04.03.1971
Neðri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (3162)

229. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Flm. (Daníel Ágústínusson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. á þskj. 428, sem er um breyt. á l. nr. 63/1969,um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Efni þess er í stuttu máli að banna innflutning á vindlingum og tóbaki og efni til vindlingagerðar frá 1. janúar 1972. Það hefði þótt undrum sæta, hefði slíkt frv. verið borið fram fyrir nokkrum árum, svo að ég nú ekki tali um fyrir meira en áratug. En hvort tveggja hefur skeð: Sígarettureykingar hafa aukizt stórlega með þjóðinni og hættan, sem þeim er samfara, hefur verið afhjúpuð. Læknar og ýmsar heilbrigðisstofnanir hafa síðari árin fært að því óyggjandi sannanir, að sígarettureykingar valda lungnakrabba og öðrum hættulegum lungnasjúkdómum, kransæðasjúkdómum og eru lífsháski börnum og unglingum. Þetta eru ekki lengur tilgátur, heldur blákaldar staðreyndir, sem ekki verða lengur bornar brigður á. Framan nefndir sjúkdómar eru margfalt tíðari hjá þeim, sem reykja, en þeim, sem ekki reykja, og hættan er því meiri sem reykingarnar eru á hærra stigi. Ýmsir læknar úr hópi áhugamanna gegn sígarettureykingum hafa talið, að sígarettureykingar væru stærsta heilsuvandamál þjóðarinnar og aðeins sambærilegt við það, er berklarnir voru í algleymingi. Þetta er sterk samlíking, en þeir einir skilja hana, sem nú eru komnir á miðjan aldur eða meira.

Tóbaksframleiðendur reyndu lengi vel að gera allar viðvaranir gegn sígarettuhættunni — hættu af sígarettureykingum — tortryggilegar. Þeir hafa nú gefizt upp. Hins vegar telja þeir sig framleiða svonefndar filtersígarettur, sem bæta lítið úr skák, og munu þær engu betri en eldri útgáfur. Þetta sýnir aðeins viðbrögð þeirra til að telja fólki trú um það, að hættan sé lítil, og draga úr þeim áhrifum, sem frásagnir læknanna hafa valdið. Þegar málum er svona komið og skýrslur Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins sýna ört vaxandi sölu á sígarettum, þá er ekki nema eðlilegt, að mál þessi komi inn í þingsalina með einum og öðrum hætti, enda hefur reyndin líka orðið sú.

Þetta mun vera fjórða þskj., sem fjallar um sígarettuvandamálið. Fyrst var till. til þál. á þskj. 83, um varnir gegn sígarettureykingum, flutt af hv. 2. þm. Reykn., Jóni Skaftasyni, o. fl. Hefur hún nýlega verið afgreidd sem ályktun Alþ. Verði till. þessi skörulega framkvæmd, hefur hún vonandi einhver áhrif, einkum fyrst í stað. En hún getur aldrei læknað meinsemdina, þótt hún geti tvímælalaust gert mjög mikið gagn.

Þá er hér á þskj. 116 frv. um bann við tóbaksauglýsingum, flutt af hv. 5. landsk. þm., Jóni Ármanni Héðinssyni, og í þriðja lagi frv. á þskj. 235 flutt af hv. 3. þm. Norðurl. v., Jóni Kjartanssyni, o. fl., að fella niður merkingu á sígarettupökkum, en skylda þess í stað Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins að verja 2% af brúttósölu tóbaks til auglýsinga á hættu þeirri, sem tóbaksreykingum er samfara. Þessi tillöguflutningur er nýr eða nýlegur hér á Alþ., en hann er sönnun þess, að barátta nokkurra lækna, sem sérstaklega hafa tekið að sér upplýsingar á afleiðingum sígarettureykinganna, hefur borið góðan árangur og viðhorf manna, bæði á Alþ. og utan þess, hafa gerbreytzt á tiltölulega skömmum tíma, enda mætti furðu gegna, ef svo væri ekki, jafn annt sem mönnum ætti að vera um líf sitt og heilsu. Hins vegar er augljóst, að framangreindar till. geta ekki leyst vandann nema að nokkru leyti, — eðli mannsins er nú einu sinni þannig, — og þar sem hættan er almennt viðurkennd þarf að gera róttækari ráðstafanir. Margir hætta reykingum um tíma, meðan þeir eru undir áróðrinum, en byrja svo aftur, því að alls staðar eru vinir og félagar sí og æ bjóðandi sígarettur, og þær fást í næstu verzlun eða söluturni frá morgni til kvölds. Þetta verður mörgum ofraun, er til lengdar lætur, og skortir þá viljastyrk og þrek til að komast yfir erfiðasta tímabilið.

Ég hef fengið hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins tölur um innflutning á vindlingum eða sígarettum um nokkuð langt undanfarið tímabil. Og ef við lítum aðeins á síðustu 7 árin, frá 1964–1970, þá eru þær tölur mjög athyglisverðar í sambandi við þessar umr. 1964 var innflutningur á vindlingum 202095 millj., 1965 232196, 1966 258447, 1967 269860, 1968 250419, 1969 220802 og 1970 253720. Þetta sýnir okkur, að frá 1964–1967 er um mjög mikinn árlegan vöxt að ræða eða úr 202095 millj. sígarettum í 270 þús. millj. 1967. Það mun einmitt hafa verið á árunum 1967 og 1968, sem hinir ágætu læknar hófu baráttu gegn sígarettureykingum og auglýstu mjög greinilega þá hættu, sem þeim væri samfara, og það virðist rækilega hafa komið í ljós, að 1968 lækkar sala á sígarettum um 20 þús. millj. og 1969 lækkar hún enn og kemst þá ofan í 221 þús. millj., en á síðasta ári eða 1970 stígur hún aftur og fer í 253 þús. millj. Þetta sýnir það, sem ég hef reynt að halda fram hér, að hættan er sú, að þegar er byrjaður áróður gegn sígarettureykingum, þá taka menn það alvarlega og margir reyna að hætta, en síðan bilar þrekið og viljastyrkurinn og þá er byrjað á nýjan leik og allar kenningar eru látnar sem vindur um eyru þjóta. Þetta er sú mikla hætta, sem því er samfara, að sú till., sem samþ. var hér á hv. Alþ. nýlega, og aðrar hliðstæðar komi ekki að því gagni, sem mjög mikil nauðsyn er á. Ég tel því, að það sé mjög nauðsynlegt að taka fyrir rætur meinsemdarinnar og banna með öllu innflutning og sölu á sígarettum til landsins eftir 1. janúar 1972. Það er sá bezti stuðningur við þá, sem vilja hætta, sem áreiðanlega eru margir, en skortir þrek og úthald. Þá má benda á það, að þótt sígaretturnar hverfi, er eftir sem áður nægilegt af tóbaki á markaðinum, sem minni hætta stafar af. Þeir, sem endilega vilja fórna tóbakinu fjármunum sínum og heilsu, eiga því þrátt fyrir þetta margra kosta völ.

Ég er ekki svo bjartsýnn að halda, að hægt sé að útrýma allri tóbaksnotkun á svipstundu, þótt það væri ánægjulegt, en vonandi kemur sá tími, við skulum segja 2001, að tóbaksnotkun þyki jafnóviðeigandi og nú þykir að viðhalda lúsinni og spýta á stofugólfið heima hjá sér og hvar sem er og öskubakkar þyki þá jafnúreltir og hrákadallarnir eru nú. Það er ekki hægt að horfa á það árum saman, að stór hópur tapi heilsu sinni og lífi árlega, og alveg sérstaklega er átakanlegt, ef börn og unglingar glata lífshamingju sinni og gerast þrælar þessarar eiturnautnar. Það er kannske mesta vandamálið og það ískyggilegasta. Áreiðanlega eru fyrstu mótbárur gegn frv. sem þessu, að öll bönn séu hættuleg, framkvæmdin verði erfið og auðvelt að smygla sígarettum, því sé allt unnið fyrir gýg. Ekki skal gert lítið úr því, að við ýmis vandamál sé að glíma og alveg sérstaklega fyrstu árin. Það skiptir miklu máli, að þjóðin telji þessa leið nauðsynlega, að hún skilji hinar aðkallandi forsendur fyrir henni, og hvort sú jákvæða afstaða almennings er þegar nægilega mikil í þessu máli skal ég ekki leggja dóm á að svo stöddu. Hitt vil ég fullyrða, að síðustu 2–3 árin hefur orðið gífurleg breyting á viðhorfi almennings til þessa máls, og vonandi heldur sú þróun áfram. Og því mun rætt um aðflutningsbann sem einu leiðina til að fyrirbyggja hættuna, hvort sem það kemst á nú eða síðar. Öll menningarríki verða að koma upp kerfi af boðum og bönnum, án þess mundi ekkert ríki standa stundinni lengur. Mörg þessi bönn eru meira og minna brotin, hvort sem við lítum á innflutning eða umferðarmál. Engum kemur til hugar að afnema lög og reglur, þótt brot eigi sér stað. Lögin eru sett til að varðveita þegnana og skapa þá festu, sem einkennir réttarríki. Í sambandi við þetta mál er aðstaða Íslendinga betri en margra annarra þjóða. Íslendingar hafa aldrei sjálfir framleitt sígarettur. Samgöngur við landið eru aðeins á sjó og í lofti. Fjölmennt og vaxandi tollgæzlulið er til í landinu. Það hefur nú hafið baráttu gegn ýmsum fíknilyfjum, sem færast mjög í aukana hjá mörgum þjóðum. Um þau er ströng löggjöf í landinu, sem væntanlega verður ekki slakað á, þó að ítrekaðar tilraunir verði gerðar til að brjóta hana. Um þetta mun þjóðin einhuga. Svipað hugarfar þarf að skapa gagnvart sígarettunum og mun skapast, þegar þjóðin hefur betur sannfærzt um það tjón, sem þær valda.

En þetta mál hefur margar fleiri hliðar en þá heilsufarslegu, sem er sú alvarlegasta og nú hefur verið rædd og er vitanlega höfuðatriði málsins. Þá er næst fjárhagshliðin. Þetta er gífurlegt fjárhagsmál fyrir marga og mörg heimili. Mun láta nærri, að sá, sem reykir pakka á dag, eyði þar 20–25 þús. kr. á ári og margir gera snöggtum betur. Sé um hjón að ræða, tvöfaldast upphæðin og verður á heimili 40–50 þús. kr. Samkv. upplýsingum Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins hefur sala á tóbaki verið þessi undanfarin 6 ár: 1965 337.4 millj., 1986 401.2 millj., 1967 436 millj., 1968 511 millj., 1969 578.5 millj. og 1970 703.2 millj. Í þessum tölum eru jafnframt vindlar, reyktóbak og neftóbak, en eftir því sem næst verður komizt mun sala vindlinga nema um 85% af þessum upphæðum og þýðir það, að sala á þeim s. l. ár hafi numið um 600 millj. kr. Þessi upphæð mætti vera mörgum til íhugunar. Þetta er svipuð upphæð og öll fjárlög ríkisins voru fyrir ca. 15 árum. Þegar hún bætist við hættuna af sígarettureykingunum, er myndin býsna hrollvekjandi. Þar að auki er ekki síður mikið í húfi fyrir þjóðfélagið fjárhagslega séð. Baráttan við þá alvarlegu sjúkdóma, sem sígarettureykingarnar valda að dómi læknanna, er dýr, heilbrigðisþjónustan, sjúkrahúsin, lyfin og læknishjálpin kosta ríkið og sveitarfélögin háar fjárhæðir, en mikið tjón vegna tapaðra vinnustunda, skertrar starfsorku og styttri starfsævi er þó enn þyngri fórn fyrir samfélagið.

Að síðustu kem ég að þriðja atriðinu, sem ekki er úrleiðis að minnast á í þessu sambandi, atriði, sem hefur orðið mál málanna hjá mörgum þjóðum hin síðustu árin og einnig Íslendingum. Það er hættan af mengun. Almennt standa Íslendingar þar betur að vígi en aðrar þjóðir. Það gerir lega landsins og hin óstöðuga veðrátta í miðju Atlantshafinu. Sígarettureykur eitrar hins vegar andrúmsloftið og þar hefur ríkt algert tillitsleysi. Reykingamenn anda ekki reyknum frá sér í neina geyma, heldur púa þeir honum í allt og alla hvar og hvenær sem er, á heimilum, í áætlunarbifreiðum, í fundarherbergjum, á skemmtistöðum og skrifstofum. Það ætti vitanlega enginn að leyfa sér að eyðileggja andrúmsloftið fyrir öðrum. Það hefur sannazt, að dvöl fólks í reykfylltum vistarverum, þó að það reyki ekki sjálft, veldur oft alvarlegum sjúkdómum. Það er nógu langt gengið, að fólk eyðileggi sína eigin heilsu vitandi vits og af fullum ásetningi, þó að því leyfist ekki að fara eins með annað fólk, sem ekkert hefur til saka unnið. Þeir, sem mest ræða um mengun, hvort sem hún er talin koma frá Straumsvík eða Áburðarverksmiðjunni, ættu ekki að gleyma hinum reykfullu vistarverum, sem margir lifa og hrærast í alla daga ársins. Það skyldi þó ekki vera alvarlegasta mengun, Íslendinga í dag?

Ég mun nú láta máli mínu lokið, þótt mörgu mætti við þetta bæta. Ég fagna þeim umr., sem orðið hafa um þetta gífurlega vandamál hin síðustu árin. Ég þakka þeim, sem átt hafa frumkvæði að þeim umr., sem orðið hafa til þess, að þjóðin hefur vaknað til meðvitundar um hinn mikla vanda. Ég hef í frv. þessu bent á leið, sem ég er sannfærður um, að sé eina lausnin til að valda hér algerum tímamótum og bjarga mörgum mannslífum. Mér finnst mikilsvert, að þessi möguleiki sé ræddur af hv. Alþ. og þjóðinni allri. Það væri Íslendingum til mikils sóma, ef þeir væru fyrsta þjóðin í Evrópu, sem setti innflutningsbann á sígarettur. Sá tími mun síðar koma, að höggvið verður á rót meinsins, og því fyrr, því betra.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn. d.