02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (3883)

115. mál, dreifing framkvæmdavalds

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð í tilefni af því, sem hv. 3. þm. Austf., Jónas Pétursson, sagði hér. Það er nú í fyrsta lagi í sambandi við aths. um það, að Björn Jónsson hefði flutt áður þessa till. Ég get nú upplýst hann um það, að þessa till. samdi ég og grg. hennar og hef verið 1. flm. að henni frá upphafi. Það má vera, að á meðan Björn Jónsson var í þingflokki Alþb., hafi hann verið með mér á þessari till., það má vel vera. Ég býst nú við því, að Björn Jónsson kannist við það sjálfur, enda er hægt að sanna það með öðrum hætti, svo að hv. þm. slær nú engar keilur á því að koma með einhverjar aðdróttanir um það, að ég hafi stolið þessu máli.

En aðalatriðið var þó sú einkennilega skoðun, sem kemur fram hjá hv. þm. í sambandi við þetta mál, sem ég tel í meira lagi skammsýna. Hann minnir á afstöðu sína hér til uppbyggingar í raforkumálum og á skoðanamun, sem fram hefur komið hjá mér og honum í þeim efnum og reyndar fleiri þm. En þar hefur hann verið á þeirri skoðun, að það ætti að leggja niður Rafmagnsveitur ríkisins og láta þær í rauninni hætta að byggja upp raforkukerfið í landinu og síðan ætti að skipta þessu þannig upp, að hin einstöku héruð í landinu, stór eða smá eftir atvikum, sem koma sér saman um framkvæmdir í raforkumálum, hefðu sjálf með þessi mál að gera. Þetta er auðvitað skoðun út af fyrir sig. Þetta er kerfi, sem við bjuggum við á Íslandi um langan tíma, og okkur, mönnum úr öllum flokkum, þótti þetta hafa tekizt illa, og þá var horfið að því ráði að setja raforkulögin 1946, sem miðuðu að því að byggja upp Rafmagnsveitur ríkisins og miklum mun stærri raforkuheildir í landinu. En vegna þess að upp hafa komið vissir annmarkar á framkvæmdinni hjá Rafmagnsveitum ríkisins, hjá þessari ríkisstofnun eins og öðrum ríkisstofnunum, þá dregur þessi hv. þm. þá ályktun, að menn eigi að vera á móti ríkisstofnunum. Við ættum á sama hátt að segja: Við skulum hætta þessum afskiptum ríkisins af vegamálum. Látið þið Austfirðinga hafa sín vegamál, Vestfirðinga hafa sín vegamál og aðra hafa sín vegamál. Við skulum skipta þessu öllu upp. Hvern fjandann er ríkið að skipta sér af þessu? Sama ættum við að segja um vitamál og önnur slík málefni. Eða fræðslumálin í landinu. Auðvitað er hægt að deila þessu upp eins og hér var áður og leyfa hverjum fyrir sig að potast í þeim málum.

Þetta er auðvitað grundvallarmisskilningur. Það, sem hér er um að ræða, er það, að það er vitanlega ekki sjálfgerð á neinn hátt, að í þeim tilvikum, þegar ríkið tekúr að sér að byggja upp eitt eða annað í þjóðfélaginu eða annast rekstur á einhverri grein, þá eigi höfuðstöðvar þess reksturs og allt það framkvæmdavald, sem því fylgir, alltaf að eiga heima í Reykjavík. Þegar ég tala um það að dreifa framkvæmdavaldi í mikilvægum efnum, þá hef ég t.d. nefnt til grein eins og fræðslumálin. Mér kemur ekki annað til hugar en viss yfirstjórn fræðslumála verði áfram staðsett hér í Reykjavík. En ég álít, að það sé t.d. hægt, eins og nú þegar eru komnar fram till. um, að byggja upp í landsfjórðungunum þannig umdæmisstöðvar, að heimamenn geti leitað til þeirra og hægt sé að útkljá framkvæmdamál þar á heimasvæðinu hjá þessari heimastofnun, án þess að menn þurfi að fara til yfirstjórnarinnar í Reykjavík með alla hluti. Það var nákvæmlega þetta sama, sem ég sagði hér í umr. um raforkumálin. Ég er á þeirri skoðun, að það eigi að breyta yfirstjórn Rafmagnsveitna ríkisins að fenginni reynslu þannig, að í hinum einstöku umdæmum, t.d. á Austurlandi eða Vestfjörðum eða annars staðar, þar sem eru eðlilegar rafmagnsheildir, eigi að vera starfandi sérstakar stjórnir þeirra rafmagnsveitna, sem þar eru reknar, sem eigi að hafa vald í sambandi við reksturinn á því svæði og geti haft afgerandi áhrif á uppbyggingu kerfisins á þeim stöðum. En hitt tel ég alveg fráleita kenningu að ætla sér að setja þessi mál þannig upp, að dreifing framkvæmdavalds þýði það, að þar með þurfi að skipta öllum rekstri niður í smáeiningar og þátttöku og forustu ríkisvaldsins í heild geti þar ekki notið við á neinn hátt. Ég teldi, að ef horfið yrði að þessu ráði, sem Jónas Pétursson talar hér um í sínum málflutningi og tekur dæmi af till. sínum úr raforkumálum, þá værum við raunverulega í öllum greinum að hverfa aftur í tímann um svona 50 ár til stórkostlegs óhagræðis fyrir hinar dreifðu byggðir í landinu. Ég veit það, að í rauninni ætlast hann ekki til þess, þó að hann hafi nú þessa skoðun í sambandi við rafmagnsmálin. Hann telur, að mínar skoðanir séu þær að ég sé í rauninni á móti eflingu byggðavaldsins, vegna þess að ég sé ekki með því að splundra fyrirtækjum, sem reist eru af hinu opinbera. Slík uppsetning er auðvitað algerlega röng.

Það er ábyggilega mikil þörf á því að færa út á landsbyggðina ýmsar framkvæmdastofnanir, sem þó eru í eðlilegum tengslum við rekstur ríkisins. Ég er t.d. ekki í neinum vafa um, að það væri hægt að gera stórátak í því til framfara í landinu að byggja upp úti á landi ákveðnar framkvæmdastöðvar yfir vissa þætti í rekstri heilbrigðismála og sjúkrahúsmála, jafnvel þó að ríkið væri allstór aðili að rekstrinum áfram. Við skulum ekki gera lítið úr því á þann hátt, sem hv. 3. þm. Austf. gerði, að þó að sú leið sé farin, sem ég hef bent hér á og farin er í nágrannalöndum okkar, að færa vissan hluta af þýðingarmiklu stjórnunarkerfi út í umdæmin, þá sé aðeins með því verið að leggja til að færa svona útangana, eins og hv. þm. sagði. Við eigum ekki að ganga inn á þá skoðun, að yfirstjórn allra ríkisstofnana eða alls þess, sem ríkið hefur með að gera, þurfi endilega að vera í Reykjavík. Slíkar stofnanir geta átt sínar undirdeildir annars staðar, og þannig getur orðið eðlileg verkaskipting í þessu eða samstarf.

Ég þarf svo ekki að fara um þetta fleiri orðum. Ég var aðeins að leiðrétta þessar missagnir hjá hv. þm., sem virtist hafa það helzt til þessa máls að leggja að reyna að gera tillöguflutning minn í málinu tortryggilegan.