04.11.1970
Efri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (3234)

79. mál, Atvinnumálastofnun

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég stend hér ekki upp til þess að gera grein fyrir afstöðu hæstv. ríkisstj. til þessa máls, sem hún er nú búin að hafa til athugunar um alllangt skeið, enda hef ég til slíks ekkert umboð. En ég átti sæti í fjhn. á þeim tíma, þegar frv. þetta var fyrst lagt fyrir Alþ. fyrir um það bil tveimur árum, og stóð því að meirihlutaáliti því, sem hv. flm. hér gerði nokkra grein fyrir, og sé ég því ástæðu til þess að segja hér fáein orð um afstöðu mína til þess máls. Ég fylgdi flm. þá hálfa leið, eins og fram hefur komið. Þó að töluvert vatn hafi að vísu runnið til sjávar síðan, þá er afstaða mín í þessu efni í meginatriðum óbreytt frá því, sem þá var.

Ég sagði, að ég hefði fylgt þeim hv. framsóknarmönnum, sem þetta mál hafa flutt, hálfa leið, og skal ég því í sem stytztu máli gera grein fyrst fyrir þeim atriðum, sem ég er þeim sammála um og snerta þetta mál, og því næst þeim atriðum, sem ég er þeim ekki sammála um og í frv. felast.

Í fyrsta lagi er ég því auðvitað sammála, að stefna beri að því að tryggja sem bezt atvinnuöryggi, og í öðru lagi að vinna að því, að hið takmarkaða fjármagn, sem við höfum þó alltaf yfir að ráða miðað við fjárfestingarþörfina, nýtist sem bezt, þannig að þær fjárfestingar séu látnar sitja í fyrirrúmi, sem mest aðkallandi eru taldar. Þessu hygg ég nú, að út af fyrir sig geti allir verið sammála. En ég er reiðubúinn til þess að fylgja þeim a. m. k. einu skrefi lengra áleiðis, nefnilega að taka undir það, að til þess að svo megi verða, að atvinnuöryggi sé tryggt og fjármagnið nýtt á sem hagkvæmastan hátt, sé óhjákvæmilegt að taka upp heildarstjórn fjárfestingarmála, eins og það er orðað í frv. hjá hv. flm., eða heildarstjórn fjárfestingar í einni eða annarri mynd. Varðandi þetta atriði vil ég þó taka fram, að afdráttarlaust mundi ég vera sama sinnis og þeir, ef orðalaginu á þessu, heildarstjórn fjárfestingarmála, væri snúið við, þannig að talað væri um stjórn heildarfjárfestingar fremur en heildarstjórn fjárfestingar. Á þessu er töluverður blæmunur, því að þegar talað er um heildarstjórn fjárfestingar, þá veit maður ekki með vissu, hvort átt er við stjórn á heildarfjárfestingum eða ýmsum tækjum, þar sem stjórnunin er framkvæmd óbeint eða stjórn fjárfestingar í einstökum atriðum, þannig að tiltekin fjárfesting sé t. d. háð leyfaveitingum o. s. frv. En stjórn á heildarfjárfestingu á einn eða annan hátt er nauðsynleg. Ef hún er ekki fyrir hendi, getur annars vegar verið hætta á því, að fjárfesting verði svo lítil, t. d. á kreppu- og samdráttartímum, að hætta sé á tilfinnanlegu atvinnuleysi, og á hinn bóginn, að fjárfesting geti á þenslutímum orðið svo mikil, að af því leiði verulega verðbólguhættu, sem setji efnahagskerfið meira eða minna úr skorðum.

Hitt getur svo auðvitað verið álitamál, hvernig þessa stjórn á heildarfjárfestingu skuli framkvæma. Vera má, að það orðalag, sem hv. flm. einmitt nota, þegar þeir tala um, að þessa heildarstjórn skuli einkum framkvæma með því að setja um fjárfestingarmálin almennar reglur, geti bent til þess, að þeir séu mér a. m. k. að nokkru leyti sammála, enda kom það fram hjá hv. frsm., að hann taldi ekki, að heppilegt væri að taka upp sams konar skipan eins og þegar fjárhagsráð sat að störfum á sínum tíma, þegar leitað var leyfis fjárhagsráðs til nærri því hvaða fjárfestingar sem var og hversu smávægileg sem hún var. En stjórn á heildarfjárfestingu má framkvæma án þess að um nokkrar slíkar leyfaveitingar eða beinar takmarkanir sé að ræða, með því að setja fjárfestingunni almennar skorður, sem beinir henni inn á þá braut, sem æskileg er talin hverju sinni.

Um þessi atriði er ég hv. flm. sammála. En þá kem ég að þeim atriðum, sem ég er þeim ekki sammála um og valda því, að ég gæti ekki undir neinum kringumstæðum fylgt þessu frv. óbreyttu, og skal ég nú víkja að þessum atriðum með fáeinum orðum.

Það er í fyrsta lagi, að hér er fyrst og fremst gert ráð fyrir því, að slíkar heildaráætlanir séu gerðar til langs tíma. Nú var það svo á s. l. áratug þessarar aldar og fram á þann, sem nú er að ljúka, að þessar áætlanir til langs tíma voru mjög í tízku og teknar upp í fjölmörgum löndum, ekki einungis austan járntjaldsins, þar sem slík áætlunargerð er beinlínis grundvöllur þjóðarbúskaparins, heldur einnig í mörgum löndum vestan járntjalds, eins og hv. flm. líka drap á. Á allra síðustu árum hefur þróunin hins vegar orðið sú, eftir því sem ég bezt veit, að menn hafa tekið miklu neikvæðari afstöðu til þessara fjárfestingaráætlana til langs tíma, þannig að ég held, að það sé ekki ofsagt, að þróunin hefur í miklu ríkara mæli gengið í þá átt að leggja minni áherzlu á þessar áætlanir til langs tíma, en þá meiri áherzlu á áætlanir til skamms tíma, og það er að mínu áliti athyglisvert, að það er ekki eingöngu varðandi þær fjárhagsáætlanir, sem gerðar eru í löndunum vestan járntjalds, sem þessi þróun hefur orðið, heldur einnig í Sovétríkjunum, þannig að þær áætlanir, sem þeir þar gera nú til lengri tíma, eru miklu lauslegri heldur en áður var, en þá lögð meiri áherzla á að framfylgja áætlunum, sem gerðar eru til skemmri tíma, eins árs eða svo. Og ástæðan til þess, að þróun viðhorfa hefur orðið þessi, er sú, að reynslan hefur kennt mönnum, að óvissan um framtíðina hlýtur alltaf að vera svo mikil að gera má ráð fyrir því, að áætlanir, sem eru til lengri tíma, — og nú er það auðvitað álitamál, hvað sé langur og hvað skammur tími, — en áætlanir, sem eru þó ekki sé nema 5 ár fram í tímann, hvað þá lengra fram í tímann, eiga á hættu að kollvarpast allar að meira eða minna leyti, vegna þess að óvæntir atburðir kunna að gerast, sem engin von var, að yrðu séðir fyrir á þeim tíma, sem áætlanirnar voru gerðar. Og eigi þetta við í iðnaðarlöndunum, — en einmitt þau lönd, sem slíkar áætlanir gera, eru fyrst og fremst iðnaðarlönd, — þá ætti þetta sjónarmið að hafa meira gildi hér hjá okkur, þar sem óvissan um framvindu efnahagsmálanna hlýtur að verða miklu meiri, vegna þess hve við byggjum í ríkum mæli, eins og kunnugt er, á stopulum sjávarafla og stopulu markaðsverði á heimsmarkaðinum. Þetta er nú fyrsta atriðið.

Í öðru lagi, eins og ég raunar hafði nú þegar gefið í skyn, þá tel ég, að sú stjórn fjárfestinga, sem í sjálfu sér er æskileg og jafnvel nauðsynleg, eigi í miklu ríkara mæli að vera í þeirri mynd, að fjárfestingunni séu settir ákveðnir rammar, t. d. með ákvörðun vaxta, lánskjara, fyrirgreiðslu um lánaveitingar o; samvinnu lánastofnana og þeirra opinberu aðila, sem að öðru leyti fjalla um fjárfestingarmál, heldur en gerðar séu áætlanir um tilteknar framkvæmdir, sem eigi að ljúka á svo og svo löngum tíma. Að vísu felst ekki í þessu, að ekki geti verið réttlátt og jafnvel nauðsynlegt að gera slíkar áætlanir á einstökum sviðum, t. d. um skólabyggingar fram í tímann o. s. frv., en ég hygg, að þar sem langt hefur verið farið út á þá braut að gera mjög víðtækar áætlanir af þessu tagi, þá hafi reynslan ekki orðið góð.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að vitna til reynslu Breta í þessu efni, sem ég hef átt kost á að kynna mér nokkuð, þegar ég á s. l. sumri og næsta sumar þar áður dvaldi um skeið í Bretlandi. Og þó að það komi kannske einkennilega fyrir sjónir, þá var það stjórn íhaldsflokksins brezka, sem fyrst hófst handa um það að gera þjóðhagsáætlanir fyrir Bretland. Það var upp úr 1960. Þá var því haldið fram, að ástæðan til þess, að hagvöxtur var allmiklu meiri í Frakklandi heldur en hafði verið í Bretlandi um árabil, væri sú, að Frakkar hefðu slíkar þjóðhagsáætlanir, en Bretar ekki. En svo fór nú, þó að sökin á því hvíli nú kannske ekki einvörðungu á þeim, sem framkvæmd þessarar áætlunar höfðu með höndum, að næstu árin eftir að þær voru komnar til framkvæmda minnkaði hagvöxtur í Bretlandi, en óx ekki. Nú er ekki vafi á því, að utanaðkomandi óviðráðanlegar ástæður hafa kannske átt í þessu meiri eða minni þátt. En að því hafa verið færð rök, að þær áætlanir, sem gerðar voru, hafi síður en svo verkað örvandi á efnahagsþróunina, — ekki þannig að skilja, að einkaaðilar hafi tekið þessum áætlunum illa, þvert á móti mun hafa verið góð samvinna milli þeirra stjórnvalda, sem áætlanirnar framkvæmdu, og einkaaðila. En þar var um að ræða ríka tilhneigingu til þess í fyrsta lagi, að þeir einkaaðilar, sem ætlazt var til, að tækju þátt í þessum framkvæmdum og væru studdir til þess, höfðu fyrir fram sérstaka tilhneigingu til þess og í ríkara mæli en ella að varpa öllum sínum áhyggjum upp á ríkið og segja, að þessar áætlanir væru liður í heildarframkvæmdaáætluninni og þess vegna bæri ríkinu skylda til þess að sjá fyrir því, að þær kæmust í framkvæmd. Í öðru lagi, og þá kemur til óvissan um framtíðina, kom það auðvitað í ljós um margar af þessum áætlunum, sem gerðar voru, að vegna breyttra aðstæðna var ekki lengur þarna um skynsamlega fjárfestingu að ræða, en áætlunin verður nú sá grundvöllur, sem einkafyrirtækin byggja sínar ákvarðanir á, þannig að þau mistök, sem orðið hafa þannig í þessum opinberu áætlunum, breiðast til þeirra þátta efnahagslífsins, sem eru í einkarekstri. Ég tel því, að undir öllum kringumstæðum beri að gera löggjöf, sem um þessi efni kynni að vera sett, þannig úr garði, að sveigjanleikinn verði sem allra mestur.

Í öðru lagi tel ég, að framkvæmd þessara mála beri að skipa á annan veg heldur en hér er lagt til. Að sjálfsögðu er rétt að hafa samráð í þessu efni við stéttasamtökin eða sveitarstjórnayfirvöld í hverjum landshluta o. s. frv. En eftir því sem ég veit bezt er það þó yfirleitt þannig í nágrannalöndunum, að fyrirkomulag þessara mála er í meginatriðum öfugt við það, sem hér er lagt til, að það séu þessir mismunandi aðilar, stéttasamtök, o. s. frv., sem hafa yfirstjórn þessara mála með höndum, en hafi hins vegar samráð við efnahagssérfræðinga og stofnanir, sem láta slíka þjónustu í té. Að því er ég bezt veit, er þessu öfugt farið í nágrannalöndunum, en það eru efnahagsmálastofnanirnar, sem áætlanirnar gera, og hafa svo samráð við þessa aðila, og ég hjó eftir því, að það kom fram í ræðu hv. flm., þegar hann talaði um norska fyrirkomulagið í þessum efnum, að hann talaði um samstarfsráð, sem skipað er fulltrúum stéttasamtaka o. s. frv. Ég held, að það séu hinar opinberu stofnanir, sem áætlanirnar gera. Ég veit ekki, hvort það mundi vera til mikilla bóta að leggja þessa áætlun fyrir Alþ., til endanlegrar samþykktar. Í Noregi er það ekki þannig, að því er ég bezt veit. Áætlunin er að vísu lögð fyrir Stórþingið, en Stórþingið ræðir hana aðeins, en hvorki samþykkir hana né hafnar. Hér er um að ræða þannig verkefni, að ég held, að löggjafarþingin séu ekki fær um það að semja endanlegar áætlanir. Hér er nauðsynlegt fyrst og fremst að hafa yfirlit yfir efnahagskerfið í heild. En á löggjafarsamkomunum vill það gjarnan vera þannig, að hver otar fram sínum tota og hæpið, að heildarniðurstaðan, sem af slíkri togstreitu verður, verði þá heppileg.

En ég skal nú ljúka máli mínu, enda komið að lokum fundartímans, hvað sem þessu líður. Þótt ég telji þetta frv. þannig úr garði gert, að ekki geti komið til greina að samþykkja það, nema með mjög verulegum grundvallarbreytingum, þá tel ég, að það beri mjög að virða í sjálfu sér af hálfu þeirra hv. framsóknarmanna, að hér er gerð tilraun til þess að gera ákveðnar till. í þessum efnum. Ég tel, að stjórnmálaflokkunum sé í rauninni skylt að marka stefnu í hagstjórnarmálum, og þegar ég tala um slíka stefnumörkun, þá verða almenn glamuryrði, hvort sem þau eru frelsisskipulag eða eitthvað þar á milli, — þá segja þau lítið. En hér er þó gerð tilraun til þess að gera ákveðnar till. í þessum efnum, og það ber að mínu áliti að virða, þó að ég telji þessar till. hins vegar allmjög gallaðar í þeirri mynd, sem þær hér liggja fyrir.