyrir því, að í stað þess, að svo er til orða tekið í gildandi lögum, að menntaskóli skuli vera einn á Austurlandi, þá verði honum ákveðinn staður á Eiðum á Fljótsdalshéraði. Það þarf vafalaust ekki að fara mörgum orðum um það nú og ég held, að það sé almennt viðurkennt, að þetta er mjög mikilvægt mál fyrir byggðarlögin og landshlutana, að menntaskólar séu sem víðast starfandi. Þetta er, ef svo mætti segja, sjálfstæðismál og það er nú einu sinni þannig, að landshlutarnir og byggðarlögin — Austurland í þessu tilfelli, — þau eru heildir í þjóðfélaginu, — það eru ekki aðeins kjördæmin, ekki aðeins vegna kjördæmaskiptingarinnar, það er landfræðileg skipting og stjórnarfarsleg og stundum kannske ein eða fleiri heildir innan kjördæmanna. En landshlutarnir eiga sín sjálfstæðismál og þau eru einhver hin þýðingarmestu fyrir líf og framtíð byggðarlaganna víðs vegar og ég vildi jafnframt segja, að sem sjálfstæðust landsvæði eru líka lífsnauðsyn fyrir þjóðfélögin. Ég orðaði þetta einu sinni þannig á raforkuráðstefnu, sem haldin var á s.l. sumri, að þessar heildir væru „líffræðileg nauðsyn“ þjóðfélags. Ég býst ekki við að það þurfi að fjölyrða mikið um þennan þátt. Ég held, að það sé almennt að verða viðurkennt, hversu mikilvægt einmitt þetta atriði er. Og meðal þeirra mála, sem þarna eru mjög mikilvæg, eru einmitt skólamálin. Skólakerfi hverrar heildar þarf að spanna sem mest af menntabrautinni, ella er hætt við, að vanmáttarkennd skapist, sem er versta dauðamark byggðarlags eða landshluta. Menntaskóli á Austurlandi er þess vegna sjálfstæðis— og jafnréttismál. Nú er það staðreynd, að hann er í lögum. En það hefur samt sem áður skort nokkuð á. — Það, sem þarf að ske áður en skólinn verður veruleiki, er að ákveða, hvar hann skuli reistur. Ég hef frá upphafi verið þeirrar skoðunar, að á Eiðum á Fljótsdalshéraði, sem er elzta menntasetur á Austurlandi, — ætti þessi skóli að rísa. En ástæðan til þess — eða sú er a.m.k. meginástæðan til þess, að staðarvalið er enn óútkljáð, er verulegur ágreiningur um þetta mál í heimabyggðunum.

Mig langar til í þessari framsögu að vitna hér í kafla úr skólasetningarræðu á Eiðum frá 13. október 1968, sem skólastjórinn þar, Þorkell Steinar Ellertsson, flutti. Með leyfi hæstv. forseta, þá segir svo í þessum kafla ræðunnar:

„Þá langar mig að víkja nokkrum orðum að menntaskólamálinu og sérstaklega vegna þess, að Eiðar eru einatt nefndir í því sambandi. Til þess að gera sér sem ljósasta grein fyrir því öllu nægir ekki að einblína á einn stað og eina sögu, heldur verður að skyggnast til allra átta. Fyrst er nauðsynlegt að gefa gaum þeirri almennu þróun, sem átt hefur sér stað í skólamálum hér á landi hin síðari ár og síðan að kanna, hvað væntanlegt er á næstunni. Það mun allur almenningur sjá, að nú stefnir að því hröðum skrefum, að skyldunámið færist heim í viðkomandi sveitarfélög eða byggðarlög. Alls staðar í þéttbýli er þetta nú þegar staðreynd. Borgarfjörður eystri mun hafa rekið lestina, en í sumar tóku þeir þá ákvörðun að hafa 2. bekk í vetur og verður svo væntanlega áfram.“ Ég vek athygli á því, að þetta er sagt fyrir tveimur árum, haustið 1968. — „Margir hreppar hafa einnig leyst sín mál á viðunandi hátt, eins og t.d. Hallormsstaðarskólinn ber vitni um. Þetta er að sjálfsögðu gleðileg þróun og eðlileg. Og að því dregur innan örfárra ára, að fræðsluskyldunni verður fullnægt í öllum sveitarfélögum í fjórðungnum, annaðhvort upp á eigin spýtur eða með samstarfi við aðra. Það sjá líka allir, að fleiri bekki verður að leggja niður á Eiðum en þann fyrsta.“ — Ég vil skjóta hér inn í, að einmitt þá var kennsla 1. bekkjar lögð niður, en áður höfðu verið fjórir bekkir á hverjum vetri. — „Forsendan fyrir rekstri 2. bekkjar er þá líka horfin. Reyndar sjáum við þess ótal merki í dag, hvert stefnir, t.d. eru í vetur aðeins tólf nemendur í 2. bekk hér að Eiðum (þ. e. 1968–1969).

Berum þróunina hér saman við það, sem er að gerast á Norðurlöndum, enda er það yfirlýst stefna Norðurlandaráðs, að skólamál Norðurlandanna beri að samræma og fella að mestu í svipaðan ramma. Er þar skemmst af að segja, að fræðslukerfi frændþjóða okkar hefur breytzt mikið að innri gerð hin seinni árin og alls staðar á Norðurlöndum er nú komin 9 ára skólaskylda. Skyldunámi þar lýkur upp úr 3. bekk unglingaskóla og samsvarar það nokkurn veginn 3. bekk gagnfræðaskóla hjá okkur. Nemendur geta þá valið um framhaldsskóla af ýmsu tagi, eins og tækniskóla, verzlunarskóla, menntaskóla, iðnskóla o.fl. 4. bekkur gagnfræðastigsins er þar ekki til lengur nema á örfáum stöðum í Danmörku. Allt bendir til þess, að gangurinn verði svipaður hjá okkur. Fljótlega eftir að fræðsluskyldunni verður fullnægt um meiri hluta landsins, verður skyldan lengd um eitt ár. Sennilegt er, að um það leyti verði kennsla á barnaskólastiginu orðin það örugg og námið það samfellt, að hægt verði að fella niður 4. bekk gagnfræðastigsins og nemendur ljúki sambærilegu námi ári fyrr en tíðkast í dag. Þegar að því dregur, að við þurfum að bæta við þessum 9. bekk skyldunámsins og það verður langtum fyrr en okkur sjálfsagt öll grunar, verður varla um það rætt að flytja nemendur í sérstaka skóla til að ljúka þeim vetri. Þeim bekkjardeildum verður einfaldlega bætt við skylduskólann í heimasveitinni og það verður lítið vandamál. Á mörgum stöðum er aðstaða fyrir hendi þegar í dag og annars staðar verður bætt við húsakynni því, sem á vantar. Með því að renna huganum á þennan hátt fram í tímann má sjá, að hrepparnir munu ekki einvörðungu taka að sér fræðsluskyldu fyrir 1. og 2. bekk, heldur einnig þann 3. Og með bættum skólaháttum verður 4. bekkur lagður niður og íslenzka skólakerfið samræmt því, sem gerist á Norðurlöndum. Þá verður hinni 9 ára fræðsluskyldu fullnægt í öllum hreppum á Austurlandi, og fólk á Borgarfirði, Seyðisfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Egilsstöðum, Hallormsstað og öðrum skólastöðum í fjórðungnum þarf ekki að senda unglinga sína langar leiðir til þess að ljúka hinu almenna undirbúningsnámi. Það verður kennt í heimabyggð. Í sérskólana verður eftir sem áður að sækja, en um það gegnir öðru máli. Unglingarnir eru þá orðnir þroskaðir og ærinn munur er það fyrir foreldra að senda slíkt fólk að heiman í framhaldsskóla eða 13 ára reynslulítinn ungling í 8 mánaða heimavist.

Ef þróun mála verður sú, sem hér að framan greinir og allar líkur benda til, liggur í augum uppi, að Eiðaskóli mun láta af því hlutverki, sem verið hefur hans á undanförnum áratugum. Og það er tómt mál um að tala að byggja nýjan héraðsskóla á Austurlandi. Hér þarf fyrst og fremst að koma hinni almennu fræðsluskyldu í viðunandi horf, bæta við 9. skylduárinu og vinna að stofnun framhalds– og sérskóla fyrir fjórðunginn. Og sá framhaldsskóli, sem helzt ber á góma um þessar mundir, er Menntaskóli Austurlands. Nokkuð hefur borið á því undanfarið, að vissir hreppar hafi af hagsmunaástæðum lagt sig fram um að toga menntaskólann inn á sitt yfirráðasvæði, en slíkt er málefnum fjórðungsheildarinnar hreint ekki til framdráttar. Sjónarmið einkahagsmuna mega aldrei verða til þess að ráða staðsetningu mikilvægra stofnana, hverju nafni sem nefnast. Þeirri upphæð, sem bygging nýs menntaskóla mundi kosta, ætti að verja til þess að bæta þá góðu aðstöðu, sem fyrir er á Eiðum, en afgangi upphæðarinnar til uppbyggingar skólamála í fjórðungnum almennt. T.d. þarf á næstu árum að stofna til miðskóladeilda á Egilsstöðum, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og víðar. Möguleiki er á því hvenær sem er að koma upp menntadeildum við Eiðaskóla. Til þess þarf aðeins samþykki viðkomandi yfirvalda. Síðar yrði að stofna menntaskólann formlega, ráða honum forráðamenn og starfslið. Fjölmörg rök önnur, tilfinningalegs, landfræðilegs, menningar— og sögulegs eðlis hníga að því, að Eiðaskóli verði áfram í framtíðinni sú menningarmiðstöð fyrir Austurland, sem upphaflega var til ætlazt, en þau rök munu ekki rakin hér. Aðeins hefur verið drepið á þann þáttinn, sem hvað minnst hefur verið um fjallað og sem e.t.v. skiptir langmestu máli.“

Hér lýkur tilvitnuninni í þennan kafla úr skólasetningarræðunni frá því haustið 1968. Og ég hef kosið að kynna hann hér vegna þess að mér sýnist, að allt það, sem þar kemur fram, hafi reynsla þessara tveggja ára, sem liðin eru síðan, staðfest enn þá betur. T.d. eru nú þegar komnar miðskóladeildir í flestöllum þessum þéttbýlisstöðum á Austurlandi. Það má að vísu segja, að enn þá sé ekki fram komin sú spá í þessari ræðu, sem ég var að vitna hér til, að skólaskyldan verði 9 ár, en mér er nær að halda, að það muni þegar á þessu yfirstandandi Alþ. koma fram í frumvarpsformi. Í öllu falli virðist mér af mínum kynnum af skólamönnum, að þá sé einmitt þessi breyting á fræðsluskyldunni á næsta leiti. Og það er verulegt atriði í þessu máli. Ég ætla ekki að halda langa ræðu hér við framsögu þessa máls, en mér er það nokkur þyrnir í augum og fleinn í holdi, að ekki skuli miða betur áfram en raun ber vitni þessu menntaskólamáli Austurlands. Það er engan veginn, að ég beri nokkra öfund til Vestfirðinga, þó að þeir hafi komið sínum skóla á stofn, heldur þvert á móti samgleðst ég þeim yfir því, að skólinn er þar orðinn að veruleika. En eins og fram kemur í þeirri grg., sem ég lét fylgja með frv., þá sýnist mér, að sú ósamstaða, sem er heima fyrir um staðarvalið, muni jafnvel enn geta tafið þetta mál og þess vegna vil ég freista þess að leysa þann hnút með því að, að geri það og ég tel í raun og veru að það sé skylda þess að gera það.

Málum er þannig háttað í vetur á Eiðum, að þar er komin framhaldsdeild, sem er í samræmi við þá breytingu, sem gerð var með brbl. á s.l. ári eða sumarið 1969 og ég held, að Eiðaskóli sé eini alþýðuskólinn, sem hefur tekið þessa deild upp og það var einfaldlega vegna þess, að það var rúm fyrir hana, möguleiki til að koma henni á. Í öðrum héraðsskólum mun hins vegar hafa verið þannig ástatt, að þeir bekkir, sem hingað til hafa verið í skólunum, — þeirra skólarými hefur verið fullsetið. Þetta gefur líka bendingu um, hvert stefnir. Það er enginn vafi á því, að í huga Austfirðinga yfirleitt er viss ljómi yfir Eiðaskóla, og allir viðurkenna, hversu mikils virði hann hefur verið fyrir Austurland alla sína tíð. En menn greinir á um það, hvort ekki sé þörf fyrir hann eftirleiðis í því formi, sem hann hefur starfað, alveg eins og hingað til. Einnig eru nokkrar raddir uppi um það, þegar rætt er um staðsetningu, að það sé ekki heppilegt, að menntaskólinn sé ekki settur í nokkurt þéttbýli. Ég vil upplýsa það, að vegalengd t.d. frá Egilsstöðum er ca. 14—15 km og ég hef oft bent á það í viðræðum við menn, að a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu væri slík vegalengd ekki talin mjög mikilvæg og eins og hefur skeð, ef við litum ögn til baka, þá hafa allar fjarlægðir raunverulega farið minnkandi og ég held, að svo verði einnig á næstu árum, þannig að þessi ástæða, eða þessi röksemd, er í mínum augum mjög léttvæg.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að, að lokinni þessari 1. umr. verði málinu vísað til hv. menntmn. og ég vænti þess, að hún leiti þá jafnframt umsagna, þar sem hún telur ástæðu til, um þetta mál, ef þær kynnu að geta upplýst eitthvað betur heldur, en mér hefur tekizt í þessum fáu framsöguorðum og í þeirri grg., sem frv. fylgdi. En ég vil jafnframt láta í ljós þá ósk til hv. n. og til Alþ., að það afgreiði þetta mál á þessu þingi.