06.04.1971
Sameinað þing: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (3657)

295. mál, réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki vera langorður, enda er tíminn nánast hlaupinn frá okkur. En það var eitt atriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem varð til þess, að mér fannst ég verða að kveðja mér hljóðs. Hann talaði um, að það væri minnzt á siðleysi í þessum umr., og ég tel vist, að hann hafi beint þeim orðum til mín, því að ég minntist á, og ég stend við það enn, að ég tel það vera siðlausa pólitík að efna fyrst til alþjóðlegrar ráðstefnu, þar sem ætlazt er til, að þjóðirnar komi sér saman um mál, og taka svo að ástæðulausu eða ástæðulitlu a.m.k. ákvörðun um það að afgreiða málið einhliða áður en þessi ráðstefna kemur saman. Mér finnst þetta vera svo fráleit aðferð, að hún hlýtur að setja okkur Íslendinga í mjög óþægilegt ljós hjá því fólki og þeim mönnum, sem þessa ráðstefnu munu sækja.

Ég minnist þess, að fyrir tveimur árum komu þeir til mín, hvor í sínu lagi sendiherra Sovétsambandsins hér í bæ og sendiherra Bandaríkjanna og spurðu báðir, hvort við Íslendingar vildum taka þátt í ráðstefnu, sem þeir væru að hugsa um að reyna að koma á stað um landhelgismörkin, og að festa þau mörk í 12 mílum. Ég spurði hann strax eða þá báða, hvort það væri ekkert annað, sem fyrir lægi eða væri áformað að afgreiða á þeirri ráðstefnu en að ákveða 12 mílna mörk. Tjáðu þeir mér, að svo væri ekki. Þá svaraði ég þeim strax og sagði, að ef þessi ráðstefna ætti eingöngu um það mál að fjalla, þá mundi ég a.m.k. fyrir mitt leyti ekki vilja taka þátt í slíkri ráðstefnu og ég vissi og teldi mig mega fullyrða, að íslenzka ríkisstj. vildi það ekki heldur. Við þetta sat, en með umræðum um málið, ráðstefnuhaldi o.þ.h. breyttust þessi sjónarmið smátt og smátt, eins og hér hefur komið fram.

Á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna var um þetta mál rætt allmikið, og ágreiningur var þar um, hvort málið ætti að taka fyrir á þessari alþjóðaráðstefnu á þröngum eða víðari grundvelli. Menn í forsvari fyrir þessar tvær þjóðir alveg sérstaklega vildu, að ráðstefnan yrði haldin á þessum þrönga grundvelli, sem áður hafði verið nefndur. Við og fjöldamargir aðrir vorum hins vegar á þeirri skoðun, að hægt væri að halda ráðstefnuna á víðari grundvelli og ræða miklu fleiri mál og alls ekki á svo þröngum grundvelli að miða bara við 12 mílna mörk og ekki annað. Ég skal ekki fara að rekja hér neitt, hvernig að þessu var staðið á þessu allsherjarþingi, heldur bara skýra frá því, að það endaði með því, að þegar ráðstefnan var ákveðin, var hún ákveðin á víðum grundvelli. Á móti því greiddu aðeins sjö þjóðir atkv. Það voru Sovétríkin og nokkur fylgiríki þeirra í A.-Evrópu. En Bandaríkin, sem áður höfðu haldið fast við þessar 12 mílur, greiddu atkv. með því að halda nú ráðstefnuna á víðari grundvelli.

Þá sagði hv. 4. þm. Austf., að þetta ráðstefnuhald gæti torveldað okkur að færa út einhliða, og vildi halda, að á ráðstefnunni yrði gerð einhver ályktun, sem mundi koma í veg fyrir einhliða útfærslu. Ég held, að þetta fái ekki staðizt, því að talið er af allra kunnugustu mönnum, að það séu engar líkur til, að á þessari ráðstefnu fáist samþykkt með i5 greiddra atkv. að binda landhelgina við 12 mílur. Og eins og hv. þm. sagði, til þess að þessi samþykkt ráðstefnunnar fái gildi, þarf 2/3 atkvæða. Ef ekki fæst það atkvæðamagn fyrir till., sem gengur okkur í vil, þá er það álit fróðustu manna um þetta, að ráðstefnurnar muni leysast upp án þess að taka ákvarðanir um málið, en hitt sé útilokað, að gerð verði ályktun með 11 atkv. um að binda sig við 12 mílur og loka okkur þar með inni. Það sé útilokað, að slík samþykkt muni verða gerð.

Till. ríkisstj. er nú á þann hátt, að hún vill gera ráð fyrir útfærslu. Það hefur ekkert farið á milli mála, hvað sem hv. 1. þm. Austf. segir þar um, að það er útfærsla, sem ríkisstj. vill. Það hefur verið gerð ályktun um það hér á Alþ. að vinna að útfærslu, og það hefur verið talað um það í sambandi við samningana, sem gerðir voru við Breta og Þjóðverja 1961 og 1962, að Íslendingar mundu þrátt fyrir samningana leitast við að fá sína fiskveiðilögsögu færða út, og það ætla Íslendingar að gera. Hv. þm. þurfa ekki að vera með neinar bollaleggingar um það, að það sé hugmynd ríkisstj. að binda sig við þau mörk, sem eru. Það eina, sem ágreiningur er um, er það, hvaða tímamörk verði sett fyrir útfærslunni. í fyrsta lagi að reyna að fá samkomulag um útfærsluna á þessum hafréttarráðstefnufundi Sameinuðu þjóðanna, sem nú er verið að undirbúa, og í öðru lagi, ef sú samstaða fæst ekki þar og ef það reynist nauðsynlegt vegna ágengni erlendra veiðiskipa, að færa út einhliða eins og forsrh. minntist á hér áðan. Ríkisstj. er ráðin í því að gera það, en æskilegast mundi ríkisstj. þykja, — og ég segi það sem mína skoðun alveg sérstaklega, — að við gætum fengið samstöðu um útfærsluna á alþjóðaráðstefnunni og fært svo út eftir að sú samstaða er fengin. Ef hún fæst ekki, þá tel ég, að hún mundi samt færa út, hvað sem ráðstefnan segði. Það er ekki rétt aðferð að espa á móti sér aðrar þjóðir með því að færa út, áður en ráðstefnan er haldin, sem við höfum verið með í að boða til, áður en nokkur þar er farinn að segja sína meiningu.

Nú eru ákveðnir, eins og allir vita, fjórir undirbúningsfundir undir þessa ráðstefnu, tveir á árinu 1971 og tveir á árinu 1972, og það fer ekki hjá því, að á þessum undirbúningsfundum verði hægt að kynnast því nokkurn veginn örugglega, hvað þessar þjóðir hyggjast fyrir og hvað þær ætla sér að gera. Ég held þess vegna, að það minnsta, sem við getum gert, sé að bíða með ákvörðunina, þar til við sjáum, hvert þessar þjóðir stefna, hvort við getum átt samleið með þeim eða hvort við getum ekki átt samleið með þeim, en þá verðum við að grípa til örþrifaráðstafana. Neyðarráðstafanir gerðar á þeim grundvelli eða á hinum grundvellinum vegna of mikillar sóknar erlendra skipa á okkar fiskisvæði eru allt annað. Það er allt annað en að taka nú strax fyrir þennan fund ákvörðun um að færa út. Það er annað, hvað maður gerir í neyðartilfellum, eftir að hafa athugað málið og reynt að fá friðsamlega lausn, en að þjóta í það án þess að okkur reki nokkur nauður til þess.

Ég tel ekki, að ég þurfi frekari orðum að þessu að eyða. Ég tók svo til orða í útvarpsumr. um daginn, að ég teldi það siðleysi að gera þetta á þann hátt, sem stjórnarandstaðan vill, og ég stend við það og sný ekki aftur með það.