23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í D-deild Alþingistíðinda. (4525)

204. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti. Mér finnst, að þegar komið er með mál einstakra stofnana inn í sali hv. Alþ., þá verði að gera þær kröfur til flm., að þeir hafi kynnt sér rækilega alla málavexti.

Í fsp. þeirri, sem hér liggur fyrir, er talað um, að verksmiðjureksturinn sé mjög þjakaður af ýmsum ástæðum. Það lítur út fyrir, að hv. flm. hafi borið fsp. sína fram að lítt hugsuðu máli. Ég álít, að fsp. og þskj. eigi ekki að vera útbúin eins og revíur eða söngleikir, þar sem hugmyndaflugið má ráða alveg ótakmarkað. Hér er málið miklu alvarlegra en svo. Talað er um bráðabirgðaástand, sem hafi þjakað rekstur verksmiðjunnar og skapað óánægju og óvissu hjá starfsliði hennar. Þótt einhverjir menn hafi látið hv. þm. hlaupa með þetta hér inn í sali Alþ., þá fer því víðs fjarri, sem betur fer, að hér sé um einróma skoðanir að ræða, eins og fullyrt er í fsp. þessa hv. þm. Ég vil m. a. geta þess, að starfsmannafélag Sementsverksmiðju ríkisins hélt árshátíð sína fyrir 10 dögum, og það var ekki að sjá, að þar væri saman kominn hópur þjakaðra manna. Þvert á móti, þar var hópur glaðra og frjálshuga starfsmanna. Formaður starfsmannafélagsins fagnaði því alveg sérstaklega í ræðu, að miklum áfanga hefði verið náð, m. a. fyrir tilverknað verksmiðjustjórnarinnar, í miklu áhugamáli starfsmanna hennar, en það var samningur um land undir sumarbústaði fyrir starfsmenn verksmiðjunnar, sem lengi var búið að vinna að, en leystist nú í lok síðasta árs með þeim hætti, sem starfsmenn verksmiðjunnar óskuðu helzt eftir. Hér er um mikið hagsmuna- og áhugamál starfsmanna að ræða, sem þeir munu óhindrað geta unnið að á næsta sumri og fá ýmis góð öfl í lið með sér.

Ég vil, að það komi fram við þessar umr., af því að ég þykist þekkja nokkuð til málefna Sementsverksmiðjunnar síðustu þrjú árin, að fjármál og bókhald verksmiðjunnar er að mínum dómi í betra lagi nú en um langt skeið áður. Það, sem hefur skeð á þessum tíma, er það, að skrifstofa verksmiðjunnar hér í Reykjavík, þar sem unnu 6–8 menn, var lögð niður. Skrifstofuhaldið var sameinað á einum og sama stað á Akranesi, og þar var mönnum ekki fjölgað, heldur jafnvel fækkað við þessa breytingu. Þarna er svo sannarlega stefnt að því, að gætt sé sparnaðar í rekstri ríkisins og hagkvæmni, en kerfið ekki þanið endalaust út, eins og maður verður því miður allt of víða var við. Reikningur fyrirtækisins yfir árið 1970 hefur þegar verið saminn og lagður fram og verksmiðjustjórnin fjallað um hann á einum fundi. Þetta álít ég, að sé til fyrirmyndar.

Ég ætla ekki að ræða svonefnt forstjóramál Sementsverksmiðjunnar, en það má þó koma fram, að í byrjun síðasta árs losnaði forstjórastarf hennar, og þá kom sú skoðun upp hjá meiri hl. stjórnarinnar að breyta til. Í staðinn fyrir það að ráða verkfræðing fyrir forstjóra, eins og lögin ákváðu, væri starfinu skipt í tvennt.

Um það stóð deila innan stjórnarinnar, og það var ekki fyrr en 1. sept., sem meiri hl. kom fram innan stjórnarinnar fyrir þeirri stefnu að óska eftir því við rn., að starfinu yrði skipt með þessum hætti, eins og komið hefur fram annars staðar. Þetta er skýring á því, að ekki er búið að ganga frá forstjórastarfinu, og má það gjarnan koma fram í sambandi við þessa fsp. Og þó að ég hafi verið í minni hl. í stjórninni, þá tel ég alls ekkert óeðlilegt við þessa málsmeðferð, eins og hún hefur gengið fyrir sig.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar og láta máli mínu lokið, þó að ástæða væri til að bæta þarna ýmsu við.