23.03.1971
Sameinað þing: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í D-deild Alþingistíðinda. (4620)

360. mál, friðlýsing Eldborgar

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svar hæstv. ráðh., því að í því liggur í raun og veru, að hann er í vafa um, að þjóðin hafi ráð á því að friðlýsa Eldborgina, sem er svona ástatt um eins og ég lýsti áðan. Mér þykir það sannast að segja vera dálítið hart, að hæstv. ráðh. skuli vera í vafa um, að Íslendingar hafi ráð á því að friða eldstöð af þessu tagi og taka á sig þær bætur, sem þar kynnu að geta komið til greina.

Það sýnir kannske betur en nokkuð annað, hvernig ástatt er hjá okkur í þessum náttúruverndarmálum, að það fæst ekki einu sinni friðuð eldstöð af þessu tagi, af því að hæstv. ráðh. getur ekki gert það upp við sig, hvort þjóðin hafi ráð á því peningalega eða ekki, því að það er raunverulega þetta, sem hér hefur skeð. Það er ekki Náttúruverndarráð, sem hefur fjárráð eða getur skorið úr um þetta, og Náttúruverndarráð hefur án nokkurs fyrirvara lagt það til, að þessi eldborg verði friðuð. En það er hæstv. ráðh., sem svarar í raun og veru út í hött og getur ekki gert það upp við sig, hvort þjóðin hefur ráð á þessu. Ef hann var í vafa, þá átti hann að láta fara fram athugun á því, hvaða bótakröfur væru þarna hugsanlegar, og hafa síðan samráð t. d. við Alþ. og kanna, hvort það var sömu skoðunar og hann, að vafi léki á, hvort þjóðin hefði ráð á að friða náttúrugersemi af þessu tagi.

Ég hef það fyrir satt, að það standi mjög svipað á um Lakagígi t. d. og Hvannalindir og nú kemur í ljós, að á stendur með þessa eldborg. Þetta er ekkert náttúruverndarlögunum að kenna. Það eru alveg nægilega skýr ákvæði í þeim um þetta, og það þarf engum lögum að breyta til að koma þessu fram. Það þarf aðeins að ákveða, að við höfum ráð á því að borga þær bótakröfur, sem kynnu að koma fram, til þess að friðlýsa þessar stöðvar.

Nýja náttúruverndarfrumvarpið frá stjórninni bætir hér ekkert úr, því að það er búið að plokka út ákvæðið um náttúruverndarsjóðinn, þannig að Náttúruverndarráð verður jafnfjárvana eftir sem áður, ef frv. verður ekki breytt. Þess vegna er það náttúrlega ekkert annað en að draga athyglina frá aðalatriðinu að segja, að hér hafi verið beðið eftir nýjum náttúruverndarlögum.

Náttúruverndarráð var búið að leggja það til fyrirvaralaust, að þessi eldstöð yrði friðuð, og það var ekkert annað eftir að gera en að ráðh. gæfi út auglýsinguna um það og staðfesti það, sem ráðið lagði til, og svo vitanlega tæki ríkið á sig þær skuldbindingar, sem því fylgdu. Væri ráðh. í vafa um, að við gætum tekið þetta á okkur, sem sé þjóðin í heild, þá átti hann vitaskuld að leita til Alþ. bæði um þetta atriði og önnur hliðstæð og fá þá fjárveitingu fyrir væntanlegum skaðabótum.

Um tímaskort er hér ekki heldur að ræða. Það eru þrjú ár síðan þetta mál var lagt fyrir Náttúruverndarráð og mjög langt síðan Náttúruverndarráð skrifaði hæstv. ráðh.

Ég varð sem sagt fyrir miklum vonbrigðum. Ég hélt, að hæstv. ráðh. mundi hér hreinlega lýsa því yfir, að þessi eldstöð yrði friðuð, en ekki halda áfram að skrifast á við Náttúruverndarráð um það, að menn vissu ekki, hvað af því kynni að leiða. Við þessu er ekkert að gera nú annað en að draga þetta mál fram í dagsljósið, og það er það, sem ég vil gera til dæmis um það, hvers konar óskaplegt ástand er hér í náttúruverndarmálunum, því að það má segja, að öll friðunarmál séu gjörsamlega strönduð á því viðhorfi, sem er í stjórnarráðinu, og með því, að ekki eru neinir fjármunir veittir til þessara mála.

Það er ekki nóg að fá náttúruverndarfrv. eins og stjórnin lagði það fyrir, ef á að bæta úr þessu. Hér verða að koma fjármunir til. Ég vil vonast eftir því, að hæstv. ráðh. verði með í því að lagfæra náttúruverndarfrv. og drífa það í gegnum þetta þing. En Eldborgina getur hann að sjálfsögðu friðað strax á morgun. Ég er ekki í neinum vafa um það, að ekki er hér einn einasti þm., sem ekki telur landið hafa ráð á því að friða eldstöð af þessu tagi, eftir þær upplýsingar, sem Náttúruverndarráð hefur veitt, að það séu aðeins þrjár slíkar eldstöðvar til í heiminum.