05.04.1971
Sameinað þing: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (3645)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er nú efalítið, að samgöngumálin eru einn af okkar stærstu málaflokkum og vegamálin einn veigamesti þáttur þeirra. Þess vegna finnst mér, að það geti tæpast talizt góð vinnubrögð að fá þessa áætlun nú, eiginlega alveg í þinglokin. Það er fyrst í dag, sem þessari áætlun verður útbýtt frá fjvn. Að vísu er rétt að geta þess, að þm. hafa haft aðstöðu til að íhuga þetta nokkuð og þ. á m. þm. einstakra kjördæma, en þrátt fyrir það finnst mér eðlilegt, að þegar búið var að ganga frá heildaráætlun um þetta, þá hefði þingið haft einhvern tíma til þess að íhuga málið að þessu leyti, en það væri ekki ætlazt til, að þetta væri afgr. á einum klukkutíma í þinglokin. Þessi mál eru áreiðanlega stærri en svo, að þetta séu tæk vinnubrögð. Þess vegna vildi ég nú beina því til hæstv. vegamálaráðherra — og á ég þá ekki eingöngu við þann, sem nú er, því að ég geri mér frekar vonir um, að það verði orðin breyting á því embætti, þegar þing kemur hér næst saman, — eða þess vegamálaráðherra, sem verður hér í framtíðinni, hver sem hann verður, að sá háttur verði á hafður, að þetta mál verði lagt fyrir þingið, þegar um það er fjallað, þannig að það komi strax fyrir í þingbyrjun og allur þingtíminn sé til þess að íhuga það. Það hlýtur að vera hægt að haga undirbúningi málsins á þann veg.

Það, sem ég rek fyrst augun í, þegar ég fer að lesa þessar brtt. fjvn. við till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1971 og bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1972, er, að mér finnst fjárveitingin til hraðbrauta vera óhæfilega lág. Mér sýnist, að árið 1971 sé ekki áætlað að veita til hraðbrauta nema 162 millj. kr. og fyrir árið 1972 195 millj. kr. Og miðað við það fjármagn, sem hefur farið í byrjunarframkvæmdir við hraðbrautir hér í kringum Reykjavík, þá hef ég ekki trú á því, að hægt sé að gera stórar framkvæmdir á sviði hraðbrautanna fyrir þessar upphæðir. Þess er svo að gæta, að hér í III. kaflanum er talað um framkvæmdir við hraðbrautir, þjóðbrautir, landsbrautir og fjallvegi, sem verða ekki að öllu leyti greiddar af fé Vegasjóðs á áætlunartímabilinu. Þar er veitt heimild til þess að vinna að lagningu hraðbrauta, þjóðbrauta, landsbrauta og fjallvega, en sérstaks fjár verði aflað til framkvæmdanna. Og þar er gert ráð fyrir, að til hraðbrautanna verði varið samkv. þessum kafla 190 millj. kr. á árinu 1971 og 160 millj. kr. á árinu 1972. Það, sem ég vildi spyrjast fyrir um og fá svör við frá hæstv. ráðherra, er það, hvort það sé ekki ætlun stjórnarinnar, þegar að því kemur að vinna að þessum málum, að nota þessa heimild til fulls. Og ég spyr þá sérstaklega um það í sambandi við hraðbrautirnar, hvort þessi heimild, sem felst í III. kafla, um hraðbrautirnar, muni ekki verða notuð til fulls.

Ástæða væri til þess að ræða nánar um þetta mál, en vegna þess að nú er samkomulag um að hraða heldur þingstörfum, læt ég nægja að bera fram þessa fsp. til hæstv. ráðh.: Er það ekki ætlunin að nota til fulls þá heimild, sem felst í III. kafla áætlunarinnar, um fjármagn til hraðbrauta árin 1971 og 1972?