01.02.1971
Neðri deild: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (2949)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það, sem fyrir liggur til fyrri umr., um takmarkaða náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, er flutt af menntmn. þessarar hv. d. Það var einnig flutt og þá í fyrsta sinn, á síðasta þingi og hygg ég, að efni þess hafi verið þá nákvæmlega það sama eins og frv., sem nú er flutt. Ég bið afsökunar, ef það er ekki rétt athugað hjá mér, en mér sýnist á grg., að það muni vera ótvírætt, að efni frv. sé hið sama eins og það var í fyrra.

Frv., sem menntmn. flutti í fyrra, var að vísu tekið á dagskrá, en ég man ekki til þess, að það kæmi nokkurn tíma til umr. (Gripið fram í: Það kom það aldrei.) Ég man ekki til þess. Og þar af leiðandi var ekkert um það rætt og það fékk þá ekki heldur neina meðferð í n. Hins vegar flutti þessi hv. n. einnig á sama þingi frv. til almennra náttúruverndarlaga fyrir landið í heild, sem var árangur af störfum mþn. og gerði ráð fyrir nýrri náttúruverndarlöggjöf, heildarlöggjöf í stað þeirra náttúruverndarlaga, sem nú gilda. Það frv. kom til umr. og var, ef ég man rétt, flutt framsöguræða af hálfu n. um málið. Síðan var því vísað til n. eða tekið til meðferðar í n., — ég held, að n. hafi tekið það aftur til sín til nánari athugunar, — en frv. hlaut ekki afgreiðslu. Ég hef ekki tekið eftir því, að þetta frv. hafi verið endurflutt nú á þessu þingi, en má vera, að það hafi verið gert núna alveg nýlega, þ.e.a.s. hið almenna náttúruverndarfrv. Hins vegar er þetta frv. um takmarkaða náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, eins og ég sagði áðan, nú komið fram á ný og að þessu sinni til umr. Talsmaður menntmn. hefur þegar haft framsögu fyrir málinu, stutta en glögga og síðan hefur hv. 4. landsk. þm. (Jónas Á) einnig flutt ræðu og er ástæða til að þakka honum fyrir það fróðlega erindi um mengunarmál veraldarinnar, sem hann hefur tekið saman í þessu sambandi upp úr blöðum og tímaritum, þar sem um þessi mál hefur verið ritað undanfarið og hefur þar margt merkilegt komið fram um vandamál veraldarinnar á þessu sviði, sem menn hafa ekki haft augun svo opin fyrir sem skyldi fyrr en þá nú, að þessi mikli vandi segir til sín í stærstu borgum heimsins, eins og í Tókíó, Moskvu, New York, Lundúnum og fleiri borgum. En t.d. í Tókíó varð þessi mengun svo mikil á s.l. hausti í miðhluta borgarinnar, — hún mun nú vera talin stærsta borg heimsins, — að það ráð var tekið að banna algerlega umferð bifreiða um miðborgina um nokkurn tíma og var það talið til bóta, en sannast að segja virðist það vera svo, að mengunarhættan í andrúmslofti og vötnum, a.m.k. í andrúmsloftinu, stafi ekki eingöngu af verksmiðjum, þó að hún geri það kannske að verulega miklu leyti, heldur einnig af umferðinni, af útblástursloftinu frá bifreiðum og öðrum ökutækjum, sem eru á ferð um stórborgirnar. Þess vegna tóku Japanir þetta ráð að banna bílaumferð um miðborg Tókíó borgar. Það er sannarlega tímabært, að við Íslendingar gerum allt, sem okkar valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir, að þessi svarta blika yfir stórborgunum færist hér yfir okkar land. Þó að sjálfsagt sé um nokkra mengun að ræða hér á Íslandi eins og alls staðar, þar sem menn eiga heima, þá er hún enn þá smáræði miðað við það, sem hún er víðast annars staðar og það, sem hún gæti orðið hér síðar, ef iðnaður eykst, umferð eykst og fólksfjöldinn margfaldast í landinu. Að öðru leyti ætla ég ekki að bæta við þetta erindi um hið almenna mengunarmál heimsins, sem hv. þm. flutti, en margt af því var orð í tíma töluð og gott, að slíkt sé saman tekið á einum stað. Þetta, sem hann nefndi um Sogið og Þingvallavatn, hef ég einhvers staðar lesið nú alveg nýlega, að það hafi komið í ljós, að seiði hafi drepist í stórum stíl við þessi vötum og er það náttúrlega alvarlegt mál. En þegar Sogið var virkjað og það er ekki langt síðan Sogið var virkjað, það mun hafa verið byrjað að virkja það 1936 eða svo og síðar í tveimur áföngum og síðasti áfanginn ekki fyrr en eftir 1950, en þegar þessar virkjunarframkvæmdir í Soginu stóðu sem hæst, voru menn hér á landi ekki búnir að uppgötva að því er virðist þá hættu, sem stafað gæti af virkjunarframkvæmdunum og ýmsum aðgerðum í því sambandi, eins og t.d. að herja á mýbitið, ekki búnir að gera sér grein fyrir því. Og dómstólar hafa staðfest það núna fyrir ári síðan eða svo, að verulegt tjón hafi orðið af völdum virkjananna á veiði í Soginu og kannske Hvítá og dæmt skaðabætur í því sambandi. En mönnum var ekki til skamms tíma — og eiga þar nú víst flestir óskilið mál — ekki ljós þessi hætta, sem af virkjununum getur stafað.

Við höfum verið haldin, þessi þjóð, ekki sízt í dreifbýlinu, mikilli ljósþrá, sem kalla mætti, þrá til þess að losna undan óttanum við myrkrið, óttanum við kuldann og ráðið til þess að leysa þjóðina frá þessum ótta var að virkja fallvötnin. Og ákafinn og gleðin yfir því að virkja fallvötnin og losna frá óttanum við myrkrið og óttanum við kuldann að meira eða minna leyti á þennan hátt, hefur líklega gert okkur sljórri fyrir þeirri hættu, sem í var lagt, heldur en ella hefði orðið.

Það má vel vera, að það sé rétt, sem hér hefur komið fram, að þeir menn í Suður–Þingeyjarsýslu, sem hófu andmæli gegn hinni svokölluðu Gljúfurversvirkjun eða áætlun um svokallaða Gljúfurversvirkjun, hafi í raun og veru mjög stuðlað að því að vekja athygli þjóðarinnar á þessum hættum jafnframt því, sem fregnir af mengunar vandamálum erlendis hafa auðvitað stuðlað að því. En þessi andmæli gegn hinni fyrirhuguðu stórvirkjun komu í öndverðu frá ýmsum aðilum í Suður–Þingeyjarsýslu, eins og sýslunefnd og búnaðarsambandi og búnaðarfélögum á hreppum og hreppsnefndum. En síðar er það Félag landeigenda við Laxá og Mývatn, sem ekki var, að ég ætla, stofnað fyrr en á s.l. vori, sem hefur haft forgöngu um það að gæta réttar landeigenda við vötnin, þ.e. Laxá og Mývatn, gegn virkjunarfyrirtækinu og yfirvöldum landsins.

Ég ætla nú ekki að fara að ræða þá deilu, sem staðið hefur um virkjun Laxár. Hún er svo alkunn og það hefur verið ákaflega mikið ritað um hana í blöð, ákaflega mikið rætt um hana á fundum og annars staðar og margar ályktanir verið um hana gerðar, fjöldi af rökum og mótrökum komið fram. Þetta ætla ég nú ekki að fara að ræða. Að sumu leyti er það leitt, að góðum kröftum, sem þyrfti að sameina í sameiginlegri baráttu fyrir framfaramálum á Norðurlandi, þurfi að eyða í innbyrðis átökum eins og þessum. En við því er ekkert að segja og vonandi leysist þetta mál fyrr eða síðar þannig, að menn megi við una og komast þá kannske að þeirri niðurstöðu, að ýmislegt af því, sem þar gerðist, hafi verið söguleg nauðsyn í okkar þróunarsögu. Ég ætla ekki að ræða um þessa deilu og ég ætla heldur ekki að ræða þau mál, sem dómstólarnir fjalla um, hvorki þau einkamál, sem nú eru fyrir dómi, né kærumál, sem eru fyrir sakadómi. Ég ætla ekki að ræða það. Við sitjum hér á löggjafarþinginu og dómstólar munu íhuga, hvernig þeir skuli fara með sína grein valdsins, en eins og kunnugt er, skiptist ríkisvaldið í þrennt, að talið er af fræðimönnum, framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.

Ég ætla hins vegar að víkja örfáum orðum að þessu máli, sem hér liggur fyrir og auðvitað er fyrst og fremst til umr., sem er frv. á þskj. 188, um takmarkaða náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár. Því hefur verið lýst yfir af hálfu n., sem flytur það, að henni hafi borizt brtt, við málið og að hún vilji taka það aftur til athugunar, m.a. með tilliti til þessara brtt. og ég get sagt það, að á þingi í fyrra, þegar þetta mál kom fram, varð ég var við það, að ýmsir norður þar við Laxá og Mývatn töldu, að það væru ýmis ákvæði í frv., sem ekki væru þaulhugsuð, þegar frv. var borið fram og ekki snertu út af fyrir sig sérstaklega það dellumál um virkjun, sem á döfinni var og er. En þetta frv. fjallar ekki nema að nokkru leyti um virkjunarmálið, heldur fjallar það, eins og nafn þess ber með sér, almennt um náttúruvernd á þessu svæði og ráðstafanir til hennar. Þar eru t.d. atriði, sem lúta að mannvirkjum allt annarrar tegundar, en virkjanir eru og að veiði. Þess vegna vil ég segja það, að mér finnst eðlilegt, að unnið verði áfram í n. að meðferð þessa máls. Ég tel, að þetta sé merkilegt mál og tilgangur þess góður, en það þarf að vinna nánar að frv. og taka tillit til þeirra tillagna, sem fram hafa komið um breytingar á því, m.a. frá sveitarstjórnum og einstaklingum, sem þarna eiga hlut að máli, svo og annars staðar á landinu, því að auðvitað getur þetta frv., ef að lögum verður, um takmarkaða náttúruvernd á einu svæði landsins orðið fyrirmynd að slíkri löggjöf, sem gilti um aðra staði á landinu. Þess vegna þarf vel til þess að vanda.

Eins og hv. frsm. sagði, fjallar þetta mál nokkuð eða kemur nokkuð inn á virkjunardeiluna, en er þó miklu víðtækara en hún. Hins vegar vil ég minna á það í þessu sambandi, að við höfum, þrír þm. hér í hv. d., flutt frv. á þskj. 202, frv. til l. um virkjun fallvatna í Þingeyjarsýslum. Má segja, að það sé líka eins konar náttúruverndarmál, en fjallar eingöngu um atriði, sem varða virkjunarmálin. Það frv. ætla ég heldur ekki að fara að ræða hér, en aðeins að minna á það í leiðinni. 1. umr. um það fór fram fyrir hátíðar og frv. er nú hjá nefnd. Þetta frv. okkar á þskj. 202 var á sínum tíma m.a. flutt vegna þess að við urðum þess varir, sem hv. 4. landsk. þm. (JónasÁ) drap hér á áðan, að landeigendur töldu sig ekki geta verið örugga um það, að sú stefna í virkjunarmálinu, sem var miðlunarstefna og fram kom í ráðherrabréfi frá 13. maí og birt var aðilum, en síðan opinberlega, að framkvæmd þeirrar stefnu yrði tryggð. Þeir töldu sig ekki geta treyst því, sögðu sem svo, að þó að það væri stefna rn., sem þarna væri yfirlýst eins og nú stæðu sakir, gætu orðið breytingar á ráðherrum og ráðuneytum og þetta væri ekki til frambúðar. Þess vegna töldum við, að viss atriði í þessu sambandi þyrfti að staðfesta í lögum, þannig að menn gætu vitað, hvar þeir stæðu.

En í sambandi við þau mörgu málsatriði, sem rædd eru í sambandi við virkjanir hér á landi, þá er rétt að geta þess, að það kom m.a. töluvert fram í umr., þegar rætt var um Búrfellsvirkjun fyrir 5 árum og síðar álverksmiðjuna í Straumsvík, að ástæða væri til þess fyrir Íslendinga að hraða virkjun fallvatna, vegna þess að það gæti komið að því fyrr en varir, að annar orkugjafi yrði ódýrari, en vatnsorkan, til þess að framleiða raforku. Þetta var nokkuð rætt og hefur sjálfsagt eins og vísdómur okkar yfirleitt um mengun og náttúruvernd og annað slíkt, verið byggt á tímaritum, innlendum og erlendum og blöðunum, sem við lesum um þetta. En því var sem sé haldið fram, að það kynni að fara svo, að ef við biðum í nokkra áratugi með það að virkja kannske meginhlutann af vatnsafli okkar, þá gæti farið svo, að það yrði einskis virði. Það yrði orðið úrelt að virkja vatnsafl til framleiðslu á raforku, eins og það er að verða úrelt að nota kol til þess að knýja verksmiðjur. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég lagði nú alltaf takmarkaðan trúnað á þessa kenningu, því að við vitum það nú, að kjarnorkan er nokkuð vandmeðfarin á ýmsan hátt, kannske dálítið svipuð öndunum, sem töframenn beizluðu stundum hér fyrr á tímum, eins og segir í 1001 nótt og gátu fengið til þess að gera undur, en andarnir urðu stundum ekki viðráðanlegir, af því að töframaðurinn var ekki nógu góður töframaður og þetta snerist allt til hins verra. Kjarnorkan er nú kannske einmitt slíkur andi og við jarðarbúar erum enn þá of litlir töframenn til þess að ráða við andann og niðurstaðan er m.a. sú, að kjarnorkunni fylgja úrgangsefni og það hefur maður frétt meira um síðan þetta var á dagskrá fyrir 5 árum, úrgangsefni, sem sýnist vera mikill vandi að losna við. Og ég verð nú að segja það, að ég held, að við megum telja það gæfu fyrir okkur Íslendinga, á meðan við þurfum ekki að fara að byggja hér kjarnorkustöðvar. Og ég vil draga það í efa, eins og mér heyrist hv. 4. landsk. þm. gera, að kjarnorkustöðvar verði fyrst um sinn þess umkomnar að útrýma vatnsaflinu sem orkugjafa, m.a. vegna þessara úrgangsefna og vegna hins áður óþekkta í sambandi við beizlun þessa voðaafls, sem alltaf er að koma í ljós og sem við vitum kannske minnst um enn þá. Þó að við höfum kannske ekki vitað það fyrir 5–10 árum, að sá skaði gæti orðið af vatnsvirkjunum, sem nú kemur í ljós, að getur þó orðið, þá vitum við þó enn þá miklu minna um það, hver skaðinn getur orðið af kjarnorkuverum, ef þau eru reist í stórum stíl.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál, en ég vænti þess, að frv. og þær tillögur um breytingar á því, sem uppi kunna að vera, fái vandaða meðferð í hv. n. og að síðan verði málið afgreitt til d. á ný.