30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í D-deild Alþingistíðinda. (4678)

289. mál, rafvæðingaráætlun Vestfjarða

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég get engin svör gefið hér um laxveiðiáhuga einhverra manna hjá Rafmagnsveitum ríkisins, og ég vísa hv. þm. beint á rafmagnsveiturnar. Bæði er þar sérstök stjórn, eins og kunnugt er, og sérstakur framkvæmdastjóri, svo að það ætti að vera auðvelt fyrir þm. að fá upplýsingar um þennan sérstaka áhuga. Hitt er svo annað mál, að það hefur enginn frá Rafmagnsveitum ríkisins haft umboð til þess að fullyrða það, að rafmagn í sveitunum yrði lagt á þá bæi, þar sem 2 km eru á milli. Ég hef sagt hér, held ég, oftar en einu sinni í þinginu, að þegar 1.5 km meðalfjarlægðinni væri náð, sem verður á þessu ári, þá yrði gerð heildaráætlun, og að henni er verið að vinna, um það, hvernig skuli staðið að framtíðarrafvæðingu í sveitunum. Og ég hef ekki haft ríkan áhuga fyrir því að miða endilega við einhverja fjarlægð á milli bæja, heldur gera sér grein fyrir því í heild, hvaða bæir geti orðið aðnjótandi samveitna í sveitunum, og að mönnum verði það sem fyrst ljóst. Ég veit svo ekki, hvort það, sem ég hef um þetta sagt, þarf að valda svo miklum vonbrigðum. Við í rn. höfum þarna á þessu svæði farið út fyrir þau takmörk, sem fram til þessa hafa gilt, til þess að geta rafvætt myndarlegt svæði á Vestur-Barðaströndinni á næsta ári, og ég hef fengið sérstakar þakkir frá þeim, sem þar eru í fyrirsvari, fyrir það. En þetta var gert með því, að við lokaafgreiðslu fjáröflunar til rafvæðingar í sveitunum hækkaði ríkisstj. framlagið um 50%, og hefur hlutaðeigandi sveitarstjórnaraðilum þar verið tilkynnt um það. Því sagði ég áðan, að á næsta ári yrði þetta svæði rafvætt, vegna þess að háspennulínan yfir Kleifaheiði yrði lögð á þessu ári.