03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (4195)

320. mál, Vesturlandsáætlun

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á s.l. þingi flutti ég þáltill. um gerð framkvæmdaáætlunar fyrir Vesturland, Vesturlandsáætlunar. Þessi hugmynd fékk mjög góðar undirtektir hér á þinginu, og hún var afgreidd á þann hátt samkv. till. fjvn., að þingið vísaði málinu til ríkisstj., þar sem vitað var, að gerð slíkra áætlana er eitt af verkefnum atvinnujöfnunarnefndar.

Síðan þessar umr. urðu hér á Alþ., hefur komið fram í kjördæminu vaxandi áhugi á því, að gerð verði slík Vesturlandsáætlun, og nú síðast hefur Samband sveitarfélaga á Vesturlandi tekið málið upp og gert það að sínu. Virðist raunar augljóst að halda áfram á þeirri braut, sem hefur þegar fært Vestfjörðum og Norðurlandi stórkostlegar framkvæmdir til margvíslegra umbóta.

Ég hef leyft mér að flytja fsp. um það, hvenær vænta megi þess, að hafizt verði handa um gerð þessarar áætlunar, sem svo almennur áhugi var á hér á þingi s.l. ár. Fsp. er sem sagt um það, hvenær vænta megi þess, að atvinnujöfnunarnefnd hefji gerð Vesturlandsáætlunar.