09.03.1971
Sameinað þing: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (3968)

197. mál, móðurmálskennsla í barna- og gagnfræðaskólum

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Þau stungu mig dálítið ummæli þess hv. þm., er síðastur talaði. Hann komst svo að orði, að þegar lyki barnaprófi, þá ætti að hefja lífræna kennslu í íslensku. Ég veit, að þetta er nú einhver misgáningur, hann meinar það auðvitað ekki, að hún eigi að hefjast þá. En vegna þeirra umr., sem hér hafa farið fram, bæði nú og áður, þá langar mig til þess að bæta við örfáum orðum og láta koma fram mitt viðhorf einmitt varðandi þetta, hvenær eigi að hefja og halda uppi lífrænni kennslu, ef svo má segja, í móðurmálinu. Ég tel, að það sé alveg höfuðatriði að hefja hana strax, þegar barnið kemur í skólann. Mig hefur t.d. oft undrað það, hversu seint er farið að láta börn skrifa ritgerðir. Ég hef ofurlítið fengizt við barnakennslu utan við lög og rétt að því leyti, að ég hef ekki haft kennararéttindi, gert það eins og margir fleiri góðir íslendingar út úr neyð, þegar þeir, sem réttindin hafa, eru við önnur störf. En mér hefur fundizt það mjög nauðsynlegt að byrja strax á því að lofa börnunum að skrifa ritgerðir, strax og þau geta stautað sig fram úr léttum bókum. Ég held, að vinningurinn við þetta sé sá, að á þessu aldursskeiði hafa börnin minni sjálfsgagnrýni, og ef þau byrja þá strax að semja, þá verður það þeim eðlilegt og þeim finnst þetta alveg sjálfsagt, og þau þurfa þá ekki seinna, þegar ritgerðirnar byrja almennt, eftir því sem ég hef komizt næst, að byrja á því að yfirvinna óttann við það að tjá sig í skrifuðu máli. Og ég held, að þetta gildi alveg eins um framsetningu talaðs máls, að það þurfi að byrja mjög snemma á því að láta börnin koma fram sjálfstætt, t.d. lesa upp eða flytja ljóð fyrir framan félaga sína. Ég segi þessi orð ekki til þess á neinn hátt að brjóta niður það, sem þeir hafa sagt hér, hv. flm. þessarar till. og hv. 4. landsk. þm., heldur vildi ég eins og bæta þessu við þeirra ummæli. Í aðalatriðum er ég þeim alveg sammála, og ég vil fyrir mitt leyti fagna því, að þessi till. er fram komin. Vonast ég til þess, að hv. Alþ. sjái sér fært að afgreiða hana, þó að stutt sé e.t.v. til þingloka. Þetta er ekkert flókið mál, en það er væntanlega öllum augljóst, sem hugann að því leiða, að það er nauðsynlegt að fylgjast ákaflega vel með á þessu sviði.