03.12.1970
Sameinað þing: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3773)

56. mál, leit að bræðslufiski

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. 3. þm. Sunnl., sem talaði um heildarstefnuna í þessum málum. Ég þorði ekki að ganga lengra í framsögu minni en að leggja áherzlu á loðnuna og kolmunnann, einmitt af svipuðum ástæðum og komu fram hjá honum, enda þótt minnzt sé á spærlinginn og sandsílið í ályktuninni. Við tókum þessar fjórar fisktegundir inn í ályktunina og studdumst þar við þær ritgerðir, sem ég vísaði til áðan, eftir Jakob Jakobsson fiskifræðing, sem virðist telja álitlegt að athuga um þessar fjórar tegundir, en ég lagði aðaláherzluna á loðnuna og kolmunnann, af því að á þessu stigi hef ég ekki sterka sannfæringu fyrir því, að ástæða sé til að leggja áherzlu á spærling eða sandsíli í sambandi við bræðslu. Samkv. því, sem fyrir liggur, virðist manni hins vegar alveg óhætt að leggja ríka áherzlu á að ná í talsvert af loðnu og kolmunna í bræðsluna.

Heildarstefnunni, sem kom fram í hans ræðu, er ég sem sé algerlega sammála. Það kom einnig fram í hans ræðu, sem við vitum, að við stöndum okkur ekki nógu vel í rannsóknum. Okkar vitneskja er ekki nægilega glögg um fiskana og fiskstofnana, jafnvel ekki suma þá, sem við eigum mest undir, en ég ætla ekki að ræða það núna, vegna þess að ég á aðra till. hér á dagskrá, sem fjallar einmitt um það efni.