19.11.1970
Neðri deild: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

4. mál, ríkisreikningurinn 1968

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því hér áðan, hvaða ástæða var til þess, að ríkisreikningurinn 1968 var það seint á ferðinni á s. l. vetri, að hann var ekki afgreiddur frá hv. Alþ. Sú breyting, sem gerð var á ríkisbókhaldinu þá, var umfangsmikil og tímafrek, og auk þess verða mannaskipti í embættum ríkisbókara og ríkisendurskoðanda, svo að allt stuðlaði þetta að því, að reikningurinn var seint á ferð, þó að vel hafi til tekizt með val á embættismönnum í þessi störf að minni hyggju. Þeir hafa unnið verk sín vel og drógu ekki af sér við þau.

Ríkisreikningurinn var lagður fram í hv. Ed., svo að það hefur ekki gefizt tækifæri til þess fyrr en nú að víkja að þeim aths., sem við hann eru gerðar af hálfu okkar yfirskoðunarmanna. Ég sé því ástæðu til þess að víkja að þeim lítils háttar við þessa umr. Ég vil taka það fram, að eins og verið hefur undanfarin ár, standa allir yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins að þeim aths., sem fram eru bornar, og var enginn ágreiningur hjá þeim um eitt eða annað, er að þeim lýtur. Hins vegar er það svo, að flestum af þessum aths. hefur verið svarað og úrskurður verið felldur um þær, en aðeins tveimur er vísað til aðgerða Alþ. og hv. Ed.

Í sambandi við 1. aths., sem er um innheimtu hjá innheimtumönnum, þá er það svo sem fyrr, að heldur hefur aukizt það, sem óinnheimt er, og getur það legið í því, hvað tölur allar eru orðnar hærri en áður var, eins og kunnugt er. Það hefur komið fram sú skoðun hjá okkur yfirskoðunarmönnum, að rétt væri, að innheimtumenn létu ríkisendurskoðuninni í té skuldalista yfir þá aðila, sem skulduðu embættunum og ekki hefði tekizt að innheimta hjá. Hins vegar var það hugsað svo, að það væri gert, þegar um var að ræða stærri innheimtur, en ekki smáinnheimtur, eins og að líkum lætur. Rn. hefur hins vegar talið, að ekki væri ástæða til þess að fara inn á þessa braut — taldi hana of tímafreka — og það eftirlit, sem ríkisendurskoðunin hefði með þessum hlutum, nægði. Vel má það vera, að svo sé, þó að ég hefði hins vegar talið, að hitt hefði verið heppilegra, þegar um stærri innheimtur væri að ræða, svo að ekki væri hægt, án þess að tekið væri eftir því, að láta innheimtur eiga sig á milli ára, eins og að öðrum kosti gæti komið fyrir.

Í sambandi við innheimtumenn og störf þeirra, þá vil ég geta þess, að á því fyrirkomulagi hefur nú verið gerð breyting, sem var mesta nauðsyn að gera. Eins og kom fram síðast, þegar ríkisreikningur var ræddur hér í þessari hv. d., var sá háttur á hafður, að lægju hjá innheimtumönnum ógreiddir reikningar, sem ríkinu bar að greiða, en það hins vegar taldi sig ekki hafa fjárveitingu til að greiða eða af öðrum ástæðum vildi ekki borga á því ári, þá lá það sem óinnheimt hjá innheimtumönnum og kom fram sem vanskil hjá innheimtumönnum og gaf því ranga mynd af viðskiptum þeirra. Ég minnist þess, að í sambandi við umr. um ríkisreikninginn fyrir árið 1967 kom nokkuð fram um, hvað mikið væri óinnheimt og hversu miklu væri óskilað hjá sýslumanninum í Húnavatnssýslu. Á s. l. vetri mun það hafa verið — hitti hann mig að máli og lét mér þá í té grg. um það, hvernig þessi mál stóðu hjá honum raunverulega. Þar kom í ljós, að hjá honum lágu reikningar á ríkissjóð, sem höfðu verið ógreiddir og rn. höfðu ekki viljað fallast á að greiða á því ári, og þetta leit því út eins og um væri að ræða óskilað fé af hans hendi. Hins vegar var hann búinn að inna þessar greiðslur af hendi, og síðar meir voru þessir reikningar teknir og viðurkenndir og greiddir. Þetta vildi ég láta koma hér fram, svo að þessi embættismaður væri hvorki af mér né öðrum hafður fyrir rangri sök í þessum efnum. Nú hefur þessu hins vegar verið breytt, svo að ljóst er, hvað liggur hjá embættismönnunum af slíkum reikningum, ef þeir eru fyrir hendi, og hverju þeir eiga eftir að skila. Í sambandi við innheimtu og óskilað fé 1967 þá fengum við frá fjmrn. skilagrein um það, hvenær þessum greiðslum hafði verið skilað á árinu 1968, og kom það í ljós, að megninu af þessu var skilað á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta vildi ég einnig láta koma hér fram vegna þeirra umr., sem um þessi mál hafa orðið.

Ein af þeim fsp., sem við yfirskoðunarmenn beindum til rn., var um það, hvað margar n. hefðu starfað á vegum ríkisins — þar með talin nefndarstörf vegna lagafrv. — á árinu 1968, hver hefðu verið launakjör nm. og hvað margar hefðu lokið störfum. Rn. taldi sig ekki geta svarað þessu, og m. a. kom þetta fram í svari rn. við þessari fsp., með leyfi hæstv. forseta:

„Talning er ekki til á „nefndum“, sem störfuðu á árinu 1968, en gerð var tilraun á vegum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar síðari hluta sumars 1969 til að gera talningu af þessu tagi. Var þá leitað til allra rn. eftir upplýsingum um n. og ráð óskýrgreint eins og gert er í fsp. og má af svörunum ráða mjög greinilegan skoðanamun milli rn. um, hvað skuli telja starfsemi af þessu tagi og hvað ekki. Í önnum fjárlagaundirbúningsins fyrir árið 1970 var þessu verki ekki lokið.“

Yfirskoðunarmenn féllust á það, að réttmætt væri, fyrst þetta reyndist svo mikið verk að telja þessar n., að þessu yrði frestað til ársins 1969 og að skrá yrði látin fylgja ríkisreikningi fyrir árið 1969, og er úrskurðurinn eða till. þar um svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Að svarið fylgi ríkisreikningi 1969 og sé að öllu leyti miðað við það ár og í svarinu sé eingöngu miðað við eftirtalin launuð störf: 1. Stjórnir og ráð, sem Alþ. kýs, þ. á m. bankaráð. 2. Nefndir kjörnar og skipaðar samkv. lögum og ályktunum Alþ. 3. Nefndir skipaðar af stjórnvöldum og enn fremur verkefni, sem einstökum aðilum er fengið, svo sem athugun einstakra mála og undirbúningur lagafrv., sem sérstakar greiðslur koma fyrir þótt ekki sé um formlega nefndarskipun að ræða. Á þetta einnig við hliðstæð störf, sem unnin eru á vegum einstakra ríkisstofnana.“

Hér er þetta afmarkað, hvernig yfirskoðunarmenn hugsa sér, að þetta svar, sem á að koma með ríkisreikningnum 1969, eigi að vera. Og þar sem frá þessu var gengið s. l. vor, vonumst við til, að þessu verki sé nú lokið og þetta komi greinilega fram, svo að ekki verði um það deilt lengur, áður en endurskoðun ríkisreikningsins fyrir árið 1969 verði lokið. En yfirskoðunarmenn sem sé féllust á það, að tími væri of skammur til þess að vinna þetta verk, og þess vegna bíður það þess árs. Sama var að segja um fsp. þá, sem var um ómælda yfirvinnu, sem kom fram á þessum ríkisreikningi og ekki var talið hægt að svara á þeim skamma tíma, sem var til þess að svara þessum fsp. Einnig er ætlazt til, að skrá yfir ómælda yfirvinnu verði látin fylgja reikningnum 1969 og grg. vegna þess, af hvaða ástæðum þessar greiðslur fari fram.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan, þá var eitt atriðið, sem vísað var til aðgerða Alþ., til komið vegna úrskurðar í sambandi við endurskoðun á reikningum húsameistaraembættisins. Þegar reikningurinn fyrir árið 1967 var til meðferðar hér á hv. Alþ., lá ekki fyrir endanlegur úrskurður ríkisendurskoðunarinnar á þeim aths., sem þeir höfðu gert við þann reikning. Hann kom svo síðar á árinu 1968, og var sá úrskurður sendur yfirskoðunarmönnum strax og hann hafði verið felldur, og þeir hafa fengið allar þær upplýsingar í þessu máli, sem fyrir liggja og óskað hefur verið eftir. En ástæðan til þess, að þetta er sent Alþ. til úrskurðar, er fyrst og fremst sú, að það var ágreiningur um það á milli dómsmrn. annars vegar og fjmrn. hins vegar, hvernig með þetta mál skyldi farið. Úrskurður sá, sem gildir um meðferð málsins, var kveðinn upp af hæstv. dómsmrn. og án þess að samráð væri haft við fjmrn. eða ríkisendurskoðunina.

Eins og fram kom hér við umr. um reikninginn 1967, var þarna um að ræða nokkrar greiðslur, sem ríkisendurskoðunin taldi, að ekki hefði átt að inna af hendi, m. a. voru þetta greiðslur fyrir yfirvinnu og aukastörf til nokkurra aðila, sérstaklega þriggja aðila, við þetta embætti. Í fyrsta lagi var það forstjóri embættisins, í öðru lagi skrifstofustjóri og í þriðja lagi gjaldkeri, auk þess, sem fleiri aths. komu fram. Áður en til úrskurðar kom, hafði dómsmrn. fellt úrskurð um endurgreiðslu á yfir- og aukavinnustörfum forstjóra embættisins. Þegar úrskurður ríkisendurskoðunarinnar var upp kveðinn, var búið að draga þá greiðslu frá, svo að sú upphæð, sem forstjóranum var gert að greiða var að þessu frádregnu. Eins og kemur fram í aths. við þennan ríkisreikning, greiddi forstjórinn, þ. e. húsameistari ríkisins, það, sem honum var gert að greiða, og yfirskoðunarmenn fengu skilagrein frá hendi ríkisendurskoðunar um dagsetningu á öllum greiðslunum, og var þeim lokið, áður en gengið var frá aths. við þennan reikning. Þetta er tekið fram, og vil ég undirstrika það. Hins vegar kvað dómsmrn. síðar upp úrskurð um greiðslur fyrir yfir- og aukavinnu til skrifstofustjóra og gjaldkera í sambandi við þær endurgreiðslur, sem þeir áttu að inna af hendi, og sá úrskurður gerði það að verkum, að kröfur um endurgreiðslur féllu að mestu leyti niður.

Til þess að taka þar af öll tvímæli vil ég leyfa mér að lesa hér upp úr svörum dómsmrn. og fjmrn. um þetta mál, sem skýra það, að yfirskoðunarmenn töldu ástæðu til, að Alþ. segði sitt síðasta orð um þetta og það yrði ljóst framvegis, hver væri hinn raunverulegi réttur til úrskurðar í þessu. Fsp. yfirskoðunarmanna hljóðuðu svo:

1. Eru fordæmi fyrir því að greiða sama aðila fyrir aukavinnu í sínu eigin starfi jafnframt því, að hann bæti á sig störfum vegna annars manns og taki laun fyrir það við sömu stofnun?

2. Telur rn. ekki varhugavert að ákveða þóknun fyrir störf, sem unnin eru fyrir nokkrum árum?

3. Telur dómsmrn. sig geta ákveðið, án samráðs við launadeild fjmrn., eins miklar launaverðbætur og þarna voru ákveðnar?

Svar dómsmrn. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þriggja spurninga yfirskoðunarmanna er eftirfarandi tekið fram:

1.–3. Í aths. og úrskurði ríkisendurskoðunar (frá 10. febrúar 1969) er á það bent, að dómsmrn. þurfi að taka ákvörðun um og meta til greiðslu yfirvinnu viðkomandi starfsmanns húsameistaraembættisins á árabilinu 1965–1967, enda var það í samræmi við það, að ríkisendurskoðunin tók til úrskurðar samtímis reikninga þessara þriggja ára. Viðkomandi starfsmaður hafði um árabil unnið verulega yfirvinnu, og er augljóst, að sú yfirvinna jókst verulega, þegar hann, vegna veikindaforfalla annars manns, bætti á sig störfum hans. Það fer óhjákvæmilega eftir aðstæðum, hvort hentar betur, að forfallastörf séu unnin af samstarfsmönnum í yfirvinnu eða hvort mögulegt er að fá utanaðkomandi starfskrafta. Eins og fram kom í bréfi þessa rn. til fjmrn., dags. 4. marz 1969, vegna fyrri aths. yfirskoðunarmanna, taldi þetta rn. yfirvinnu hafa verið meiri við húsameistaraembættið en góðu hófi gegndi. Hins vegar telur rn., að fjmrn. hafi að sjálfsögðu tiltækar umfangsmeiri upplýsingar um aukavinnugreiðslur í ríkiskerfinu en dómsmrn. Þó skal bent á til samanburðar, en ekki sem fyrirmynd, á sviði þessa rn., aukavinnugreiðslur við fangagæzlu, og hjá rannsóknarlögreglunni. Það skal tekið fram, að áður en ákvörðun var tekin um framangreint mat á aukavinnu starfsmannsins 1965 til 1967, var leitað ráðlegginga ríkisendurskoðunar og launadeildar fjmrn. (þó án bréfaskrifta) um mat á aukavinnu, en hvorugur aðili taldi sér fært að gefa bendingar um, hvernig meta skyldi, enda vissulega hvorki aðgengilegt né ólíklegt til þess að vera vanmetið á báða bóga.“

Í sambandi við þessa grg. dómsmrn. tekur fjmrn. þetta fram:

„Í þessu sambandi telur fjmrn. rétt, að fram komi, að það skrifaði dómsmrn. bréf hinn 6. okt. 1969 um þetta mál. Í bréfinu kemur fram afstaða fjmrn. til málsins jafnframt því, sem bréfið svarar sjálfkrafa aths. yfirskoðunarmanna að því leyti, sem þær vita að fjmrn.“

Og svo kemur hér kafli úr bréfinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Í sambandi við úrskurð dómsmrn., um aukavinnugreiðslur til húsameistara og tveggja annarra starfsmanna húsameistaraembættisins, er óumflýjanlegt að vekja athygli á því, að dómsmrn. ber eitt ábyrgð á þeim launaúrskurðum, og ríkisendurskoðunin hefur ekki veitt samþykki fyrir þeirri málsmeðferð, svo sem vísað er til í bréfum dómsmrn. Þá verður að teljast næsta valasamt og geti leitt til ósamræmis í launagreiðslum til opinberra starfsmanna að úrskurða mjög háar aukalaunagreiðslur án samráðs við launamáladeild fjmrn. Loks er nauðsynlegt að fylgja almennt þeirri reglu að veita ekki aukavinnugreiðslur mörg ár aftur í tímann vegna ársreikninga ríkisstofnana, enda oftast eitthvað óeðlilegt við slíka langtímakröfugerð.“

Þetta er hluti af þeim bréfaskriftum, sem fóru fram á milli þessara tveggja rn. um þetta mál. Yfirskoðunarmenn töldu því ástæðu til, að Alþ. sjálft segði sitt síðasta orð um þetta mál, þar sem ágreiningur var á milli rn. um það. Nú vil ég taka það fram, að það hefur og komið fram, og ég las það í yfirlýsingu í Morgunblaðinu s. l. haust, að gjaldkeri sá, sem vann þá hjá húsameistaraembættinu, taldi sig hafa haft samþykki fyrir þessum launagreiðslum til sjálfs sín, sem hann innti af hendi þegar í upphafi, og þess vegna hefði hann innt þær af hendi. Það hafði hins vegar komið áður fram í gögnum málsins, að svo hefði ekki verið. Nú skal ég ekki um þetta dæma, enda ekki haft undir höndum annað um þetta en það, sem fram hefur komið í grg. frá embættinu, en tel þó rétt, að þetta komi hér fram, svo að það sé ljóst, að sá maður telur sig a. m. k. eiga málsbætur í þessu máli. En hins vegar varð niðurstaðan sú, að hann fékk þessar greiðslur, sem um var að ræða, samkvæmt úrskurði dómsmrn., þó að fjmrn. legði annað til.

Í sambandi við málið almennt — og sérstaklega þetta atriði málsins — finnst mér rétt, að það komi fram við afgreiðslu hv. Alþ. á ríkisreikningnum, þó að ég sé á engan hátt að gera kröfu til þess, að þessum úrskurði verði breytt, sem búið er að kveða upp — og ekki sízt ef það lægi fyrir eða eitthvað væri til í því, að umræddur aðili eins og gjaldkeri hefði haft samþykki fyrir greiðslunni, þá finnst mér, að það þurfi að vera ljóst, að slíkir hlutir geti ekki endurtekið sig, að hægt sé að greiða mönnum fyrir vinnu, hvort sem það er aukavinna eða yfirvinna, mörg ár aftur í tímann. Og það er t. d. eitt atriði, sem mér hefur orðið hugsað til í sambandi við þetta. Það er skattamál, hvernig með er farið, þegar slíkar greiðslur eiga sér stað. Eru þær þá taldar fram, þegar úrskurðurinn er upp kveðinn, eða hefur það verið gert, þegar greiðslurnar fóru fram? Ég held, að það sé öllum ljóst, að slíkt má ekki koma fyrir og þarf að fyrirbyggja. Það var nauðsyn á því, að umræður urðu um þessi mál. Ég fullyrði það, að þeim hefur þó verið komið í betra horf en áður var, og það er aðalatriði málsins. Í þetta ætla ég svo ekki að eyða fleiri orðum.

Við ríkisreikninginn 1967 gerðum við yfirskoðunarmenn aths. í sambandi við ríkisútvarpið, sérstaklega innheimtu þess. Við höfum einnig við þennan ríkisreikning gert þar nokkrar aths., sem byggðar eru á þeim aths., sem fram komu hjá ríkisendurskoðuninni. Eitt af því, sem fram kom við athugun á reikningi ríkisútvarpsins og aths. var gerð við hjá ríkisendurskoðuninni, var það, að ýmsir starfsmenn stofnunarinnar höfðu útvarpstæki og sjónvarpstæki frá stofnuninni, og spurt var um, eftir hvaða reglum væri farið þar um og hvort ráðh. hefði heimilað þetta. Í svari stofnunarinnar, sem er skýrt og afdráttarlaust, kemur það fram, hvaða aðilar það eru, sem njóta þess arna, og það er byggt á því að dómi stofnunarinnar, að þessir menn þurfi að hafa þessi tæki vegna starfs síns. Það kom einnig fram, að starfsmaður, sem hafði hætt og hafði haft tæki frá stofnuninni — sjónvarpstæki —hefði skilað því aftur. Hins vegar kemur það fram, að þetta hefur ekki verið borið undir ráðh. eða leitað eftir samþykki hans til þessa. Nú fannst okkur yfirskoðunarmönnum, að rétt væri, að ráðh. vissi um þetta og eðlilegast, að samþykki hans kæmi þar til. Þó að við séum ekki á neinn hátt að draga í efa, að þetta sé á rökum reist, þá væri það jafngott og ekki síður, ef þetta væri staðfest af ráðh., og eðlilegt teldum við, að það væri gert.

Enn fremur kemur það fram í sambandi við innheimtuna, að á síðari árum hefur innheimta útvarpsins verið gerð upp í skýrsluvélum. Í sambandi við það að gera hana upp í skýrsluvélum hefur komið fram nokkur mismunur á því, sem skýrsluvélarnar telja að útistandandi ætti að vera, og hins vegar því, sem talið er í höfuðstólsreikningi stofnunarinnar. Það kom líka fram í sambandi við reikninginn 1967, að ríkisútvarpið hafði í báðum deildum ekki talið til eigna né tekna þau gjöld, sem útistandandi voru, er reikningurinn var gerður upp. Um þetta atriði fór fram úrskurður í ríkisreikninganefnd, þar sem það var talið, að þeim bæri að telja þetta bæði til tekna og eigna, þ. e. álögð gjöld það ár, sem þau væru lögð á, en ekki að leggja þau svo til hliðar, eins og gert hefur verið. En hins vegar kemur fram nokkur mismunur á þessu hjá þessum deildum, þ. e. 35 þús. kr. koma fram sem mismunur, sem skýrsluvélarnar telja, að útvarpið eigi útistandandi af útvarpsgjöldum fyrir árin 1967 og 1968 umfram það, sem talið er á höfuðstólsreikningi stofnunarinnar. Og hjá sjónvarpinu er þessi upphæð rúmar 100 þús. kr. Samtals eru hjá þessum deildum báðum um 139 þús. kr., sem útistandandi ættu að vera eftir niðurstöðum skýrsluvéla miðað við það, sem höfuðstólsreikningurinn segir. Í sambandi við þessa fsp. svaraði ríkisútvarpið þessu, og m. a. kemur það fram í svarinu um þetta atriði, að þeir hafi gert sér grein fyrir því, að þessu bar ekki saman, og segja þeir svo í svari sínu, ríkisútvarpsmenn, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er rétt hjá yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, að ósamræmis gætir í eftirstöðvaskrám milli ársreiknings og eftirstöðvarskrár skýrsluvéla. Var um þennan mismun vitað, þegar reikningar voru samdir fyrir árið 1968. Um orsakir þessa mismunar er enn þá ókunnugt. Möguleikar á mistökum eru miklir auk þess, sem starfsaðstaða í innheimtudeild er mjög ófullkomin. T. d. eru ekki tök á því vegna þrengsla að varðveita spjaldakort tryggilega, né heldur er aðstaða til þess að fela vörzlu þeirra ákveðnum manni, sem sé ábyrgur fyrir þeim. Máske er skýringin einnig sú, að starfsfólk var ekki í upphafi þjálfað í því verki, sem hér um ræðir, og varð að tileinka sér nákvæm vinnubrögð við erfið vinnuskilyrði.“

Þetta svar er ekki, þó að það sé kannske samvizkusamlega af hendi leyst, svo gott sem skyldi, þegar það kemur fram, að í raun og veru er ekki hægt að hafa vald á því, hvort eitthvað fer þarna úrskeiðis. Og ég held, að það séu ekki neinar ýkjur í því eða það sé óeðlilegt, að um sé rætt, að innheimta ríkisútvarpsins er ekki svo góð sem skyldi. T. d. hafði ég af því sannar sagnir á s. l. hausti frá bændum í Borgarfirði, að þeir voru þá nýbúnir að fá bréf frá innheimtudeild ríkisútvarpsins, þar sem þeir voru krafðir um útvarpsgjöld nokkur ár aftur í tímann. Þessir sömu menn, sem margir hverjir eru miklir hirðumenn, voru svo lánsamir að eiga kvittanir yfir þessar greiðslur og höfðu þær sér til varnar. Hins vegar er það svo með þá, sem ekki halda kvittunum saman í mörg ár, sem margir gera nú ekki sízt til þess að forðast það, að allt of mikið af pappírum safnist fyrir hjá þeim, að þeir standa varnarlausir gagnvart þessu. Hér finnst mér um atriði að ræða, sem ekki verði horft fram hjá og verði að leiðrétta. Og ég sem sé vek athygli á því, að ríkisútvarpið sjálft telur, að möguleikar á mistökum séu miklir eins og þeir segja í svari sínu. Og ég hefði talið, að það væri ekki hægt að komast fram hjá því að leggja áherzlu á það, að úr þessu yrði að bæta og það fyrr en seinna og það yrði að koma föst skipan á þessi mál, svo að útilokuð yrðu þessi mistök, sem þarna hefðu orðið, því að það er afar óeðlilegt að gera reikning upp, þegar menn vita, að um mikla skekkju er að ræða, þar sem þarna munar tugum þúsunda. Og yfirleitt held ég, að það sé nú talið í reikningsfærslu, að sú hætta sé alltaf fyrir hendi, að meiri veilur geti leynzt, þegar þannig er gerður upp innlánsreikningur. Og auk þess verður að fyrirbyggja það, að verið sé að ræða um eða innheimta aftur gjöld, sem búið er að innheimta.

Eins og fram kemur í aths. hér, er það tekið fram af yfirskoðunarmönnum, að þeir geri ekki sérstakar aths. í sambandi við fjárreiður Lögbirtingablaðsins, þar sem það mál sé á rannsóknarstigi, eins og kom fram í blöðum á s. l. vetri. Þar sem það er í opinberri rannsókn, töldu þeir ekki ástæðu til, að vikið væri sérstaklega að því máli, enda verður það gert upp á þann hátt.

Að þeim atriðum, sem deila hefur orðið um milli bjargráðasjóðsstjórnar annars vegar og ríkisendurskoðunarinnar hins vegar, vil ég aðeins víkja, en þau atriði eru tvö. Í fyrsta lagi er um það að ræða, að á því ári, sem hér um ræðir, árinu 1968, var skipt upp húsnæði Bjargráðasjóðs milli þriggja leiguaðila. Og leiguaðilarnir voru sjóðurinn sjálfur, Lánasjóður sveitarfélaga og Samband ísl. sveitarfélaga. Jafnhliða þessu var það gert, að leigan var verulega hækkuð hjá þessum aðilum. Samband ísl. sveitarfélaga óskaði eftir því að fá eftirgefinn hluta af sinni leigu, vegna þess að það hefði ekki getað hagnýtt sér húsplássið, sem því var ætlað að greiða fyrir, og átti ekki raunverulega kost á því að hafa það á leigu. Hér var um smáupphæð að ræða, og finnst mér eðlilegt, að þessi krafa þess sé tekin til greina. Hitt atriðið var aftur í sambandi við ráðstöfun stjórnar Bjargráðasjóðs á fé úr deildum hans. Eins og kunnugt er, var lögunum um Bjargráðasjóð breytt, þar sem sérstök deild var stofnuð við sjóðinn, og það, sem ber á milli þeirra í Bjargráðasjóði og ríkisendurskoðunar, er, að úr sameignardeild var veitt fé vegna kals og annarra atriða í sambandi við landbúnaðinn, en endurskoðendur ríkisreikningsins töldu, að það hefði átt að veita þetta eingöngu úr afurðatjónadeild. Þeir bjargráðasjóðsmenn bera hins vegar fyrir sig, að það hafi ekkert verið því til fyrirstöðu, að úr þessari deild væri veitt, þar sem ákvæðum gagnvart henni hefði ekki verið breytt með þessari nýju deild. Það er ekki ástæða til að fara lengra út í þetta. Ed. Alþ. taldi sig ekki hafa ástæðu til að gera þar neina aths. við, og yfirleitt var litið svo á, að þeir bjargráðasjóðsmenn ættu að ráða þessari stofnun.

Þá vil ég víkja að því, að aths. var gerð við bílanotkun póst- og símamálastjórnarinnar, því að verulegur kostnaður er hjá þeirri stofnun í sambandi við notkun á bílum. Kom það fram í svarinu, að rekstrarkostnaður á 95 bifreiðum póst- og símamálastjórnarinnar ásamt vöxtum af „kapítalinu“ var 16.7 millj. kr., og í greiðslu fyrir leigubíla voru 4.5 millj. króna. Hér er nú ekki um annað rætt í þessu sambandi en að hér er um allverulegar fjárhæðir að ræða, og þess vegna er ástæða til að hafa fullt aðhald í því.

Þá kemur það einnig fram hér í aths., hvaða reikningar það eru, sem ríkisendurskoðunin telur sig eiga að endurskoða og ekki hefur unnizt tími til að endurskoða. Flest eru það reikningar frá því ári, sem um ræðir, en nokkrir eru þó eldri, og ber að sjálfsögðu brýna nauðsyn til, að að þessu verði unnið og endurskoðun fari fram á þessu.

Þá vil ég að lokum víkja að því, að það var nokkuð til umr. á milli ríkisendurskoðunarinnar annars vegar og yfirskoðunarmanna hins vegar, hvað valdsvið ríkisendurskoðunarinnar ætti að vera mikið. Nú er það svo, að í þessum ríkisreikningi eru birtir reikningar fleiri ríkisstofnana en verið hefur. Frá mörgum ríkisstofnunum eru birtir reikningar, sem hafa ekki verið endurskoðaðir af ríkisendurskoðuninni eða yfirskoðunarmönnum. Er þar fyrst og fremst um að ræða stofnanir, sem hafa þingkjörna endurskoðendur eða sérstaka endurskoðendur kjörna á annan hátt en þær stofnanir, sem ríkisendurskoðunin sér um. Nú tel ég brýna nauðsyn bera til, að um þetta verði settar fastar reglur og það ákveðið, hvernig með þetta á að fara. Hér er um að ræða stofnanir eins og Sementsverksmiðju ríkisins, Áburðarverksmiðjuna, Síldarverksmiðjurnar, Bókaútgáfu Menningarsjóðs, Brunabótafélagið, Atvinnujöfnunarsjóð, Landshafnir o. fl. Ber brýna nauðsyn til þess, að það verði ákveðið, hvort eða að hve miklu leyti ríkisendurskoðunin á að hafa eftirlit með reikningum þeirra stofnana, sem hér um ræðir. Mér finnst í raun og veru eðlilegt, að farið væri með þetta mál á þann hátt, að ríkisendurskoðunin ætti að hafa með höndum eftirlit og yfirendurskoðun á reikningshaldi allra þeirra stofnana, sem birta reikninga sína í ríkisreikningnum. Það er litið svo á af almenningi, að það sé þannig, að ég hygg, og ég teldi nauðsynlegt, að frá því yrði gengið á þann hátt, að þó að endurskoðendur séu sérstaklega kjörnir, ættu stofnanir að skila ríkisendurskoðuninni endurskoðunarskýrslu sinni, svo að það færi ekki á milli mála, að hún gæti fest þar fingur á.