30.11.1970
Neðri deild: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um Lífeyrissjóð bænda, sem hér liggur fyrir, var lagt fram í lok síðasta Alþ., en hlaut þá ekki endanlega afgreiðslu, enda var ekki til þess ætlazt, þar sem málið kom seint fram, en hins vegar um að ræða mál, sem var þess eðlis, að það var talið æskilegt, að hv. þm. gætu kynnt sér efni þess og þau grundvallarsjónarmið, sem liggja hér að baki, þar sem hér er um nokkuð breytt form að ræða á uppbyggingu lífeyrissjóðs frá því, sem varðar lífeyrissjóði í landinu almennt.

Frv. sem slíkt á sér ekki langan aðdraganda, en hugmyndin um Lífeyrissjóð bænda á sér þó lengri aðdraganda. Fyrir nokkrum árum var skipuð sérstök n. til þess að kanna, hvernig hægt væri að tryggja lífeyrissjóð fyrir bændur, og varð þá ekki endanleg niðurstaða úr starfi þeirrar n., sem um það fjallaði, þar sem á því þóttu vera ýmsir annmarkar að finna form fyrir því, hvernig hægt væri að byggja slíkan lífeyrissjóð upp. Síðan hefur það gerzt, að í byrjun árs 1970 skipaði hæstv. landbrh. n. manna til þess að semja frv. til l. um Lífeyrissjóð bænda, en þar áður hafði málið verið til sérstakrar meðferðar hjá bændasamtökunum, og höfðu þau raunar gengið frá frv., sem hafði bæði verið rætt og fengið afgreiðslu hjá Stéttarsambandi bænda og Búnaðarþingi. Og það varð niðurstaðan varðandi undirbúning þessa frv. hér, að sérstök hliðsjón skyldi höfð af því frv., sem undirbúið var af mþn. Búnaðarþings, en till. þeirra höfðu verið afhentar landbrh. rétt fyrir árslok 1969. Áður en endanlega var gengið frá þessu frv. í vor, þá var það rætt við forystumenn stéttarsambandsins, og það varð um það samkomulag efnislega, að rétt væri að leita eftir lögfestingu á lífeyrissjóði bænda á þann veg, sem segir í þessu frv. Frv. hefur nú gengið í gegnum hv. Ed. og hlotið þar almennan stuðning, og vildi ég leyfa mér að vænta þess, að svo gæti einnig orðið í hv. d., og sérstaklega leggja á það áherzlu, áður en ég vík að nokkrum meginatriðum í efni málsins, að það ber brýna nauðsyn til þess, að frv. verði afgr. nú í desember, ef það á að geta tekið gildi um næstu áramót, svo sem gert er ráð fyrir í frv., og vildi ég leyfa mér að beina þeim tilmælum til þeirrar hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hún hagi störfum sínum í samræmi við þessa nauðsyn.

Það má segja, að meginhluti frv. þurfi ekki sérstakrar skýringar við, vegna þess að hann er í samræmi við hefðbundin form í uppbyggingu lífeyrissjóða, þar sem settar eru reglur um það, hvernig sjóðir skuli starfa, hverjir eigi rétt til að taka lífeyri úr honum og ýmis önnur atriði, sem eru nánast meira og minna formlegs eðlis. En það, sem var sérstakt vandamál í sambandi við uppbyggingu þessa sjóðs umfram aðra lífeyrissjóði, er það, að allir þeir lífeyrissjóðir, sem hingað til hafa verið settir á laggirnar, hafa það sameiginlegt, að þeir eru fjármagnaðir annars vegar með gjöldum frá lífeyrissjóðsþegum eða meðlimum lífeyrissjóðanna — oftast nær 4%, þó að til séu stærri sjóðir, og síðan er mótframlag greitt — oftast 6% — frá viðkomandi launagreiðanda. Varðandi bændur er þessu hér ekki til að dreifa með venjulegum hætti. Þar er enginn vinnuveitandi, þeir eru sjálfstæðir vinnuveitendur eða atvinnurekendur, og það er því ekki um neinn mótframlagsaðila í þessum skilningi að ræða. Það, sem hér hefur því verið gert og er nýtt í þessu frv. um þennan fyrirhugaða lífeyrissjóð, er það, að mótframlagsaðilinn er í þessu tilfelli talinn neytandi landbúnaðarvaranna, og gert ráð fyrir því, að mótframlagið greiðist með sérstöku álagi á landbúnaðarvörur, en bændur greiði aftur af sínum launum, sem svari þá því framlagi, sem aðrir launþegar verða að greiða til síns lífeyrissjóðs. Það er því í rauninni verið að marka stefnu, sem ræður úrslitum um það, hvernig til tekst með að byggja upp lífeyrissjóði fyrir þær stéttir aðrar, sem eftir eiga að fá sinn lífeyrissjóð.

Svo sem hv. þdm. er kunnugt, þá var fyrir nokkru sett á laggirnar n. til þess að undirbúa löggjöf eða till. um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Eftir að verkalýðsfélögin með samningum fengu því framgengt fyrir ári síðan, að lífeyrissjóður var settur á laggirnar fyrir verkalýðsfélögin öll, þá var sýnilegt, að grundvöllurinn undir því að setja á laggirnar nú sameiginlegan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn var ekki fyrir hendi eða var að verulegu leyti brostinn. Þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs að leggja á það áherslu að koma á fót lífeyrissjóði fyrir hinar ýmsu stéttir, sem enn eiga eftir að fá lífeyrissjóð, og hefur rn. á s. l. vori skipað sérstaka n. til þess að kanna annars vegar hvaða starfshópar eru eftir utan lífeyriskerfisins og hins vegar með hverjum hætti hægt sé að byggja upp lífeyrissjóðinn fyrir þessa aðila. Það er mismunandi aðstaða þessara starfshópa, sem flestir eru þannig settir eins og bændur, að þeir hafa ekki launagreiðanda annars vegar til þess að greiða fyrir sig launin og verða þá með einhverjum hætti að fá mótframlagið greitt á annan veg, en þetta spor, sem hér er stigið með Lífeyrissjóði bænda, er fyrsta sporið í þá átt að marka nýja stefnu varðandi uppbyggingu lífeyrissjóðanna að þessu leyti, og það þótti rétt að fá viðbrögð hins háa Alþ. við þessari hugmynd, sem hér er mörkuð eða sett fram, áður en hafizt yrði handa um að leggja fram frv. um lífeyrissjóði fyrir fleiri stéttir, sem nokkuð svipað er ástatt með. En að því er sem sé unnið og verður stefnt að því, að lífeyrissjóðir fyrir einstaka starfshópa aðra, sem eru töluvert fjölmennir, geti sem fyrst tekið til starfa eða fengið lögfestingu og þá sé skoðað hverju sinni, hvernig hægt er að byggja sjóðina upp með framlögum aðila og mótframlögum.

Með þessu vil ég taka það fram að það er ekki horfin sú hugmynd að setja upp lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, þegar tímar líða fram, en á því eru miklir annmarkar vegna mjög mismunandi aðstöðu lífeyrissjóðanna, styrkleika þeirra og margvíslegra sérstakra viðhorfa, þannig að ég held, að það sé engum efa bundið, að eftir tilkomu hinna sérstöku lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna og nú Lífeyrissjóðs bænda verði að fara þessa leið, sem ég gat um, þ. e. að reyna fyrst að stofna sérstaka lífeyrissjóði fyrir alla starfshópa strax og tímabært verður að koma þessu í fastara form og mynda heilsteypt kerfi lífeyrissjóða og ellitrygginga, sem er vitanlega annar veigamikill þáttur þessa sama máls. Ég hef viljað fara um þetta nokkrum orðum, vegna þess að þetta er aðalnýmæli þessa frv.

Varðandi frv. að öðru leyti vildi ég geta þess, að það er gert ráð fyrir því, að lífeyrissjóðurinn taki til starfa nú þegar um næstu áramót og það gerist með svipuðum hætti og með lífeyrissjóð verkalýðsfélaganna. Það verður sjáanlega ekkert fjármagn komið til sjóðsins, enda eiga iðgjöld til sjóðsins að taka gildi í áföngum, eins og segir í bráðabirgðaákvæði með frv., og verða ekki komin í fulla upphæð fyrr en árið 1974, og verður því að brúa þetta bil. Gert er ráð fyrir, að það verði gert með þeim hætti, að ríkissjóður leggi fram nokkurt fé af sinni hálfu, eins og gert er ráð fyrir í l. um lífeyrissjóð stéttarfélaganna, en að hinu leytinu verði það Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem leggi fram fé á móti til að standa undir þessum lífeyrisgreiðslum. Er þá jafnframt gert ráð fyrir því, að létt verði kvöðum á stofnlánadeildinni með því að breyta því framlagi stofnlánadeildarinnar, sem verið hefur, og auka tekjur hennar að nokkru leyti í bili, en síðan á það framlag að breytast aftur eftir ákveðnum reglum, sem ég ræði ekki hér, en um það er fjallað í öðru frv., sem liggur hér fyrir þinginu og nú er í hv. Ed. til meðferðar um breytingu á stofnlánadeildarlögunum. En stofnlánadeildinni er sem sé ætlað að leggja fram 62.5% af þessum upphaflegu lífeyrisgreiðslum, sem hefjast á næsta ári, og ríkissjóði 37.5%, og gildir það til ársloka 1985, en þá taki lífeyrissjóðurinn að öllu leyti við þessum greiðslum. Á þessu varð svolítil breyting í Ed. í þessa átt, sem ekki skiptir meginmáli, en það stafar af því, að það var ekki fullt samræmi á milli þessa frv. og frv. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, vegna þess að á því hafði orðið nokkur breyting frá því, að annað frv. var undirbúið og þetta var samræmt í Ed. á þennan hátt og hefur ekki neina grundvallarþýðingu, en er nauðsynlegt, að sé samhljóða í báðum frv.

Þegar lífeyrissjóðurinn er farinn að taka fullar greiðslur eða fá fullar greiðslur, þá er gert ráð fyrir því — og er þá miðað að vísu við núverandi verðlagsgrundvöll — að það muni nema rúmum 100 millj. kr. á ári, sem að sjálfsögðu fer hækkandi eftir því, sem verðlagsgrundvöllur hækkar, þannig að hér er um allverulegan sjóð að ræða. Það er gert ráð fyrir því, að hluti hans verði bundinn, þannig að Stofnlánadeild landbúnaðarins eigi rétt á lánum, sem nemi 25% af árlegum iðgjöldum fyrstu 15 starfsár sjóðsins, og er það m. a. gert til þess að bæta fjárhagsaðstöðu stofnlánadeildarinnar vegna þeirra kvaða, sem á deildina eru lagðar í sambandi við lífeyrissjóðinn fyrstu árin.

Ég held, herra forseti, að það sé ekki ástæða til, að ég sé að lengja mál mitt meira. Með frv., eins og það var lagt hér fram á síðasta þingi, fylgdi mjög ítarleg grg., og ég teldi jafnframt mjög æskilegt, að hv. n., sem fengi málið til meðferðar, fengi Guðjón Hansen tryggingafræðing til viðtals, ef hún óskar sérstakra upplýsinga varðandi frv. og tæknileg atriði þess, en að öðru leyti er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að gefa n. þær upplýsingar eða afla þeirra upplýsinga, sem hún telur þörf á en endurtek aðeins að lokum hina brýnu nauðsyn þess, að frv. verði afgr. sem skjótast til þess, að hægt verði að haga gildistöku þess, svo sem gert er ráð fyrir í frv.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað að þessari umr. lokinni til 2. umr. og hv. fjhn.