11.12.1970
Neðri deild: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

170. mál, vegalög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég mun ekki í sambandi við það, sem ég segi hér, fara að hefja deilur um þetta mál, enda geri ég ráð fyrir því að fylgja framgangi þess. Hins vegar þykir mér hlýða í sambandi við umr. um þetta frv. um vegamálin að víkja nokkuð að þeim áhrifum, sem verðbólga hefur haft á framkvæmdir í vegamálum. Eins og kemur fram í grg. þessa frv., kemur það í ljós, að vegna þeirra verðlagsbreytinga, sem orðið hafa, síðan vegáætlunin var samin, þarf 231 millj. kr. til þess að mæta þeim verðhækkunum á þeim tveimur árum, sem eftir eru af vegáætlunartímabilinu, þ. e. árin 1971 og 1972. Þessi verðhækkun hefur að sjálfsögðu geysilega mikil áhrif á framkvæmd í vegamálum, og svo hefur verið allt frá því, að Vegasjóður var stofnaður. Auk þess hefur erlent lánsfé verið notað til vegaframkvæmda. Gengisbreytingar, sem gerðar hafa verið, síðan þau voru tekin, hafa kostað Vegasjóð um 164 millj. kr., svo að verðlagsbreytingin þessi tvö ár, sem eftir eru af vegáætlunartímabilinu, og gengisbreytingarnar, sem gerðar hafa verið, síðan farið var að taka erlend lán til vegagerðar, hafa kostað Vegasjóð tæpar 400 millj. kr. Frá þessu vildi ég skýra í sambandi við umr. um vegamálin, því að það sýnir okkur betur — og er svo augljóst, sem verða má — að tekjustofnar, sem ákvarðaðir eru með krónutölu, rýrna ár frá ári í þeirri verðhækkunarskriðu, sem í okkar þjóðfélagi er. Það er því ekki minnst atriði fyrir Vegasjóð og áframhaldandi vegagerð í landinu, að okkur takist að hefta verðútþensluna og halda verðlagi í skefjum. Þá færu þær áætlanir, sem gerðar eru, að verða raunhæfar, svo að hægt væri að framkvæma eftir þeim.

Ég hef áður látið í ljósi þá skoðun hér á hv. Alþ. og get endurtekið það nú, að ég tel, að þrátt fyrir þær breytingar, sem orðið hafa nú tvö síðustu árin á þátttöku ríkissjóðs í kostnaði vegna vegamála af þeim tekjum öðrum, sem ekki ganga beint til ríkissjóðs — þó að þátttaka ríkissjóðs hafi nú aukizt og geri það með þessu frv., sem ég gleðst yfir — þá er hér um of lítið framlag af hálfu ríkissjóðs að ræða, þ. e. af þeim tekjum, sem ríkissjóður fær beint til sín. Í okkar landi er vegagerð það skammt á veg komin, að nauðsyn ber til að hraða henni og vinna ötullega, og það getum við því aðeins gert, að aukið sé fjármagn til framkvæmda. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá Hagstofu Íslands, hafði ríkissjóður í tekjur af umferðinni árið 1969 362 millj. kr., þ. e. tekjur, sem fást auk þeirra tekjustofna, sem ganga beint til Vegasjóðs. Og það er gert ráð fyrir því, að á árinu 1970 muni þessar tekjur ríkissjóðs nema um 920 millj. kr. Ég vil taka það fram, þó að ég hafi gert það hér áður á hv. Alþ., að í grein, sem fyrrv. vegamálastjóri, Geir Zoéga, skrifaði og út kom í Fjármálatíðindum 1955, gerði hann samanburð á tekjum ríkissjóðs af umferðinni allt frá 1874 til þess dags eða ársloka 1955 og sýndi fram á framlög ríkissjóðs til vegagerðarinnar annars vegar og tekjur ríkissjóðs af umferðinni hins vegar, af því að vegir höfðu verið lagðir í landinu, og fram til þess tíma sýndi það sig, að tekjurnar höfðu nokkurn veginn gengið til vegagerðarinnar. Ég lýsi þess vegna yfir þeirri skoðun minni, að áfram verði að halda á þeirri braut, að ríkissjóður verði að leggja Vegasjóði meira fé vegna hinna gífurlegu framkvæmda, sem verða að vera í vegagerð, því að enda þótt við reynum að auka þær árlega, eru verkefnin svo stór, að þjóðin verður að eyða verulega háum fjárhæðum til framkvæmda í vegamálum. Ég tel, að það sé svo mikils virði og sé svo mikið hagsmunamál fyrir þjóðina í heild að bæta vegina, að við verðum að leggja hart að okkur til þess.

Í sambandi við þetta frv. og framkvæmdir á hraðbrautum vil ég geta þess, eins og fram kom í ræðu hæstv. samgrh., að það hefur verið gerð athugun á umferðinni, og sá kafli, sem ég tel, að sé einhver mesti umferðarkaflinn, er Vesturlandsvegur upp í Kollafjörð. Ég tel mig hafa um það frásagnir, að þar muni vera mesta umferðin á einstökum kafla, þ. e. héðan og að vegamótum á Þingvallavegi. Þess vegna vona ég, að þessi kafli dragist ekki aftur úr, og mig langar í sambandi við þessa umr. að fá að heyra frásögu hæstv. ráðh. af því, af hverju hefur verið tekin upp sú stefna, sem mér skilst, að eigi að gera, að leggja veginn gegnum Mosfellssveitina eins og hann nú er, en hætta við að leggja hann yfir Leiruvoginn, eins og ég tel mig hafa séð till. um, hvort kostnaðarmismunur er þar svo mikill, að þess vegna hafi þetta verið gert, eða hvaða ástæður aðrar hala ráðið því. Það orkar ekki tvímælis, að það styttir veginn verulega til Vestur- og Norðurlands og Austurlands að taka af þennan krók. Ég tel, að það hljóti að verða grundvallarreglan í sambandi við að meta, hvar leggja skuli vegi, þar sem umferðin er mest.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, geri ég ráð fyrir því að styðja þetta frv. Ég vil segja það í sambandi við ákvæðin í 2. og 3. gr. frv., að þau eru frekar óljós, þar sem talað er um að leggja fyrir sameinað Alþingi till. til þál. um vegáætlun, svo fljótt eftir þingsetningu sem auðið er. Þetta er auðvitað nokkuð teygjanlegt. Ég tek undir það með hæstv. ráðh., að það er eðlilegra að gefa skýrsluna um framkvæmdir á vegáætlun, eftir að árinu er lokið en miða hana við haustið, eins og gert hefur verið og gert var ráð fyrir í l. áður. Hins vegar er ekki óeðlilegt, þó að sett væru einhver hámarkstímatakmörk frá áramótum, þangað til sú grg. yrði lögð fram. En ég tel hins vegar alveg sjálfsagt, að það sé miðað við að taka allt árið, eins og áætlunartímabilið einnig er miðað við, og þess vegna eigi að breyta því, en hvort þetta á að vera eins rúmt og hér er, finnst mér, að ætti að athuga betur.

Ég endurtek það, að ég lít svo á, að hér sé um það mikið nauðsynjamál að ræða, að þó að það kosti verulega fjármuni að halda framkvæmdum í horfi eins og hér er gert ráð fyrir og auka við þær eins og er niðurstaða í þessu frv., þótt það hafi kostað það, að það hafi orðið að hækka skatta þá, sem teknir eru af umferðinni til þess að koma þessu í framkvæmd, þá hefði hitt orðið enn þá dýrara, ef það hefði átt að hætta við að framkvæma það, sem vegáætlunin gerði ráð fyrir, og ef við hefðum orðið að horfast í augu við það nú í sambandi við endurskoðun á vegáætlun að geta engum nýjum verkefnum bætt við. Það hefði ég talið algerlega fráleitt og óhugsandi, að hv. Alþ. gæti staðið frammi fyrir því. Þess vegna tel ég, að hér sé betri kosturinn valinn, þ. e. að hækka þessa tekjustofna til þess að geta aukið framkvæmdirnar frá því, sem gert var ráð fyrir, en draga ekki úr þeim, eins og við hefðum orðið að gera að öðrum kosti.

Ég vil svo enda þessi orð með því að endurtaka það, að ég tel, að það eigi að stefna að því, að ríkissjóður eigi að leggja fram meira fé til vegamála, vegna þess að vegagerð í landinu er það arðsöm fjárfesting fyrir ríkissjóð, að hann gæti þess vegna lagt meira þar til. Ég vona einnig, að tekjuáætlun af benzínskatti muni reynast betur á árinu 1971 og 1972 en áætlunin gerir ráð fyrir, vegna þess að bifreiðum hefur fjölgað verulega hér á landi á þessu ári, 1970, en hins vegar varð samdráttur á árinu 1969. En ekki er nema gott um það að segja, ef tekjurnar reynast betri, því að það verður þörf fyrir þær. En verkefnin í vegagerð eru það stórfelld og nauðsynleg, að þjóðin verður að leggja hart að sér til þess að koma þeim í framkvæmd.