28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í D-deild Alþingistíðinda. (4138)

314. mál, Síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Svar við þessari fsp. er á eftirfarandi hátt: Starfsfólk Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins beindi þeim tilmælum til iðnrn. í bréfi dags. 16. sept. 1970, að rn. veitti þá þegar fjárhagslega fyrirgreiðslu, til þess að verksmiðjan gæti keypt a.m.k. 10 þús. tunnur síldar. Rn. barst skömmu síðar bréf frá stjórn síldarniðursuðuverksmiðjunnar, sem er líka stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, dags. 18. sept., þar sem hins sama var farið á leit. Bréf þessi voru tilefni fundar iðnrh. með stjórn verksmiðjunnar 30. sept. s.l. og með fulltrúum verksmiðjunnar og Siglufjarðarbæjar 1. okt. Á fundi ríkisstj. 8. okt. var samþ. að verða við beiðni stjórnar niðursuðuverksmiðjunnar, sem rædd var á fundi með ráðh. 7. okt., að Síldarverksmiðjur ríkisins mættu ábyrgjast greiðslu á helmingi andvirðis allt að 4 þús. tunna af kryddsíld, þ.e. í það magn af tómum tunnum, sem talið var, að verksmiðjan sjálf ætti, en þetta jafngilti um 6 millj. kr. ábyrgð. Samkv. þessari heimild voru fest kaup á 565 tunnum kryddsíldar. Síðan breyttust aðstæður, svo að ekki varð úr frekari kaupum samkv. henni. En þær ástæður voru ríkisstj. óviðkomandi. Á sama ríkisstjórnarfundi, þ.e. 8. okt., var einnig samþ., að sjútvrh. sæi um í samvinnu við síldarútvegsnefnd, að síld yrði ekki seld úr landi án hliðsjónar af hráefnisþörfum innlendra framleiðenda. Vert er að geta þess, að ríkissjóður hefur fyrr á þessu ári, 31. jan. 1970, veitt niðursuðuverksmiðjunni 4 millj. kr. lán til kaupa á 3000 tunnum kryddsíldar. Lán þetta var veitt til þess að tryggja rekstur á þessu ári. Lánið er enn ógreitt. Rekstrarhorfur niðursuðuverksmiðjunnar eru slíkar í ár, að líkur eru á 3–4 millj. kr. tapi.

Verksmiðjan hefur nú starfað frá 1962 og hefur verið rekin með halla öll árin nema 1969, en þá olli mikill gengishagnaður því, að verksmiðjan skilaði ágóða. Tap verksmiðjunnar hefur ósjaldan verið ámóta hátt og vinnulaun viðkomandi árs. Starfsmenn iðnrn. ásamt fulltrúa fjmrn. og fulltrúa verksmiðjunnar ásamt bæjarstjóra Siglufjarðar hafa kannað möguleika á að bæta rekstrarafkomu verksmiðjunnar og skapa fyrirtækinu sem heppilegast rekstrarform í framtíðinni.

Eins og kunnugt er, hefur nú í nokkurn tíma staðið yfir undirbúningur þess að skilja stjórn niðursuðuverksmiðjunnar frá Síldarverksmiðjum ríkisins og setja verksmiðjunni ný lög. Ráðuneytismenn hafa í því sambandi rætt við ýmsa aðila, sem málið varðar. Komið hefur fram m.a. í þessum umr., að sænskur framleiðandi niðurlagningarvara hefur mikinn hug á samvinnu við Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins um framleiðslu á síld undir hans merki. Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur nú til afgreiðslu tilboð um vinnslu 4000 tunna fyrir þessa aðila. Fulltrúi hins sænska fyrirtækis er nú staddur hér á landi og hefur hafið samninga við síldarniðursuðuverksmiðjuna. Á ríkisstjórnarfundi 22. okt. var ákveðið, að forsrh., iðnrh. og sjútvrh. tækju að sér athugun þess, með hvaða hætti mætti tryggja niðursuðu- og niðurlagningariðnaðinum þær 7400 tunnur kryddsíldar, sem alls hafa verið saltaðar í haust hérlendis, en það er allt magnið, sem saltað hefur verið með þessum hætti. Það er fyrst með bréfi Síldarverksmiðja ríkisins dags. 23. okt., að iðnrn. verður kunnugt um, við hvaða verði hægt er að kaupa kryddsíld hjá síldarútvegsnefnd, hversu mikið magn hefur verið saltað og um hvaða kjör önnur er að ræða, svo sem stærðarflokkun og afhendingartíma. Í sama bréfi er tjáð eftirfarandi till., sem samþ. hafði verið 22. okt. af stjórn Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins:

„Stjórn Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins samþykkir að fara þess á leit við ríkisstj., að hún heimili Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins að taka tilboði síldarútvegsnefndar og útvegi greiðslutryggingu eigi síðar en 1. nóv. n.k. í trausti þess, að í væntanlegum sölusamningi um niðurlagða síld til Sovétríkjanna og annarra kaupenda niðurlagðrar síldar fáist hækkun á söluverði, sem svarar til aukins tilkostnaðar frá fyrra ári.“

En daginn áður hafði síldarútvegsnefnd gert ákveðið tilboð um kaup á þessu magni af kryddsíld, sem ég greindi frá áðan.

Greiðslutryggingin, sem þarf að setja fyrir 1. nóv. miðað við 7400 kryddsíldartunnur, er um 18 millj. kr. Kaupverðið alls er um 32 millj. kr., en þar af mun fást lánað í viðskiptabönkum um 14 millj. kr. út á síldina. Iðnrn. barst einnig eftirfarandi bréf frá stjórn Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins 23. okt.:

„Í framhaldi af bréfi voru til iðnrn. dags. í dag viljum vér skýra frá því, hvað verksmiðjustjórnin hyggst gera, ef ekki reynist unnt að fá með fyrirframsamningum þá verðhækkun á niðurlagðri síld, sem svarar til aukins kostnaðar frá fyrra ári. Hafi það komið í ljós í árslok, að ekki náist viðunandi samningar eins og að er stefnt, þá viljum vér taka fram, að það er ætlun verksmiðjustjórnarinnar að selja kryddsíldina í tunnum á erlendan markað um áramótin, áður en til flutningskostnaðar milli hafna innanlands kemur á síldina, að undanskildum 2400 tunnum, sem þurfa að fullverkast í verkunarhúsi verksmiðjunnar á Siglufirði, svo að hún sé viðbúin að leggja síldina í dósir, ef samningar takast um sölu niðurlagðrar síldar. Viðræður hafa þegar hafizt við Seðlabankann um greiðslutryggingu þá, sem ríkisstj. er beðin að útvega fyrir 1. nóv.“