30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í D-deild Alþingistíðinda. (4660)

363. mál, Fræðslumyndasafn ríkisins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Mál þetta er mér ekki óskylt, þar sem ég hef nú í tæplega tvö ár veitt Fræðslumyndasafninu forstöðu. Hins vegar bera upplýsingar ráðh. með sér, að þessar myndir komu til safnsins fyrir rúmlega hálfum öðrum áratug. Sá ágæti maður, sem þá veitti safninu forstöðu, er nú fyrir nokkru látinn, en eini starfsmaðurinn, sem hann hafði, hefur veitt mér þær upplýsingar, að eitthvað hafi verið keypt úr myndunum.

Í þessu safni eru yfir 1400 kvikmyndatitlar í rúmlega 1600 eintökum, svo að það er augljóst, að nýr starfsmaður getur ekki skoðað nema brot af þeim, og ég játa það hér, að ég hef ekki séð nema nokkrar af umræddum NATO-myndum. Mér virðast þær vera ákaflega misjafnar að gæðum og hafi tiltölulega lítið notagildi nú, þó að þær kunni að hafa haft það fyrir 15 árum. Safnið hefur ávallt búið við þröngan fjárhag og ekki getað keypt nema brot af þeim kvikmyndum, sem það vildi fá. Þess vegna hefur safnið haft, svo lengi sem ég þekki til, mjög vinsamlegt samband við ýmsa aðila og getað fengið bæði frá sendiráðum, stofnunum og ýmsum öðrum aðilum myndir, sem talið hefur verið æskilegt að fá.

Þegar menn deila um mál eins og áróður, þá þyrftu þeir helzt að gera sér grein fyrir því fyrir fram, hvað þeir meina með orðinu áróður. Hann getur verið grófur og augljós, en hann getur verið eins og mengun, mjög erfitt að draga hættumörkin. Ég skal játa, að ég hef verið heldur frjálslyndur í þessum efnum, en allar þær myndir, sem safnið hefur fengið, síðan ég kom þar, hafa að sjálfsögðu verið skoðaðar. Ég gæti t. d. sýnt hv. þm. eða hverjum sem vildi ágætar sovézkar myndir, sem við höfum nýlega fengið, sem eru um efni, er ýmsir mundu vafalaust telja áróður, en ég tel þær vera fróðlegar. Ég vil leggja á það megináherzlu, að Fræðslumyndasafnið hefur, að því er ég bezt veit, ávallt sagt, hvaðan myndir væru upprunnar, og ekki viljað blekkja nokkurn mann, hvað þetta snertir. Starfsmenn þess segja mér, að þeir geti þess ávallt við þá, sem fá NATO-myndir lánaðar, hvaðan þær eru komnar.

Það væri að sjálfsögðu æskilegt að geta sett íslenzka texta á miklu fleiri kvikmyndir, en það er því miður mjög dýrt og ekki hægt að gera það nema að nokkru leyti hér á Íslandi. Ég held, að hvað sem mönnum kann að finnast um þær myndir, sem hér hafa verið gagnrýndar, liggi það fyrir, að þær eru orðnar svo gamlar, að not þeirra verða héðan í frá sjálfsagt lítil sem engin.

Ég vil benda mönnum á, að það er alls ekki vandalaust að ákveða, hvaða myndir hafa áróðursgildi og hvaða myndir hafa það ekki. Myndir eru fengnar úr ýmsum áttum. Hv. þm. nefndi myndir frá Japan, sem eru til mjög góðar. Þær eru þó fengnar frá japönskum stjórnvöldum og sýna vafalaust landið í því ljósi, sem þau vilja. Ég held, að það sé ekkert af hættulegum áróðri í slíkum myndum, en þvert á móti geta slíkar myndir komið að mjög góðu gagni.

Ég vil vænta þess, að þessi áhugi á Fræðslumyndasafninu verði til þess, að því verði í framtíðinni gert kleift að kaupa fleiri myndir og þá beztu fræðslumyndir, sem það getur fengið, svo og það, sem kostar því miður mjög mikla peninga, að setja íslenzkan texta við myndirnar.