17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

1. mál, fjárlög 1971

Frsm. samvn. samgm. (Ásberg Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 258 er nál. um framlög til flóabáta og vöruflutninga frá samvn. samgm.

Nefndin hefur eins og áður unnið að undirbúningi og tillögugerð um framlög ríkissjóðs til flóabáta og vöruflutninga. Hefur hún haft samvinnu við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, sem skv. venju hefur aflað upplýsinga um rekstur og afkomu einstakra flóabáta og samgöngufyrirtækja. Veruleg hækkun hefur orðið á rekstrarkostnaði flóabáta og samgöngufyrirtækja yfirleitt. Flóabátaferðirnar hafa verið reknar með svipuðum hætti og undanfarin ár. Hefur ekki verið mögulegt að fella niður ferðir einstakra flóabáta, þótt samgöngur hafi batnað verulega á landi í flestum landshlutum. N. hefur orðið að gera till. um verulega hækkun styrks til fjögurra stærstu flóabátanna. Að öðru leyti hafa framlög til minni bátanna lítið hækkað. Hins vegar hefur fjölgað nokkuð styrkjum til snjóbifreiða. Eru till. n. við það miðaðar að tryggja, að haldið verði uppi nauðsynlegum samgöngum milli héraða í landinu. Um rekstrarafkomu hinna einstöku flóabáta og samgöngufyrirtækja vill samvn. taka eftirfarandi fram:

Um Norðurlandssamgöngur: Norðurlandsbáturinn „Drangur“ heldur nú aðallega uppi vetrarferðum um farsvæði sitt. Eftir að akvegasamband skapaðist við kaupstaðina Ólafsfjörð og Siglufjörð þurfa þessir staðir aðeins á ferðum hans að halda að vetrarlagi, þegar vegir eru tepptir vegna snjóalaga. Hefur þar með orðið gjörbreyting á aðstöðu bátsins. Nokkur óvissa hefur því ríkt um það, hvort útgerðarmaður „Drangs“ treystir sér til þess að halda þessari þjónustu áfram. Mun hann eiga kost á að selja bátinn til annarrar starfsemi, en það væri mikið áfall fyrir samgöngumál þessara byggðarlaga. Er því í ráði, að þessi byggðarlög myndi samstarf um kaup á bátnum með þátttöku ríkissjóðs. Að beiðni samgmrn. samþykkti n. að mæla með heimild í 6. gr. fjárlaga, til að ríkisstjórnin f. h. ríkissjóðs gerist hluthafi í hlutafélagi um kaup og rekstur flóabáts, sem þjóni núverandi farsvæði Norðurlandsbáts, og skal hlutur ríkissjóðs vera allt að 50%, enda náist samkomulag um aðild sveitarfélaga eða annarra aðila um viðunandi rekstrargrundvöll. Styrkur til Norðurlandsbáts er hækkaður í ár um 400 þús. kr., úr 2 millj. kr. í 2.4 millj. kr.

Þá leggur n. einnig til, að styrkur til Strandabáts hækki nú um 40 þús. kr. í 150 þús. kr. En þessi bátur annast farþega- og póstflutninga milli Hólmavíkur, Djúpavíkur og Gjögurs í Árneshreppi. Er gert ráð fyrir, að styrknum verði varið í samráði við sýslunefnd Strandasýslu, og þá fyrst og fremst haft í huga að tryggja vetrarsamgöngur við nyrzta hrepp sýslunnar, Árneshrepp.

Þá er lagt til, að styrkur til flugferða til Grímseyjar hækki um 50 þús. kr. í samtals 250 þús. kr. Einnig mun Norðurlandsbáturinn „Drangur“ halda uppi nokkrum ferðum til Grímseyjar.

Styrkur til Flateyjarbáts á Skjálfanda lækkar nú um 30 þús. í 50 þús. kr., en byggð er nú horfin úr Flatey á Skjálfanda.

Og að lokum leggur nefndin til, að styrkur til snjóbifreiðar í Dalvíkurlæknishéraði hækki um 25 þús. kr. í 90 þús. kr.

Austfjarðasamgöngur: Austfjarðasamgöngur eru í svipuðu horfi og áður. Lagt er til, að styrkur til Mjóafjarðarbáts hækki um 65 þús. kr. í 300 þús. kr.

Mjög mikið gagn hefur orðið af rekstri snjóbifreiða á Austfjörðum og hefur þeim því fjölgað nokkuð og styrkir almennt verið hækkaðir vegna aukins tilkostnaðar. N. leggur þannig til, að styrkur til snjóbifreiðar á Fjarðarheiði hækki um 40 þús. kr. í samtals 320 þús., að styrkur til snjóbifreiðar á Fagradal hækki um 20 þús. í 110 þús., að styrkur til snjóbifreiðar á Oddsskarði hækki um 100 þús. í 200 þús., að styrkur til snjóbifreiðar læknishéraðanna á Fljótsdalshéraði hækki um 25 þús. kr. í 100 þús. kr., að styrkur til snjóbifreiðar milli Borgarfjarðar og Egilsstaða hækki um 35 þús. kr. í 100 þús. kr.

Þá er lagt til að taka upp nýjan styrk til snjóbifreiðar í Vopnafirði að upphæð 100 þús. kr. og til bifreiðar á leiðinni Stöðvarfjörður — Fáskrúðsfjörður — Egilsstaðaflugvöllur 50 þús. kr.

Suðurlandssamgöngur: Haldið er áfram að veita styrki vegna vöruflutninga til hinna hafnlausu héraða í Skaftafellssýslu. Leggur n. til, að styrkur til vöruflutninga á Suðurlandi hækki um 100 þús. kr. í 900 þús. kr. Enn fremur er styrkur til vatnadreka á Skeiðarársandi hækkaður um 10 þús. kr. í 50 þús. kr. Loks leggur svo n. til, að styrkur til Vestmannaeyjabáts vegna mjólkurflutninga hækki um 110 þús. kr. í 550 þús. kr.

Faxaflóasamgöngur: Rekstur „Akraborgar“, sem heldur uppi ferðum milli Akraness og Reykjavíkur, hefur enn sem fyrr reynzt erfiður, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að gera rekstur skipsins hagkvæmari. Féllst n. á að leggja til, að styrkur til skipsins hækki um 800 þús. kr. í samt. 4 millj. og 300 þús. Og þá er lagt til, að styrkur til Mýrabáts hækki í 20 þús. kr.

Breiðafjarðarsamgöngur: Samvinnunefndin leggur til, að rekstrarstyrkur til Flateyjarbáts á Breiðafirði verði á næsta ári óbreyttur eða 475 þús. kr. Verkefni þessa báts fara minnkandi. Hann heldur uppi samgöngum milli Breiðafjarðareyja og enn fremur byggðarlaganna í Austur-Barðastrandarsýslu, sem mörg eru akvegasambandslaus meginhluta vetrar. Lagt er til, að styrkur til Langeyjarnesbáts hækki um 15 þús. kr. í 150 þús. kr. Loks er lagt til, að rekstrarstyrkur til Stykkishólmsbátsins „Baldurs“ hækki um 400 þús. kr. í 3½ millj. kr. og auk þess fái hann 1200 þús. kr. byggingarstyrk vegna lengingar hans á s. l. ári. Til vetrarflutninga í Breiðuvikurhreppi á Snæfellsnesi leggur n. til, að veittur verði nýr styrkur að fjárhæð kr. 50 þús.

Vestfjarðasamgöngur: Djúpbáturinn h/f á Ísafirði heldur sem fyrr uppi ferðum um Ísafjarðardjúp og til kauptúnanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu. N. taldi óhjákvæmilegt að hækka styrk bátsins um 500 þús. kr. í 3 millj. kr. vegna minnkandi flutninga og aukins tilkostnaðar. Styrkur til Patreksfjarðarbáts er óbreyttur, kr. 35 þús., en styrkur til Dýrafjarðarbáts er hækkaður um 15 þús. kr. í 75 þús. kr. Hins vegar fellur styrkur til Skötufjarðarbáts niður.

Þá leggur n. til, að veittur sé styrkur til rekstrar og kaupa á snjóbifreið í Austur-Barðastrandarsýslu að fjárhæð kr. 250 þús. Byggðarlög þessi eru læknislaus og verða að sækja lækni ýmist til Hólmavíkur eða Búðardals og auk þess mjög einangruð samgöngulega séð yfir vetrarmánuðina.

Styrkur til vetrarflutninga yfir Kleifaheiði, leggur n. til, að verði óbreyttur eða kr. 150 þús. Þá leggur n. til, að rekstrarstyrkur til snjóbifreiðar yfir Botnsheiði hækki um 50 þús. kr. í 150 þús. kr. Suðureyri við Súgandafjörð er nú læknislaus og situr héraðslæknirinn á Ísafirði og mun svo sennilega verða áfram með tilkomu væntanlegrar læknamiðstöðvar á Ísafirði.

Skv. þessu, sem hér hefur verið sagt, leggur samvn. samgm. til, að heildarfjárveiting til flóabáta og vöruflutninga verði á árinu 1971 19 millj. 255 þús. kr., en það er 4 millj. 345 þús. kr. hærra en árið 1970.

Herra forseti, ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þetta frekar. Það eru samtals 30 aðilar, sem njóta styrks skv. till. n. vegna flutninga og flóabáta, og það er svipað og verið hefur áður. Ég vænti þess, að þm. sjái sér fært að styðja þetta mál, eins og það liggur nú hér fyrir.