02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (4453)

340. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal alls ekki misnota þann rétt, sem ég mun eiga að hafa til þess að tala hér lengur og oftar en hv. fyrirspyrjandi, en aðeins láta örfáar setningar duga, ekki lengri tíma en hann notaði sjálfur.

Þetta, sem hann sagði núna, staðfestir nákvæmlega það, sem ég upplýsti til viðbótar í síðara svari mínu. Það er rétt, að skólastjóri Kennaraskólans skrifaði menntmrn. einhvern tíma — dagsetninguna man ég ekki — snemma á árinu 1970 og fór fram á leyfi til byggingar. (MK: 1969.) Já, eða öðru hvoru megin við áramótin 1969–1970. Þetta varð, eins og kom fram í ummælum hv. þm., tilefni til viðræðna milli hans og byggingardeildarinnar og milli hans og rn., viðræðna, sem ég tók einnig þátt í. Ég leit þannig á, að niðurstaða þeirra hefði orðið sú, — ég skal ekki taka sterkara til orða en það, — að ekki væri óskynsamlegt að leggja megináherzlu á að ljúka fyrst nefndarstörfunum um kennaramenntunina, til þess að allir vissu nákvæmlega, hver stefnan skyldi vera í þeim málum, og taka síðan ákvarðanir á næsta hausti um það, við hvað skyldi miða undirbúning að áframhaldandi byggingum. Þegar síðan skólastjórinn skrifaði mér það bréf, sem hv. þm. vitnaði í líka með ákveðinni dagsetningu, þá svaraði ég: Heimilið þetta strax. Dagsetningin var einhvern tíma í nóv. Ég sagði fyrst í svari mínu, að 27. nóv. hafi verið rætt við ákveðna arkitekta og þeim falið að vinna að teikningum, og rétt áður hafði ég ákveðið að skipa byggingarnefnd, og hún er skipuð mánuði síðar eða fyrir árslok 1970. Einmitt þær viðræður, sem höfðu átt sér stað á milli skólastjóra Kennaraskólans og rn. á árinu 1970, leiddu til þess, að nú er skipuð byggingarnefnd. Arkitektum hefur verið falið að vinna, en þeir vinna núna á grundvelli kennaraháskólafrv., en ekki hinnar gömlu kennaraskólalöggjafar, eins og tvímælalaust er líka skynsamlegt að gera.

Ég get því ekki fallizt á, að í raun og veru hafi staðið upp á rn. Ef dráttur verður á málum, þá er ráðh. og rn. gjarnan kennt um, jafnvel þó að drátturinn sé því einu að kenna, eigi þá einu skýringu, að málið er flókið og vandmeðfarið og tekur sinn tíma að finna því skynsamlega lausn. Ég verð að taka því eins og aðrir stjórnmálamenn að bera ábyrgðina á því, að ekki tekst alltaf að vinna jafnhratt að vandasömum málum eins og æskilegt er, og ég tek þá ábyrgð á mig.