09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

1. mál, fjárlög 1971

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt hv. 1. þm. Austf., 4. þm. Austf. og 5. þm. Austf. að bera fram nokkrar brtt., og eru þær prentaðar á þskj. 226. Þessar brtt. eru um það, að fá nokkrar fjárveitingar til viðbótar því, sem kemur fram í till. fjvn. til fyrirhleðslna og til hafnargerða á þrem stöðum. Í þessum till. okkar er þó farið mjög hófsamlega í fjárkröfur til þessara verkefna. Fyrirhleðslur vatna eru á mörgum stöðum mjög mikilvæg landvörn. Það er sem betur fer vaxandi áhugi á því með þjóðinni að efla landgræðslu og gæta þess, að náttúrufar landsins spillist sem minnst. En það má telja, að sú landvörn, sem felst í fyrirhleðslum vatna, sé einn þáttur í þessu, og er það þess vegna óhjákvæmilegt, að þessu máli sé nokkur gaumur gefinn í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Þá má og geta þess, að framkvæmdakostnaður vex mjög með vaxandi dýrtíð. Við kynnumst því, hvernig framkvæmdakostnaður við vegagerð vex óðfluga, og ég hygg, að innan skamms muni verða lagt fyrir þm. yfirlit, er sýnir, hvernig þróunin er á því sviði. En hið sama gildir um fyrirhleðslur, framkvæmdakostnaður við þær helzt mjög í hendur við vegagerð, þar sem um hliðstæð verkefni er að ræða.

Ég skal þá víkja með fáum orðum að þeim atriðum, sem í till. greinir, hverju um sig. Við leggjum til, að til fyrirhleðslu við Jökulsá á Dal verði veittar 200 þús. kr. Hv. fjvn. hefur ekki séð sér fært að taka upp fjárveitingu til þessarar fyrirhleðslu. Og það hefur komið fram, enda sýna brtt. n. það, að heildarfjárveitingin til fyrirhleðslna hefur hækkað í meðförum n. um 475 þús. kr., að ég ætla. En þetta fyrirhleðslufé skiptist á milli 50–60 verkefna samkvæmt till., sem fyrir liggja. Ég tel því alveg auðsætt, að fjvn. hafi verið í miklum vanda að skipta svo takmarkaðri fjárhæð, og tel víst, að hún hafi við þá skiptingu viljað sýna fyllstu sanngirni. En við leggjum til, að teknar verði upp 200 þús. kr. til fyrirhleðslu við Jökulsá á Dal og er það vissulega ekki há fjárhæð miðað við þær tölur, sem um er fjallað í þessu frv. Jökulsá er, eins og kunnugt er, eitt af stórvötnum landsins og hún brýtur niður bakka sína, sérstaklega er það á vissum kafla við syðri bakka árinnar, þar sem mikil þörf er á að stemma stigu við því, að hún grafi jarðveginn undan bakkanum og að gróðurland falli niður í farveginn í stærri og stærri stykkjum. Um þessa fyrirhleðslu hefur verið gerð kostnaðaráætlun af hálfu vegamálaskrifstofunnar og sýnir hún, að þetta er allkostnaðarsamt verk, en ég vil minna á, að til þessarar fyrirhleðslu voru veittar 100 þús. kr. á fjárlögum þessa árs, og mun það fé vera geymt og vera handbært. Með þeirri viðbót, sem við leggjum nú til, að veitt verði í þetta verk, álítum við, að hægt verði að hefja verkið svo að mikið gagn yrði að.

Þá leggjum við til, að framlag til fyrirhleðslu í Norðurdalsá í Breiðdal verði hækkað um 70 þús. kr., þ. e. a. s. í staðinn fyrir 30 þús., sem þessari fyrirhleðslu er ætlað að fá samkvæmt till. fjvn., komi 100 þús. kr. Þarna er verk á þremur stöðum, sem þarf að vinna að, og sú hækkun, sem við förum fram á, mun vissulega ekki nægja til þess að ljúka því verkefni að fullu, en mundi þó koma að gagni og tryggja það, að um nokkrar framkvæmdir yrði að ræða á næsta ári á þessum stað.

Í þriðja lagi leggjum við til, að veitt verði smáfjárhæð, 30 þús. kr., til fyrirhleðslu í Hofsá í Álftafirði. Það er dálítið verk, sem þarf að vinna, og þessi lága fjárhæð, sem við leggjum til að veitt verði, mundi a. m. k. ýta undir það, að kleift yrði að vinna það verk á næsta ári.

Í till. okkar er lagt til, að veittar verði 2 millj. kr. til hafnargerðar í Borgarfirði eystra. Þetta byggðarlag á við erfiðleika að etja í ýmsum efnum. Hafnarskilyrði eru ótrygg og stendur það vélbátaútgerð fyrir þrifum og veldur líka erfiðleikum við afgreiðslu strandferðaskipanna. Þessi till. okkar miðar að því að koma til móts við óskir heimamanna á þessum stað um nokkurt framlag til hafnarbóta.

Þá leggjum við til, að til hafnargerðar á Breiðdalsvík verði veittar 2 millj. kr. Þar eru ástæður þannig, að höfnin er ótrygg, þegar hafalda er mikil og leitar inn á skipaleguna. Til þess að bæta úr því hefur verið ráðizt í það að gera garð til varnar höfninni og er þegar byrjað á því verki, en þessi brtt. okkar miðar að því, að tryggt verði, að því verki verði haldið áfram á næsta ári.

Loks er í till. okkar farið fram á, að til hafnarinnar í Fáskrúðsfirði verði veitt Í millj. kr. Það er fyrirhugað af hálfu heimamanna þar að gera nokkrar hafnarbætur einkum í sambandi við smábátaútgerð þar á staðnum og mundi þessi fjárhæð, ef samþ. yrði, flýta fyrir því, að þær framkvæmdir yrðu af hendi leystar. Ég skal taka það fram, að við viljum gjarnan, að fjvn. gefist kostur á að athuga þessar till. á milli umr. og munum því taka þær aftur við atkvgr. eftir 2. umr. eða þá að taka þær upp síðar, ef ekki næst samkomulag milli umr. við fjvn., að hún taki þær upp eða komi til móts við þær óskir, sem hér eru fram bornar.