24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í D-deild Alþingistíðinda. (4304)

327. mál, dragnótaveiðar í Faxaflóa

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Í lögum um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti segir, að ráðh. geti samkv. till. Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskifélags Íslands ákveðið fyrir eitt ár í senn, að dragnótaveiði sé heimiluð á tilteknum svæðum á tímabilinu 15. júní til 31. okt. eða skemmri tíma. Síðan segir orðrétt í 1. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en gerðar eru till. um opnun einstakra veiðisvæða, skal Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæði. Berist álitsgerðir, skal ráðh. óheimilt að opna veiðisvæði eða hluta þess, nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd.“

Þegar lagafrv. um dragnótaveiðar var til umr. hér á hv. Alþ., lögðu flm. þess talsverða áherzlu á þann vilja sinn, að í sambandi við framkvæmd laganna yrði sem varlegast farið og þ. á m. yrði tryggt, að leyfi til veiða með dragnót á ákveðnum svæðum yrðu ekki veitt, nema fyrir lægi eindreginn vilji þeirra, sem hagsmuna höfðu að gæta á viðkomandi veiðisvæðum. M.a. sagði hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir staðir, sem ekki óska eftir, að dragnót sé stunduð þaðan, hafa sjálfir aðstöðu til þess að koma í veg fyrir, að slíkt verði gert.“

Og síðar í ræðu sinni sagði þessi sami hv. þm.:

„Ef sveitarstjórn óskar ekki eftir þessu og ef það er vilji almennings á þeim stöðum, að slíkar veiðar verði ekki stundaðar þar, hefur ráðh. ekki leyfi til þess að leyfa veiðarnar.“

Og hv. 5. þm. Vestf., frsm. n., sem flutti frv., núv. hæstv. forseti Sþ., sagði m.a., með leyfi forseta: „Samkv. því frv., sem fyrir liggur, geta sveitarfélögin fyrirbyggt, að tiltekin svæði verði opnuð, þannig að þeir, sem vilja loka ákveðnum svæðum fyrir dragnótaveiði, hafa nú samkv. þessu frv., ef að lögum verður, meiri rétt en þeir áður höfðu.“

M.a. vegna þessara ummæla töldu margir við setningu laganna, að í rauninni yrði þeim, sem vildu standa gegn dragnótaveiðum á sínum svæðum, auðveldara að fá vilja sínum framgengt en hinum, sem vildu veita leyfi fyrir veiðunum. Í þá átt hnigu ummæli þeirra, sem að flutningi frv. stóðu, eins og ég hef rakið dæmi um. Svo hefur farið, að því er varðar umsagnir aðila um veitingu leyfa til dragnótaveiða í Faxaflóa, að eftir því sem á hefur liðið og eftir því sem betur hefur komið í ljós, að þau aflauppgrip voru ekki fyrir hendi, sem ýmsir fiskifræðingar og aðrir höfðu spáð, og eftir að margt benti til þess, að þessar veiðar væru vægast sagt óæskilegar fyrir viðgang fiskstofna, hafa færri og færri fengizt til þess að mæla með því, að heimild yrði veitt til þess að veiða með dragnót á þessu svæði. Þrátt fyrir andstöðu og aukna andstöðu hafa veiðarnar verið leyfðar á ári hverju, og sýnilegt er nú, að svo til ókleift er fyrir sveitarstjórnir og aðra aðila að koma í veg fyrir þessar veiðar með umsögnum sínum, og skýtur því nokkuð skökku við það, sem heitið var í upphafi. Jafnvel hefur reynzt torvelt að fá upplýsingar um, hvernig umsagnir aðila hafa fallið. Þess vegna hef ég séð ástæðu til þess að bera fram við hæstv. sjútvrh. þessa fsp. um álitsgerðir vegna opnunar veiðisvæða til dragnótaveiða í Faxaflóa s.l. sumar:

1. Hvaða aðilar á Faxaflóasvæðinu voru beðnir um álitsgerðir vegna opnunar veiðisvæða til dragnótaveiða í Faxaflóa s.l. sumar?

2. Frá hvaða aðilum bárust svör?

3. Á hvern veg voru álitsgerðir, sem bárust: a) fyrir 25. apríl, b) fyrir 20. júní?

Þetta er í tvennu lagi, vegna þess að fáar umsagnir bárust fyrir 25. apríl og þá var ákveðið að auglýsa að nýju.