24.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (3022)

165. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég er efnislega alveg sammála því, sem hv. 2. þm. Reykn. hefur flutt á þskj. 211, en vildi mega vekja athygli á frv. því, sem nýlega hefur verið flutt af hæstv. ríkisstj., um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt, 17. gr. þess frv., sem gengur lengra heldur en það frv., sem hv. 2. þm. Reykn. hefur hér flutt, en þar segir „innstæður manns, sem ekki skuldar meira fé en jafngildir hámarki lána húsnæðismálastjórnar ríkisins:“ Þegar þessi skattalög voru samþ. á sínum tíma, þá var sú upphæð, sem í þessari grein var, miðuð við hámark lána húsnæðismálastjórnar, og er því eðlilegt, að í skattalögum sé gert ráð fyrir, að breytingar geti átt sér stað, eftir því sem hámarkslánaupphæð húsnæðismálastjórnar breytist.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, þar sem 17. gr. frv. ríkisstj. um breyt. á skattalögum, verði hún samþ., nær yfir það frv., sem hv. 2. þm. Reykn. hefur hér flutt, og tryggir, að þessi tala muni breytast í framtíðinni, eftir því sem lán húsnæðismálastjórnar ríkisins breytast.