09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

1. mál, fjárlög 1971

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst nota tækifærið til þess að færa hv. fjvn. þakkir fyrir hennar miklu vinnu, sem hún hefur innt af hendi nú sem endranær, og fyrir sérstaklega góða samvinnu við undirbúning fjárlagafrv. fyrir þessa umr.

Hv. talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna í fjvn. hafa hér flutt alllangar ræður og komið víða við. Margt af því, sem þeir hafa sagt, gæfi vissulega tilefni til þess að flytja hér alllangt mál, en ég skal ekki lengja um of fundartímann með því að hefja almennar umr. um efnahagsmál. Þeir hafa farið um það mörgum orðum, hversu fjárl. væru geigvænlega há og hækkun þeirra geysileg miðað við síðustu fjárlög, og ég skal fullkomlega taka undir þau orð. Ég sagði það í fjárlagaræðunni, þegar ég lagði fjárl. fyrir þingið, að þar væri um óhugnanlegar hækkanir að ræða, en sem hins vegar tjóaði þó ekki annað en horfast í augu við, og ég hef ekki enn þá í þessum umr. heyrt nokkrar leiðbeiningar um það, hvernig ætti að komast hjá því að hækka útgjöld ríkissjóðs eins og fjárl. gera ráð fyrir, og hefur ærið miklu verið við bætt nú milli umr., sem ég hygg einnig, að menn geti verið sammála um, að hafi verið óhjákvæmilegt. Að vísu geta menn sagt sem svo, stjórnarandstæðingar, að það séu ekki þeir, sem standi að verðstöðvun og öðru slíku, sem leiði til mikilla útgjalda fyrir ríkissjóð. En ég hygg þó, að verðstöðvunin sem slík hafi notið einróma stuðnings hér á hv. Alþ. og í rauninni hafi menn ekki verið andvígir því og viðurkennt þau sannindi og staðreyndir, að það yrði að afla fjár til þess að framkvæma þessa verðstöðvun. Ég sé því ekki annað en að sú staðreynd blasi óneitanlega við augum og henni hafi ekki verið haggað hér, að ekki hafi verið um annað að gera í sambandi við afgreiðslu fjárl. nú og verði ekki um annað að ræða en horfast í augu við þessar staðreyndir, sem við blasa, og meðan menn benda ekki á aðferðir til þess að lækka verulega ríkisútgjöldin, þá verð ég nú nánast að taka mér í munn það orð, sem hv. 3. þm. Vesturl. hér áðan sagði eða eignaði mér og ég kann að hafa notað einhvern tíma við svipað tækifæri, að þetta sé nánast moðreykur, sem fluttur er, þegar haldið er uppi harkalegum ádeilum á fjárlagaafgreiðsluna og talað um, hvað hún sé óhæfileg og ríkisútgjöldin hækki stórkostlega ár frá ári. Því hefur verið haldið fram hér, að það sé algert met, hversu fjárlög hafi hækkað mikið, og ekki sízt nú hafi mér tekizt að slá öll mín met, og því er haldið fram, að ég eigi þó öll fyrri met í þessu efni líka. Nú er það að vísu ákaflega gaman að vera methafi, má segja, ef á það er horft eitt út af fyrir sig, þó að sumir muni þá væntanlega segja, að það sé ekki gaman að vera methafi, þegar það sé að endemum. En þetta fer nú eftir því, hvernig á málið er horft, vegna þess að það auðvitað tjóar ekki að horfa á upphæðina eina saman, heldur hlutföll. Og vissulega eru það geigvænleg hlutföll, sem við stöndum nú andspænis varðandi hækkun fjárlaga, og miklu hærri en hafa þó verið síðustu árin, þar sem fjárlög hækka um 36 eða 37% miðað við þá hækkun, sem nú eru horfur á að verði. En ég vil nú samt vekja athygli þessara ágætu þm., sem hér hafa talað, á því, að þeir ættu að reikna út hlutfallstölu frá þeim árum, þegar flokkar þeirra fóru með stjórn landsins síðast, í tíð vinstri stjórnarinnar. Það var að vísu höfð sú aðferð þá að halda stórum hluta útgjaldanna utan við ríkissjóð, búa til annan ríkissjóð, sem komst upp í það að vera jafnstór eins og ríkissjóðurinn sjálfur. Vitanlega var hér um algera blekkingu að ræða og ég held, að þeir ættu að reikna út hlutfallstölurnar, sem þá voru hækkaðar ár frá ári, áður en þeir fara að auglýsa sérstaklega, hver muni vera methafi í því að leggja fram há fjárlög. Mér dettur ekki í hug að ásaka þann mann, sem þá var fjmrh., fyrir það, að þetta hafi verið hans sök, en viðhorfið var þannig og efnahagsþróunin, að það varð ekki hjá því komizt að horfast í augu við þær staðreyndir, sem við blöstu í sambandi við ríkisútgjöldin á þeim tíma, alveg nákvæmlega á sama hátt og við verðum að gera í dag.

Hv. 3. þm. Vesturl. lagði nokkra vinnu í það, og ég skil hann vel, að afsanna þau orð mín, sem ég flutti hér við 1. umr. fjárlagafrv., að fjárl. væru ekki orsakavaldur að verðbólgu í þjóðfélaginu, heldur væru þau fyrst og fremst spegilmynd af því ástandi í efnahagsmálum, sem væri hverju sinni, og væru í rauninni afleiðing af því, sem áður hefði gerzt. Þetta vildi hann afsanna með því að benda á, að á árinu 1969 hefðu engar þær hækkanir orðið, sem hefðu réttlætt þá stóru útgjaldahækkun, sem varð hjá ríkissjóði nú á árinu 1970, í fjárl. yfirstandandi árs. Ekki minnist ég þess, að þessar skoðanir hv. þm. kæmu fram á þann hátt, að það væri gert ráð fyrir útgjaldalækkun hjá ríkissjóði, þegar fjárl. voru afgreidd nú síðast. Hann benti að vísu á það, að það hefði verið einfalt mál að fallast á till. um það að lækka söluskatt á tilteknum nauðsynjum og rýra stórkostlega tekjustofna ríkissjóðs. Hann gat þá um, að það hefði leikið á hundruðum millj., vegna þess að þetta hefði hitt ríkissjóðinn aftur í höfuðið nú í haust að greiða þetta niður. Hér er auðvitað um algerar firrur að ræða. Hefði söluskatturinn ekki verið hækkaður um síðustu áramót, hefði þess verið enginn kostur annar en það hefði orðið stór halli á ríkisbúskapnum nú á þessu ári, vegna þess að til þess að koma við verðstöðvunaraðgerðunum núna, verður einmitt að gera ráð fyrir nýjum tekjum, til þess að standa undir þeim útgjöldum, en ekki notaðar þær tekjur, sem þá var gert ráð fyrir. Þetta veit ég, að hv. þm., sem er mjög glöggur maður, veit mætavel, að þetta fær ekki staðizt, þessi röksemdafærsla. Og það, sem á því stigi kostaði ríkissjóðinn að láta vísitöluna hækka um 2%, — hún hækkaði nú ekki sérstaklega af söluskattinum, heldur komu nú tollalækkanir þar á móti og skal ég nú ekki segja um, hvernig það dæmi kemur endanlega út, en þá auðvitað er hver prósenta í kauphækkun allt önnur heldur en í sambandi við niðurgreiðslur, hver kauphækkanaprósenta fyrir ríkið eins og málið þá blasti við, kostar að sjálfsögðu margfalt minni fjárhæð heldur en það kostar að greiða niður hvert vísitölustig, og þessi röksemdafærsla hv. þm. er því algerlega út í hött — hefði þá leitt til þess, að það hefði orðið verulegur hallarekstur hjá ríkissjóði miðað við þær horfur, sem þá voru um tekjuöflun ríkisins, og ég er alveg sannfærður um það, að ef þessi hv. þm. hefði átt að bera ábyrgð á afgreiðslu fjárl., sem hann ekki gerði nú, þá hefði honum aldrei hugkvæmzt sá tillöguflutningur, sem þá kom fram. Ég held, að því sé því algerlega ómótmælt, að fjárl. nú eru spegilmynd af þeirri þróun, sem orðið hefur síðast nú á þessu ári, og meðan ég ekki heyri neinar upplýsingar um það, hvernig á að skera niður þessi útgjöld, þá finnst mér það nánast út í hött að vera með ásakanir og fordæmingar fyrir það, að ég láti þessar tölur koma fram í fjárlagafrv. Ríkið getur t. d. ekki eins og útgerðin og jafnvel atvinnuvegirnir geta að vissu marki veit launahækkunum sínum yfir á aðra. Það verður að koma fram í beinum, auknum útgjöldum ríkisins og miðað við það, sem sagt er í grg. í nál. minni hl. fjvn., þá er það síður en svo, að það sé fundið að því, að laun hafi verið hækkuð, og það liggur þá í augum uppi jafnframt, að það verður að taka afleiðingunum af þessum hækkunum. Og þessar launahækkanir ganga í gegnum allt kerfið, sem ég þarf ekki að rekja hér. Gerð er nákvæmlega grein fyrir því í fjárlagafrv., hvernig meginhluta útgjaldaaukans nú má rekja til launahækkananna, sem urðu fyrr á þessu ári. Hinu er svo ekki að leyna, að þessar launahækkanir og aukin kaupgeta almennings hefur leitt til þess, að það er hægt að standa straum af útgjaldaauka ríkissjóðs af þessum sökum, ef við litum frá verðstöðvuninni, sem er sérstakt mál, án þess að grípa til neinnar nýrrar tekjuöflunar. Og ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að það er yfirleitt svo í öllum nálægum löndum og það er raunar áhyggjuefni alls staðar í þessum löndum, að í hvert skipti, sem afgreidd eru fjárlög, verður að grípa til nýrrar tekjuöflunar. T. d. er það svo á öllum Norðurlöndunum og er ár eftir ár, og þetta stafar auðvitað bæði af verðbólguþróun, þó að hún sé nú minni þar en hér, — að vísu er hún þar stórvaxandi, — og einnig vegna þess að það eru gerðar sífellt meiri og meiri kröfur til þess opinbera, sem því er ætlað að rísa undir.

Það, sem við líka heyrum jafnhliða því, að fordæmt er, að þetta séu verðbólgufjárlög og óhæfileg eyðsla hjá ríkinu eða óhæfilegur útgjaldaauki, þá er jafnframt haldið fram, og það hafa talsmenn minni hl. gert hér báðir, að það vanti stórkostlega fé til alls konar þarfra hluta. Ég get alveg tekið undir þetta með þeim, það væri vissulega æskilegt að geta unnið að margvíslegum umbótamálum, sem ekki er hægt að sinna. En þess er enginn kostur, ef við ætlum að forðast það, að hér verði um beina útgjaldahækkun að ræða, sem leiði til stóraukinna skatta til þarfa ríkissjóðsins sjálfs, svo að ég enn þá endurtaki það, að ég undanskil þar verðstöðvunaraðgerðirnar, sem eru sérstaks eðlis. Ég legg því á það áherzlu og vek á því sérstaka athygli, að hér hafa ekki komið fram neinar till., sem neinu máli skipta varðandi sparnað eða niðurskurð útgjalda, heldur eingöngu fordæmingar á útgjaldahlið fjárlaga, hvað útgjöldin hafi aukizt jafnhliða því, sem er svo lagt til að auka útgjöldin enn meir. Þessu er að vísu svarað með því, að það sé engin von til að gera till. um samdrátt útgjalda, vegna þess að efnahagsstefnan sé þannig, að þetta verði ekki gert, meðan þessi efnahagsstefna ræður. Vitanlega er það efnahagsstefnan, það er rétt, að það er efnahagsþróunin, skulum við segja, sem hefur áhrif í þessa átt. Og efnahagsþróunin hefur vissulega orkað meira til verðbólgumyndunar heldur en æskilegt hefði verið, það hygg ég, að við getum allir verið sammála um. Og það hefur enginn ágreiningur verið um það, ríkisstj. hefur hvað eftir annað lagt áherzlu á það og varað við því, þegar hefur verið haldið uppi óraunhæfum kröfum í þjóðfélaginu, að það leiddi til verðbólgumyndunar. Ég man hins vegar ekki til þess, að hv. talsmenn stjórnarandstöðunnar hafi nokkurn tíma tekið undir þær aðvaranir, nema síður sé. Það hefur allt verið sjálfsagt, sem horft hefur í hækkunarátt, og það hafa verið studdar allar þær aðgerðir í þjóðfélaginu, sem leitt hafa til verðbólgumyndunarinnar; en síðan er óskapazt yfir því, að verðbólgan skuli hafa orðið. Í þessu er ákaflega litið samræmi, en nóg um það. Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma að ræða um efnahagsmálin almennt.

Það er kannske rétt að segja nokkur orð varðandi það atriði, að ekki sé gert ráð fyrir í þessu fjárlagafrv. að sjá fyrir fé til verðstöðvunaraðgerða nema til 1. september. Þetta er alveg rétt. Fjárlagafrv. er miðað við þau lög, sem sett hafa verið hér á Alþ. um verðstöðvun til 1. september. Og ég skal fúslega á það fallast, að það er ekki gert ráð fyrir sérstakri tekjuöflun á þessu stigi til að standa straum af útgjaldaauka, sem kann að verða vegna þess, sem ég enn segi, kann að verða, þegar þessi lög renna út. Ég held nú hins vegar, að menn hljóti að gera sér grein fyrir því, að það er gersamlega útilokað á þessu stigi að gera slíkar ráðstafanir, vegna þess að við höfum enga hugmynd um það, til hverra ráða þá verður gripið. Því er auðvitað haldið fram, — og væri merkilegt, ef það væri ekki gert til þess að gera verðstöðvunina tortryggilega, af því að allir hv. stjórnarandstæðingar vita, að hún í eðli sínu er mjög vinsæl, — að hún sé eingöngu hugsuð sem kosningamál og síðan eigi að láta sprengingu verða, eins og þeir orða það, næsta haust, eins og var haustið 1967. Þessi fullyrðing er auðvitað algerlega út í hött. Verðstöðvanir eru alltaf tímabundnar og þær verðstöðvanir, sem hefur verið gripið til á Norðurlöndunum t. d., eru allar tímabundnar og þeim er ætlað að stuðla að því að bæta aðstöðu atvinnuveganna, styrkja þá vissan tíma og gera þeim þannig mögulegt að standast betur áhrifin af hækkuðu kaupi jafnhliða því, sem ætlunin er að orka á vinnumarkaðinn, þ. e. a. s. samninga launþega og vinnuveitenda um það, hvernig kaupgreiðslu verði háttað, þegar verðstöðvunartímabili lýkur. Og það vill svo til, að launasamningar verða einmitt á næsta hausti, þegar verðstöðvunartímabilinu nú lýkur og það hlýtur auðvitað að verða mat og verða að koma þá til mats í samningum milli aðila vinnumarkaðarins, hvernig horfurnar eru í þjóðfélaginu, að hve miklu leyti atvinnuvegirnir geta tekið á sig nýjar kauphækkanir eða að hve miklu leyti þeir verða að vera undir það búnir að taka á sig hækkanir, sem leiða af því, að verðstöðvunartímabilið þá rennur út, og það er ekki nema eðlilegt, að það megi gera ráð fyrir því, að atvinnuvegirnir verði þá færir um að taka á sig einhvern aukinn þunga miðað við það, að svo langur tími hefur liðið, að þeir hafa fengið 8–9 mánaða frest til þess að aðlaga sig, þá geti þeir tekið á sig að einhverju leyti þær verðstöðvunaraðgerðir eða afleiðingar þess, að þær falla niður að einhverju eða öllu leyti og að hve miklu leyti þeir geta umfram það verið færir um það að bæta við sig kauphækkunum. Ég sé ekki, að það sé neitt óraunhæft að gera ráð fyrir því, að þetta gerist með þessum hætti. Og það eru nákvæmlega, eins og ég segi, sömu rökin, sem eru fyrir verðstöðvuninni bæði í Danmörku og Svíþjóð og nú er ætlunin að gerist í Noregi, að verðstöðvuninni er ætlað að veita frest og vera aðhald að aðilum vinnumarkaðarins hvað snertir kaupkröfur, þegar kemur að næstu samningsgerð. Þetta held ég, að liggi alveg í augum uppi, og þetta verða menn að horfast í augu við, bæði stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins, því að ég held, að það hafi engum getað komið það til hugar og reyndar allir varað við því. Og það er vissulega rétt, sem fram hefur komið, að of löng stöðvun á þennan hátt getur leitt til þess, að það verði óeðlilegt misræmi í raunverulegri verðlagsmyndun í þjóðfélaginu við það, sem er látið koma fram í verðlaginu vegna niðurgreiðslna og verðstöðvunar. En ég sé ekki annað en það, sem menn horfast þá í augu við næsta haust, þurfi á engan hátt að vera neitt óviðráðanlegt dæmi, ef aðilar vinnumarkaðarins og stéttafélögin líta það raunhæfum augum, hvernig staða atvinnuveganna verður þá. Menn geta vel hugsað sér að framkvæma að einhverju leyti og framlengja þá tekjuöflun, sem hér er gert ráð fyrir, til þess að það sé hægt að einhverju leyti a. m. k. að halda verðlaginu áfram niðri. Þeir tekjustofnar falla líka niður næsta haust, og þetta er auðvitað það, sem komandi ríkisstj., hver sem hún verður, verður að taka til athugunar. Og það, að þetta sé einhver kosningabeita, því verður auðvitað ekki svarað. Því verða menn að trúa eða trúa ekki, eftir því sem þeim sýnist. Ég álít, að þetta hafi verið gert á réttri stund og einmitt á þeirri stund, þegar við gátum við þessi vandamál ráðið og það var ekki farið að halla undan fæti. Það álít ég, að hafi verið hvað gæfusamast við þessar aðgerðir, að það var einmitt ekki beðið eftir því, að það færi að halla undan fæti fyrir atvinnuvegunum og gjaldeyrissjóðurinn að renna út, heldur gert áður en órói komst á efnahagskerfið. Við vitum mætavel, að verðstöðvunin 1966 og 1967 var hugsuð — og það var beinlínis tekið fram, hún var gerð með það í huga, að menn vonuðust til, að verðhrunið, sem varð þá á útflutningsvörum sjávarútvegsins, yrði tímabundið, og það var aldrei farið dult með það. Ég sagði það hvað eftir annað fyrir kosningar í mínum ræðum, að þetta ylti allt á því, framtíðin í þeim efnum, hvort verðlagið næði sér á strik aftur.

Það hélt bara áfram að falla. Það var hægt að halda verðstöðvuninni þá áfram vissan tíma, vegna þess að afkoma ríkissjóðs var það góð og það var notaður greiðsluafgangur hjá ríkissjóði og í rauninni teflt á tvær hættur með það. Það skal játað. En með þessu móti var hægt að halda uppi kjörum almennings hér um bil ári lengur heldur en annars hefði verið hægt. Fólkinu var þarna borgað þetta fé aftur, sem ella hefði runnið til einhverra opinberra þarfa í þjóðfélaginu.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja frekar um þessi almennu atriði. Ég get vel fallizt á það, sem hv. frsm. minni hl. sögðu hér varðandi nauðsyn ýmissar endurskipulagningar í ríkiskerfinu. Þeir eiga báðir sæti í þeirri undirnefnd fjvn., sem komið var á laggirnar til samvinnu við fjárlaga- og hagsýslustofnunina og fjmrh., — ég hygg, að þetta sé 3. árið, sem sú n. starfar, — og ég álít, að það hafi verið til mikils góðs, að þeirri á. var komið á laggirnar, a. m. k. höfum við síðan ekki þurft að standa í deilum um ríkiskerfið og starfsemi þess í þrengri merkingu, heldur hafa umr. meira farið inn á þá braut, sem er eðlilegt, að þær fari, svo sem hv. 3. þm. Vesturl. gat um, að menn eru ekki sammála auðvitað um fjármálastefnuna. Um það yfirleitt skiptast menn í flokka í stjórn og stjórnarandstöðu. Það er fjármála- og efnahagsstefnan, sem er afgerandi um afstöðu manna í ríkisstj. og stjórnarandstöðu. En það er ákaflega mikils virði, að menn hafa náð því samstarfi, sem hér hefur orðið, og samráði, að menn deila ekki lengur um það, að það er hægt að vinna saman að umbótum í ríkiskerfinu og ríkisrekstrinum, án þess að halda því fram, eins og oft hefur viljað við brenna, oft og tíðum vegna aðstöðuleysis og þekkingarleysis, að t. d. stjórnarandstaða hefur haldið fram ýmsum atriðum, sem hafa meira og minna verið byggð á misskilningi. Nú hefur það ekki gerzt, og þetta tel ég ákaflega mikils virði. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það sé ekki margt, sem mætti gera og þurfi nauðsynlega að gera til endurbóta í stjórnsýslu ríkisins. Hér var minnzt t. d. á eitt stórt vandamál, sem er lengi búið að vera mitt áhyggjuefni og miklar viðræður og umr. hafa orðið um, þ. e. a. s. spítalakerfið, sem er mjög alvarlegt mál og þarf að finna einhverja lausn á, því að þarna er um að ræða þann þátt ríkisþjónustunnar, sem vex hvað mest orðið ár frá ári, ekki sízt eftir að nýju, daggjaldareglurnar voru settar, sem skapa visst vandamál í þessu efni, og ég er líka fullkomlega sammála um það, að það er hægt að samræma betur starfsemi ríkisstofnananna. Eitt af því, sem nú hefur verið til meðferðar í fjárlaga- og hagsýslustofnuninni um nokkurt skeið og sérstök n. starfar að, er t. d. að sameina öll verkstæði ríkisins, eins og hv. 3. þm. Vesturl. vék hér að, en það er mikið nauðsynjamál að gera og má ábyggilega spara með því verulegt fé. Og ég vonast til, að hægt verði að koma því í framkvæmd. Annars vék ég í framsöguræðu minni við 1. umr. fjárl. að flestum þeim atriðum, sem hér hefur verið vikið að af hv. talsmönnum minni hl. í fjvn., og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það, en aðeins taka undir, að mér er fullkomlega ljós nauðsyn þess að hefja sem allra víðtækasta endurskipulagningu á ríkisrekstrinum, þó að margt hafi þar vissulega komizt í betra horf en áður, m. a. vegna tilkomu fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar, þannig að hægt hefur verið að vinna markvisst að þessum efnum, og vegna starfsemi undirnefndar fjvn., sem hefur þar af leiðandi miklu betri aðstöðu en áður til þess að vita, hvernig raunverulega ástatt er með ríkiskerfið og ríkisreksturinn í heild.

Svo sem hv. frsm. meiri hl. n. gat um, eru enn þá nokkur mál, sem eru óleyst og hefur verið frestað. Um sumt af því hafa að vísu verið fluttar hér brtt. frá einstökum hv. þm. M. a. er þar eitt atriði, sem ég vildi vekja athygli á og ég man ekki, hvort hv. frsm. meiri hl. n. vék að í sinni ræðu, og það er um fjárveitingar til bókasafna, sem eru enn til athugunar hjá n. og verða það til 3. umr. Ég sé, að það eru fluttar um það brtt. núna, sem æskilegt er, að væru þá teknar aftur, og það er svo um sum önnur atriði, sem brtt. eru fluttar um. Veigamesti þátturinn, sem bíður afgreiðslu til 3. umr., er að sjálfsögðu laun ríkisstarfsmanna. Þeim samningum er enn ekki lokið, en að þeim hefur verið unnið af kappi á undanförnum vikum, í rauninni má nú segja á undanförnum tveimur árum. Eins og þm. er öllum kunnugt, þá er unnið að því að reyna áð leysa þetta vandamál með alveg nýjum hætti, þ. e. a. s. með því að koma á svokölluðu kerfisbundnu starfsmati, og hygg ég, að það megi teljast æðimiklum tíðindum sæta, ef tekst að ná samkomulagi um slíkt starfsmat. Menn vita, hversu erfitt er stundum að fást við samninga einstakra verkalýðsfélaga, en ég held, að menn hljóti að gera sér grein fyrir því, hversu hitt er mörgum sinnum vandasamara að ná samkomulagi í einu lagi um laun eða launahlutföll milli jafnfjölbreyttra og ólíkra hópa og skipa raðir opinberra starfsmanna. Það er sannarlega enginn leikur og þarf mikinn skilning og tillitssemi frá báðum aðilum, til þess að auðið sé að ná árangri á því sviði. Ég vil ekki fullyrða á þessu stigi, hvernig til tekst, en leyfi mér þó að láta í ljós von um það, að samkomulag náist endanlega um þetta mál og það með þeim hætti, sem til var stofnað í upphafi, að þetta starfsmat geti orðið grundvöllur að kjarasamningum. Á þessu stigi get ég ekki nefnt þá tölu, sem þetta kostar, en ég vonast til og vitanlega verður fyrir 3. umr. fjárl. að vera möguleiki til þess að gera sér nokkurn veginn grein fyrir því, hvað þetta muni kosta ríkissjóð á næsta ári.

Ég held svo ekki, herra forseti, að ástæða sé að sinni til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég hef reynt að fara ekki út í annað í þessu efni heldur en almennt að ræða um það, sem ræður minni hl. gáfu tilefni til, og ég tel ekki ástæðu til þess að fara út í almennar umr. um efnahagsmál varðandi fjárl. Bæði hafa þær umr. nú farið fram mjög rækilega í sambandi við verðstöðvunina, þannig að ég hygg að menn bæti sig ekki mikið á því að endurtaka það, sem þar fór fram, og vafalaust verður einnig tækifæri síðar á þessu þingi til þess að ræða þau mál frekar.