24.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (3021)

165. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 211 smáfrv. til l. um breyt. á l. nr. 90 frá 7. okt. 1965, um tekjuskatt og eignarskatt. 1. gr. gengur út á það, að í stað „200 þús. kr. samtals“ í B-lið 21. gr. laganna komi : 600 þús. kr. samtals.

Með lögum nr. 41 14. apríl 1954 var í fyrsta skipti ákveðið um skattfrelsi sparifjár. Í 22. gr. þeirra laga er m. a. sagt, að undanþegnar eignarskatti og framtalsskyldu séu innstæður í bönkum, sparisjóðum og löglegum innlánsdeildum félaga, eftir nánar tilgreindum reglum, en þær reglur voru, að skattgreiðandi skuldaði ekki meira en 120 þús. kr. samtals og um fasteignaveðlán væri að ræða, sem tekin væru til 10 ára eða lengri tíma og sannanlega notuð til þess að afla fasteignanna eða endurbæta þær. Með lögum frá árinu 1965 var hámark þessarar veðskuldar fært úr 120 þús. í 200 þús. kr., en með frv. þessu, sem ég er nú að mæla fyrir, er lagt til, að þetta hámark verði fært úr 200 þús. kr. upp í 600 þús. kr., en það er sú tala, sem ég tel eftir athugun, að svari til 200 þús. kr., eins og þær voru að kaupmætti á árinu 1965 samanborið við það, sem þær mundu gilda í dag.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.