30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í D-deild Alþingistíðinda. (4683)

369. mál, raforkumál Þistilfjarðarbyggða

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svörin, en vil benda á, að það er ekki alls kostar rétt, að ég hefði getað spurzt fyrir um þetta í orkuráði, því að verksvið orkuráðs er nú harla lítið. Það hefur aðeins tillögurétt um rafvæðingu sveitabæja og ekkert um það, hvernig háspennulínurnar eru lagðar, þ. e. þær línur, sem rafmagnið er tekið úr. Það er fyrst og fremst iðnrh. eða orkumrh., sem slíku ræður. Á síðasta orkuráðsfundi gerðum við einmitt fsp. um þetta, hvort línan yrði lögð frá Kópaskeri eða Raufarhöfn, og þá vissi ráðuneytisstjóri ekki um þetta mál, og enn virðist mér ekki liggja alveg ljóst fyrir, hvort heldur línan verður lögð frá Raufarhöfn eða Kópaskeri. En það, sem ég tók fram í minni fsp., var það, að Þistilfjarðarbúar telja sér hagkvæmara, til þess að tenging allra bæja komi inn í dæmið, að línan sé lögð frá Raufarhöfn. Nú er ég ekkert viss um, að þetta sé endilega réttur skilningur, en ég var að leita eftir því, hvort rn. væri búið að taka fullnaðarákvörðun um þetta mál.