02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3508)

97. mál, kynferðisfræðsla í skólum

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ein af hinum mörgu þáltill., sem rak á fjörur allshn. Sþ., er mál nr. 97, till. til þál. um kynferðisfræðslu í skólum.

Ég býst við, að hv. alþm. reki minni til þess, að hér fyrr á vetrinum var kannske um fátt meira talað almennt, bæði í blöðum og fjölmiðlum, en kynferðismál. Stóð það í sambandi við kvikmynd eina, sem var sýnd hér í kvikmyndahúsi í borginni við meiri aðsókn en dæmi munu vera til nokkurn tíma áður.

Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 102, var tekin fyrir í hv. n. og send til umsagnar nokkrum aðilum, þ. á m. Sambandi ísl. barnakennara, Læknafélagi Íslands og Æskulýðssambandi Íslands, og enda þótt það komi oft fyrir, að umsagnir berist misjafnlega greiðlega um mál, sem send eru til umsagnar, þá gekk vel að innheimta umsagnir um þessa till. Þær bárust frá öllum þessum aðilum, og þær eru yfirleitt á eina lund, að þær mæla með, að till. verði samþ. Í umsögn Læknafélags Íslands er sérstaklega bent á nauðsyn þess, að jafnhliða þessari fræðslu, sem aukin yrði, þyrfti að taka upp fræðslu um kynsjúkdóma.

Það er skemmst af að segja um athugun n. á þessu máli, að hún komst að þeirri niðurstöðu að leggja til, að till. yrði samþ. óbreytt, en einn nm., hv. 1. þm. Norðurl. e., skrifar undir með fyrirvara. Ég vil aðeins taka það fram, að að því er til grg. kemur, þá hefur n. ekki tekið afstöðu til þess, sem sérstaklega er þar sagt í upphafi. Með leyfi hæstv. forseta, er þar komizt svo að orði:

„Sérstök fræðsla í kynferðismálum er lítil sem engin í skólum þessa lands, og til þeirrar staðreyndar virðist mega rekja orsakir margra alvarlegra vandamála í lífi ungs fólks.“

Það er nú fjarri því, að n. mundi skrifa undir þetta. Það ber ekki að líta svo á meðmæli n, með till., að hún líti sömu augum á þetta og hv. flm. En ég held, að það verði nú almannadómur, að í þeirri stórauknu fræðslu, sem almennt er uppi höfð í þjóðfélaginu, þá sé eðlilegt, að þessi þáttur verði ekki undanskilinn, og það er gert ráð fyrir því, að þessi fræðsla verði skipulögð í samráði við sérfróða lækna, kennara og forustumenn æskulýðsmála.

Semsagt, allshn. leggur til, að þessi till. verði samþ. óbreytt, eins og hún liggur fyrir á þskj. 102.