24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í D-deild Alþingistíðinda. (4298)

103. mál, samgöngumöguleikar yfir Hvalfjörð

Fyrirspyrjandi (Jón Árnason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. samgrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið hér í sambandi við þá rannsókn, sem þegar hefur átt sér stað varðandi efni þessarar þáltill.

Það er, eins og bent var á á sínum tíma, ýmislegt enn ókannað af því, sem óskað var eftir og talið nauðsynlegt, að rannsakað væri, þó að margt sé þegar búið að rannsaka. Það var t.d. um það talað, að það ætti að athuga, hvaða sparnaður gæti átt sér stað í rekstri vegna styttingar vega í hlutfalli við vegalengdir, og það var einnig talað um sparnað, sem gæti átt sér stað í fjárfestingu í bílum og öðrum samgöngutækjum t.d. skipum, og hvaða áhrif betri samgöngur til vesturs frá Reykjavík gætu haft til þess að létta á öðrum vegum frá Reykjavík. Þá var loks um það rætt, að kannað yrði, hvaða áhrif slíkir nýir samgöngumöguleikar gætu haft á búsetu og fólksfjölgun hinna ýmsu staða, sem málið varðar mest, t.d. Akraness og Borgarness. Það segir sig sjálft, að góðar og greiðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið geta haft úrslitaþýðingu í mörgum tilfellum. Þá er það einnig, að það var mjög nauðsynlegt, að þessari rannsókn yrði sem fyrst lokið með tilliti til þess, hvað á að gera varðandi samgöngurnar, sem nú eru á milli Reykjavíkur og Akraness og fara fram með Akraborg. Akraborg er nú orðið 12 ára gamalt skip, og það er að mörgu leyti óhentugt, þó að það veiti enn í dag mikla þjónustu og meiri þjónustu en nokkur annar flóabátur gerir hér við ströndina. Því að það eru ekki færri en 40–50 þús. farþegar árlega, sem skipið flytur milli Reykjavíkur og Akraness, og af því verður bezt séð, hve mikla þjónustu þetta farþegaskip veitir. Samt sem áður er það nú svo, að rekstur þess er ekki nógu góður. Það verður að veita fjármagn árlega, eins og til annarra strandferða hér við land, til þess að endar nái saman, en það kann svo að fara, ef byggt yrði nýtt og fullkomið skip, hagfellt skip miðað við þessa flutninga, að fá mætti betri rekstrargrundvöll fyrir slíka ferju. Og það er einmitt eitt af því, sem ætlazt er til, að þessi rannsókn feli í sér, sem nefndinni var falin. Ég vil að lokum þakka ráðh. fyrir þessar upplýsingar og vænti þess, eins og fram kom í svari hans, að rannsókninni verði lokið eigi síðar en í marzmánuði n.k.