09.02.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (3892)

117. mál, klak- og eldisstöð fyrir lax og silung

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Till. þessi til þál. fjallar um klak- og eldisstöð fyrir lax og silung í Þingeyjarsýslum. Mér flýgur í hug að beina því til þeirrar hv. n., sem fær þessa till. til meðferðar, hvort eigi sé rétt að breyta fyrirsögn till. og þar með efni hennar á þá lund, að í staðinn fyrir Þingeyjarsýslum komi Norðurlandi. Hv. flm. till. vitnaði hér til skýrslu, sem veiðimálastjóri hefur gert, ef ég hef tekið rétt eftir, þar sem fram koma athuganir á því, á hvaða stöðum norðanlands hentugast sé að setja upp slíka eldisstöð, ef af verður. Nú hef ég ekki séð þessa skýrslu og get ekki um það dæmt, hvað þar kemur fram. Hitt kemur mér kynlega fyrir sjónir, ef ekki eru víðs vegar um Norðurland ágæt skilyrði til fiskeldis og til þess að setja upp slíka stöð sem hér er fjallað um. Mér er kunnugt um það, að bæði í Skagafirði og Húnavatnssýslum eru skilyrði til fiskeldis, sem ég ætla að óreyndu, að ekki séu miklu lakari en gerist um Þingeyjarþing. Má þar nefna, að í þessum byggðarlögum eru ekki einasta margar veiðiár, einkanlega þó í Húnavatnssýslum, þar sem veiðiár eru fjölmargar auk fjölda vatna, heldur eru þessi héruð einnig eins og Þingeyjarsýslur auðug að jarðhita. En þetta hvort tveggja eru þau frumskilyrði, sem þyngst vega, þegar til álita kemur um stofnsetningu slíkra eldisstöðva.

Nú ætla ég ekki að benda á marga staði. Þó er e.t.v. skaðlaust, að það sé þegar gert, þar sem í grg. þessarar till. eru taldir upp ýmsir staðir í Þingeyjarsýslum, sem taldir eru vel fallnir til fiskeldis. Það má t.d. benda á, að mikill jarðhiti er við Áshildarholtsvatn í Skagafirði. Þar er fenginn sá jarðhiti, sem nægir til þess að hita upp íbúðir þeirra Sauðkræklinga. Víðar um Skagafjörð er jarðhiti, og má nefna t.d. jarðhitasvæðið hjá Varmahlíð, og einnig er mikill jarðhiti fram í Lýtingsstaðahreppi, sem eflaust mætti nýta til fiskeldis við Svartá. Jarðhitasvæði eru mjög víða í Húnavatnssýslum, t.d. í Miðfirði við hina ágætu veiðiá Miðfjarðará. Það er jarðhiti í Austur-Húnavatnssýslu við Svínavatn og Laxárvatn, og einmitt við Laxá á Ásum hefur verið talið sérlega heppilegt svæði til þess að koma upp laxeldisstöð. En Laxá á Ásum er jafnframt ein af hinum betri laxveiðiám í landinu, a.m.k. meðal hinna smærri.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að tíunda fleiri staði, en vildi beina þessu hér til hv. allshn. d. Ég átta mig ekki á því, hvort nokkur úr þeirri hv. n. er hér viðstaddur, en vænti, að tekið verði til athugunar, hvort eigi sé rétt að breyta fyrirsögn og efni till. í þá átt, sem ég hef hér um rætt, og væntanlega fær þessi hv. n. þá skýrslu, sem vitnað er til hér í grg. till., til athugunar og getur þá tekið sínar ákvarðanir í samræmi við það.