27.03.1971
Neðri deild: 74. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í D-deild Alþingistíðinda. (4114)

290. mál, hlutafélag til kaupa og reksturs á verksmiðjutogara

Flm. (Haraldur Henrýsson):

Herra forseti. Þáltill. sú á þskj. 612, sem ég hef leyft mér að flytja hér, fjallar um, að ríkisstj. beiti sér nú þegar fyrir stofnun hlutafélags um kaup og útgerð verksmiðjutogara með þátttöku ríki sins, sveitarfélaga og einstaklinga og að aflað sé þeirra heimilda til lántöku, sem nauðsynlegar kunna að reynast til að hrinda málinu í framkvæmd. Verði m.a. leitað samstarfs við hlutafélagið Úthaf, sem stofnað var að frumkvæði Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, í þessu skyni.

Ég flutti hér á þinginu 1968 till. svipaðs efnis ásamt nokkrum hv. alþm., en hún náði ekki fram að ganga. Í framsögu fyrir þeirri till. benti ég á þá eindregnu skoðun Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, að við endurnýjun togaraflota okkar yrðum við að hagnýta okkur þá möguleika, sem ný tækni í fiskveiðum og fiskvinnslu býður upp á. Framangreind samtök höfðu þá nýrverið mótmælt því við ríkisstj., að endurnýjun togaraflotans færi fram án þess að þessir möguleikar yrðu nýttir, svo sem virtist, að ætlunin væri til áréttingar þessum mótmælum sínum stóð farmannasambandið að og hafði forgöngu um stofnun hlutafélags, Úthafs h.f., í því skyni að kaupa og reka verksmiðjutogara. Þetta hlutafélag gerði þegar ráðstafanir til að kaupa slíkt skip, sem það hefði getað fengið afhent um áramótin 1969–1970. Hins vegar tókst félaginu ekki að afla þess fjár og þess stuðnings opinberra aðila, sem þurfti til að koma málinu fram, og varð því ekkert af skipakaupum.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja hér þau rök, sem mæla með útgerð slíkra verksmiðjutogara. Þau eru öllum hv. þm. kunn. Mörg ár eru síðan bent var á þá möguleika til gjaldeyrisöflunar, sem slík skip byðu upp á. Það er satt að segja allhart að þurfa enn að búa við það, að ekki skuli eitt einasta slíkt skip vera komið í okkar skipaflota. Það er ekki sízt hart, þegar haft er í huga, að samtök sjómanna hafa rétt fram hönd sína til samvinnu og samstarfs við ríkisvaldið til að ryðja hér nýja braut. Það er vissulega dálítið erfitt að skilja þá efnahags- og atvinnustefnu, sem hafnar slíkum tækifærum, sem hér hefur verið um að ræða, og það er öruggt, að þetta hefur orðið þjóðinni dýrt, jafnvel sem nemur hundruðum millj. kr. Þetta er ekki sagt út í loftið. Aðrar þjóðir hafa áralanga reynslu af útgerð þessara skipa, og á það hefur hvað eftir annað verið bent og frá því skýrt, hve hagkvæmur rekstur slíkra skipa hefur verið. Nágrannar okkar og frændur, Norðmenn og Færeyingar, hafa t.d. farið inn á þessa braut útgerðar í æ ríkari mæli og talið sig með því auka fjölbreytni sjávarútvegs síns. Nú nýlega skilaði nefnd, sem gerir úttekt á afkomu hinna ýmsu greina norskrar útgerðar, yfirliti yfir árið 1969. Samkv. því stóð útgerð verksmiðjutogaranna langfremst á öllum sviðum. Aflaverðmætið var mest, arðurinn mestur, hlutur sjómanna hæstur. Meðalaflaverðmæti þeirra, brúttó, þessara skipa, nam 5.6 millj. kr. norskum, þ.e. tæplega 70 millj. kr. íslenzkum. Meðalarður af rekstrinum nam 2.4 millj. norskum kr. eða tæplega 30 millj. ísl. kr., sem er meira en meðallaunagreiðslur til áhafna þessara skipa, en meðalhlutur sjómanna á þeim nam 44 þús. norskum kr., sem nálgast 550 þús. ísl. kr. Skýrslur liggja ekki fyrir um árið 1970, en afkoma þessara skipa mun sízt hafa verið lakari það ár. Svipaða sögu mun einnig af útgerð Færeyinga að segja. Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, er það næf óskiljanlegt, hvers vegna íslenzkir ráðamenn og sérfræðingar þeirra berja hér höfði við stein og hafa lagzt gegn till. um útgerð slíkra skipa.

Sú röksemd hefur heyrzt, að þessi skip muni veita frystihúsum okkar óæskilega samkeppni. Ég tel hana fjarstæðu og eiga engan rétt á sér. Þessum skipum er ætlað að leita á fjarlægari mið og á úthöfin. Ef þau skip, sem við nú eigum eða erum að láta smíða, eiga að sækja fisk þangað til vinnslu í landi, verður þar ekki úr fyrsta flokks vara. Við uppbyggingu sjávarútvegsins hljótum við ekki sízt að líta á kröfur og þarfir markaðanna. Við verðum að keppa að því, að allur sá afli, sem við veiðum, verði unninn sem fyrsta flokks vara. Það má ekki verða okkar höfuðsjónarmið aðeins að fá afla fyrir ákveðnar vinnslustöðvar, hvernig svo sem hann er á sig kominn, þegar hann kemur þangað, og hvernig sem úrvinnsla hans verður.

Ég hef trú á því, að hér sé stórkostlegt tækifæri til að treysta þjóðarbúskap okkar og við höfum hörmulega lengi vanrækt að nýta þetta tækifæri. Mér finnst sem íslenzkri sjómannastétt sé sýnd lítilsvirðing með því, að henni skuli ekki fengin í hendur slík tæki til verðmætasköpunar á sama tíma og sjómennirnir horfa á erlenda starfsbræður sína á sömu miðum breyta aflanum í miklu meiri verðmæti en þeir geta sjálfir. Íslenzkir sjómenn hafa margsinnis sýnt, að þeir kunna flestum betur að hagnýta sér nýja tækni við fiskveiðar. Ég er sannfærður um, að árangur þeirra á slíkum skipum yrði enn betri en þekkist hjá öðrum þjóðum.

Um þetta leyti árs 1967, eða rétt fyrir kosningar til Alþ., skipaði hæstv. sjútvrh. nefnd til að gera till. um endurnýjun togaraflotans. Sú nefnd hefur verið mikið gagnrýnd og ekki að ástæðulausu. Eftir fjögur ár er ástandið í togaramálum okkar enn við hið sama að mestu, en boðin hefur þó verið út smíði þriggja eða fjögurra 800–1000 lesta skuttogara, sem væntanlegir eru á næsta ári. En frá nefndinni hefur ekkert álit komið. Hún hefur enga skoðun látið í ljósi um það, hvernig haga eigi uppbyggingu togaraflotans í framtíðinni, en það var einmitt verkefni hennar, að því er mönnum skildist. Ég hefði vænzt þess, ekki sízt með hliðsjón af þeim mikla tíma, sem nefndin hefur haft til umráða, að hún gerði úttekt á togaraútgerð Íslendinga, nauðsyn hennar og eðli, framtíðarmöguleikum, aðstöðu hennar gagnvart öðrum þáttum útgerðar, stöðu hennar vegna friðunaraðgerða, að hún gerði grein fyrir því, hvar líklegt væri, að togarar framtíðarinnar leituðu fanga, og þannig mætti lengi telja. Slíkt starf hefur hún þó ekki unnið, sem verður þó að líta á sem nauðsynlega undirbúningsvinnu, svo að unnt sé að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Þetta verk er því í rauninni enn óunnið, og væri e.t.v. athugunarefni fyrir hæstv. sjútvrh. að skipa aðra nefnd til að vinna að því máli, því að nú er skammt til kosninga.

Að slík vinnubrögð, sem hér hafa verið til umr., skuli viðhöfð við uppbyggingu svo mikilvægrar atvinnugreinar, sýnir, hve viðhorf ráðamanna til hennar mótast af skilningsskorti og skammsýni. Í þessum málum er engin heildarstjórn, sem miðar að þeirri uppbyggingu, sem skili þjóðinni mestum árangri og mestum arði. Það er satt að segja átakanlegt, að við skulum ár eftir ár þurfa að horfa upp á slíkt aðgerðarleysi, skipulagsleysi og þröngsýni og sitja þannig af okkur hundruð millj. kr. í gjaldeyristekjum. Ég trúi því ekki, að það skorti enn vilja hér á hv. Alþ. eftir svo margítrekaða og margsannaða reynslu annarra þjóða til að leggja út á þá nýju braut útgerðar, sem hér er til umr.

Með þáltill. minni er lagt til, að ríkisstj. hafi forgöngu um þetta mál. Tel ég það mjög eðlilegt, þar eð hér er um það fjárfrekt fyrirtæki í stofnkostnaði að ræða, að ekki er á færi annarra, nema með verulegum stuðningi opinberra aðila. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um mál þetta að sinni, en ég vil enn ítreka áskorun mína til hv. þm. um, að þeir íhugi gaumgæfilega eðli þessa máls og veiti því stuðning sinn.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að umr. verði hér á eftir frestað og málinu vísað til hv. sjútvn.