17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

1. mál, fjárlög 1971

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en ég tel nauðsynlegt, að komi fram hér afstaða mín til einnar till., sem fyrir liggur, ekki hefur að vísu verið talað hér fyrir henni, en það skiptir út af fyrir sig ekki máli. Það er till. þess efnis að heimila ríkisstj. að veita ríkisábyrgð fyrir tiltekinni upphæð vegna fyrirtækis, sem nefnt er Blaðaprent h. f. Hér er um að ræða fyrirtæki, sem út af fyrir sig er allra góðra gjalda vert. Það er sameignarfyrirtæki fjögurra dagblaða, sem hafa slegið sér saman um það að koma upp prentsmiðju, og það hafa áður legið fyrir beiðnir til fjmrn. um það að beita sér fyrir ríkisábyrgð í þessu sambandi.

Það er vitanlega mjög æskilegt, að slíkt samstarf, sem hér er um að ræða, geti orðið milli blaða. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það hefði verið hægt að koma upp þessu fyrirtæki án ríkisábyrgðar, og ég vil láta það koma hér fram, að ég er andvígur þessari till. Ég geri hins vegar ráð fyrir því, að till. verði samþ. — það standa að henni þrír flokkar þingsins — og ætla ég ekki að fara að efna til neinna umr. um málið annað en það, að ég tel rétt, að það liggi hér fyrir skjalfest, að ég er andvígur ábyrgðinni. Og ástæðan er, eins og menn hafa vafalaust gert sér grein fyrir, ekki sú, að ég sé andvígur fyrirtækinu, það er langt í frá, heldur sú að ég álít, að það hefði verið hægt að koma því upp án ríkisábyrgðar og það er hættulegt fordæmi, sem hér er skapað. Það hafa aldrei verið veittar ríkisábyrgðir í sambandi við prentsmiðjur, og ég sé ekki með góðu móti, hvernig á að einangra þetta mál þannig, að það verði ekki opnaður möguleiki fyrir því, að aðrir aðilar, sem koma sér upp prentverkum í landinu, geti komið til ríkissjóðs með alveg nákvæmlega sama rétti og þessir aðilar, sem hér er um að ræða, þó að þeir séu allra góðra gjalda verðir. Ég tek það fram, að ég er ekki að gagnrýna þá á neinn hátt og tel, að skynsamlega sé að málum unnið að efna til þessa samstarfs. En það gætu fleiri efnt til slíks samstarfs og komið sér upp prentsmiðju, sem gæti leitt til þess, að það væri óhjákvæmilegt að taka afleiðingunum af þeirri stefnu, sem yrði hér mörkuð, ef þessi till. verður samþ., og veita slíka ábyrgð. Þess vegna tei ég nauðsynlegt, að þessi skoðun mín komi hér fram.

Það var aðeins svo eitt atriði. Það var aths. hv. 3. þm. Austf. um, að skorti í fjárlagafrv. fjárhagsáætlun fyrir Rafmagnseftirlit ríkisins. Það var ósköp eðlilegt, að hann gerði slíka aths., vegna þess að slík fjárhagsáætlun er þar ekki sjáanleg, en ég vil aðeins taka það fram, að hún er innifalin í fjárhagsáætlun Orkustofnunar. Það er gert samkv. sérstakri ósk Orkustofnunar og þess rn., sem hún heyrir undir. Það kann vel að vera, að það hefði verið eðlilegt, og ég get vel á það fallizt, að um þessa stofnun væri gerð sérstök fjárhagsáætlun, en þetta tel ég rétt, að komi fram, að hér er ekki um gleymsku að ræða, heldur var þetta fyrirkomulag haft á fjárhagsáætlun þessarar tilteknu stofnunar.