08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í D-deild Alþingistíðinda. (4320)

126. mál, æskulýðsmál

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Mér þykir að vísu málinu ekki langt komið til framkvæmda. Það hefur eftir upplýsingum hæstv. ráðh. dregizt alveg til 9. nóv., að stofnað væri það æskulýðsráð, sem lögin gera ráð fyrir. Mér heyrist, að þetta ráð samanstandi af hinum mætustu mönnum, en mín skoðun er sú, að þeir megi gjarnan láta hendur standa fram úr ermum og fara að koma frá sér þeirri reglugerð, sem framkvæmd laganna byggist á. Og ég vil líka hvetja hæstv. ráðh. til þess að hotta á þessa menn og láta það ekki verða niðurstöðuna um þetta mál, sem svo lengi var í fæðingu, að það verði óeðlilega lengi látið liggja í vöggu.