24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í D-deild Alþingistíðinda. (4309)

327. mál, dragnótaveiðar í Faxaflóa

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er nú öllum kunnugt hér á hv. Alþ., að þetta eru viðkvæm mál, sem hér eru til umr. Það hefur sýnt sig, þegar þau hefur borið á góma á undanförnum árum, að hér sýnist sitt hverjum. Það var öllum ljóst, þegar núgildandi lög voru sett, að þau voru ákaflega vandmeðfarin og erfitt að meta á þær vogarskálar, sem þar var lagt til. Hinu vil ég mótmæla, sem hv. upphaflegur fyrirspyrjandi sagði hér, að ekki hefði verið farið að lögum. Það var tvímælalaust gert. Þess vegna fellur líka sú fullyrðing hans um sjálfa sig, að ekki hafi átt og ekki mátt veita leyfi. Hann gat þess réttilega og reyndar hv. 2. þm. Vesturl. líka, að þetta kæmi þó varla til af því, að ég hafi persónulega notað mitt ráðherravald til þess að knýja þetta í gegn, því að hér liggja skjallegar sannanir fyrir því, að ég var andvígur þessari lagasetningu á sínum tíma og fór ekkert dult með þá skoðun mína m.a. vegna þess, að ég óttaðist, að það yrði erfitt fyrir hvern, sem í þessu ráðherrasæti væri á hverjum tíma, að kveða upp úrskurð samkv. þeim reglum, sem lögin gera ráð fyrir.

Ég kemst ekki hjá því að átelja, ekki bara þá, sem sögðu já, eða þá, sem sögðu nei, heldur þátttökuleysið í þessum skoðanakönnunum. Ég tel, að það sé aðalmeinsemdin í þessu. Ég skal ekkert segja, hver úrslitin yrðu í þeim, ef þátttaka yrði þar yfir 20–30%. Það er ekki fyrr en í annarri umferð í jafnviðkvæmu máli, sem næst 40% þátttaka. Þetta er nánast óafsakanlegt.

Varðandi þá fsp. hv. 4. landsk. þm. um hörpudiskaveiðarnar eða skelfiskveiðarnar á Breiðafirði er það að segja, að strax og ágangur í þessar veiðar byrjaði, var gerð tilraun til þess að fylgjast með þeim, og hafði reyndar verið búin að standa yfir um tveggja ára skeið athugun á Breiðafirði öllum, ekki sérstaklega með hliðsjón af skelfiskveiðum, heldur almenn úttekt á Breiðafirðinum sem slíkum. Það sýndi sig, að samkv. kortlagningu fiskifræðinga var um allstór og magnmikil svæði af skelfiski að ræða. Þegar svo áskoranir bárust um það frá Stykkishólmsbúum sérstaklega og síðan fleiri aðilum, að þetta yrði með einhverju móti stöðvað eða hindrað í krafti vísindanna, þá voru þeir spurðir að nýju, hvort hér væri hætta á ferðum. Ég hef látið hv. þm. í té álit þessara fiskifræðinga, og hann hefur sannfærzt um það, eins og ég, að þeir telja, að þarna sé ekki um neina hættu að ræða og allra sízt á fyrsta árinu. Hins vegar verður mjög náið fylgzt með þessu.

Það er einnig rétt, að Hafrannsóknastofnunin og Fiskifélagið hafa gert það að bráðabirgðatillögu sinni, að á meðan með þessum veiðum sé fylgzt verði gefin út leyfi til veiðanna svipað og rækjuveiðileyfin við Ísafjarðardjúp. Sannleikurinn er sá með rækjuveiðileyfin í Ísafjarðardjúpi, að þau eru ekki bundin Ísfirðingum einum, þó að hingað til hafi svo verið, að það hafa ekki aðrir en ísfirzkir bátar um þetta sótt, og á ég þá við báta frá byggðunum við Ísafjarðardjúp, aðrir hafa ekki um það sótt. En það er talið af lögfræðingum mjög vafasamt, að hægt sé að binda leyfisveitinguna við ákveðið byggðarlag, að aðeins bátar frá þessu byggðarlagi megi veiða á þessum stað. Og ég hygg, að vinir mínir í Vestmannaeyjum mundu gjarnan vilja fá Selvogsbankann girtan af fyrir sig, og kynni þá að koma þar minna magn upp en á undanförnum árum.

Ég vil svo aðeins endurtaka fullyrðingu mína, sem ég viðhafði reyndar oft, áður en ég tók við þessu núverandi starfi mínu, að það beri að fara mjög varlega í þessum efnum. Ég held, að við ættum allir að leggjast á eitt um það, meðan lögin eru ekki beinlínis afnumin, að fá meiri þátttöku í þessar skoðanakannanir, sem Fiskifélaginu hafa verið faldar, þannig að réttari mynd fáist af raunverulegum vilja fólksins í þessum efnum.