10.11.1970
Neðri deild: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

101. mál, atvinnuöryggi

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða allmikið um þetta frv. um verðstöðvun, sem hér er á dagskrá, og skal ég ekki lengja umr. með því að víkja mjög mikið að efnisatriðum þess. Ég lít á frv.-flutning þennan sem lið í þeim kosningaundirbúningi, sem er nú hafinn fyrir alþingiskosningar á næsta ári. Þetta er tafl, eins og teflt var fyrir seinustu kosningar, þegar verðstöðvunarfrv. var flutt þá af hálfu hæstv. ríkisstj. nokkrum mánuðum fyrir kosningar.

Það hefur verið vikið að því hér áður, að tilgangurinn með frv.-flutningnum sé sá, að dylja enn þá um sinn, hvernig komið er í landinu í verðlagsmálum og kaupgjaldsmálum, dylja það fram yfir kosningarnar, og það hefur ennfremur verið bent á, að með þessu frv. séu engin af þeim grundvallarvandamálum, sem til staðar séu í þjóðfélagi okkar, leyst. Ég hygg, að öllum, sem þetta athuga, sé þetta ljóst og sé í reyndinni ekki um það deilt, að með frv. um verðstöðvunina þá sé ekkert af þeim grundvallarvandamálum, sem við Íslendingar höfum átt við að stríða í efnahagsmálum marga áratugi, leyst. En í leiðinni, vilja þeir, sem að frv. standa, líka ná þeim árangri, að þeir geti í kosningabaráttunni á næsta ári slegið á þá strengi, að þeir séu einhverjir sérstakir baráttumenn þess að halda verðbólgunni í skefjum, en við, sem stjórnarandstöðuna skipum, höfum ekki eins mikinn áhuga á því, og gerum raunar margt til þess að kynda undir þá verðbólguelda, sem logað hafa í þjóðfélagi okkar undanfarandi ár.

Til samhengis þá vil ég í örfáum orðum rekja þann tilgang, sem frv. á að tryggja. Með því á að eyða, eins og sagt hefur verið, 6.2 vísitölustigum, sem ættu að öllu óbreyttu að koma fram í kaupgjaldi 1. des. n. k. Þetta á að gerast með því að fresta tveggja stiga hækkun allt til 1. sept. 1971. Í öðru lagi með því, að eins stigs hækkun vísitölunnar, sem verður vegna hækkunar á áfengi og tóbaki og vegna hækkunar á iðgjöldum til almannatrygginganna, er ekki tekin inn í vísitölugrundvöllinn, eins og þó er um samið. Og í þriðja lagi á að greiða niður 3.2 stig af vísitöluhækkuninni, og undir þeim kostnaði eiga atvinnurekendur, ríkissjóður, launþegar og bændur að standa.

Ég sagði áðan í upphafi ræðu minnar, að ég liti á það sem annan megintilgang þessa frv. að leggja grundvöllinn að þeirri kosningabaráttu, sem núverandi stjórnarflokkar hyggjast heyja á næsta ári fyrir kosningarnar. Mér finnst því ekki óeðlilegt og raunar nauðsynlegt, til þess að nokkurt samhengi eða skilningur fáist á því, hvað hefur verið að gerast í verðlagsmálum og í verðbólgumálum að undanförnu, að víkja nokkrum orðum að sjálfri stjórnarstefnunni, sem óumdeilanlega ræður mestu um, hvernig til tekst í þessum mikilvægu málum í þjóðarbúskap okkar.

Hæstv. forsrh. sagði þér í gær í umr., að jafnvægi í verðlagi væri undirstaða atvinnuöryggis landsmanna, og er ég hæstv. forsrh. algerlega sammála um þetta atriði, að jafnvægi í verðlagsmálum innanlands er forsenda atvinnuöryggis landsmanna. Hæstv. viðskmrh. sagði líka í umr. í gær, að ríkisstj. hefði fylgt réttri efnahagsstefnu.

Mig langar nú í framhaldi af því, sem ég sagði hér í upphafi, og með hliðsjón af yfirlýsingum þessara tveggja hæstv. ráðh. að víkja nokkuð að þeirri reynslu, sem er óumdeilanleg og hefur fengizt á 10 árum, af þeirri stjórnarstefnu, sem hér hefur verið ráðandi á þeim tíma. Stefnan var, eins og hv. alþm. muna, mörkuð í ársbyrjun 1960 og birtist m. a. í bæklingi, sem þá var gefinn út og nefndur var „Viðreisn“, sem nú í dag er ekki í allra manna höndum og er ekki mikið hampað. En í þessum bæklingi segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stefnuyfirlýsingu þeirri, sem ríkisstj. birti, þegar hún tók við völdum í nóv., taldi hún það höfuðverkefni sitt að koma atvinnulífi þjóðarinnar á traustan og heilbrigðan grundvöll. Hefur síðan verið unnið að athugun á þessu máli. Þótt ekki séu nema rúmir tveir mánuðir, síðan ríkisstj. hóf störf sín, er nú lokið þeim rannsóknum, sem taldar voru nauðsynlegar. Þegar stjórnin og stuðningsflokkar hennar höfðu kynnt sér þessar athuganir og niðurstöður þeirra, var ákvörðun tekin um, að ríkisstj. skyldi beita sér fyrir gagngerðri stefnubreytingu í efnahagsmálum þjóðarinnar og nauðsynleg frv. samin, þar sem hin nýja stefna er mörkuð. Hér er ekki um að ræða ráðstafanir sama eðlis og þær efnahagsráðstafanir, sem tíðkazt hafa svo að segja árlega nú um skeið og snert hafa fyrst og fremst breytingar á bótakerfi útflutningsins og nauðsynlega fjáröflun í því sambandi, heldur algera kerfisbreytingu samfara víðtækum ráðstöfunum í félagsmálum, skattamálum og viðskiptamálum.“

Síðar segir, þar sem talað er um heilbrigðan grundvöll, sem stefnan eigi að tryggja:

„Það hefur verið augljóst einkenni allra þeirra efnahagsráðstafana, sem gripið hefur verið til árlega undanfarið, að þær hafa verið gerðar til bráðabirgða, enda ekki staðið nema stuttan tíma í senn. Að vísu verður aldrei tekið upp efnahagskerfi, sem ætla megi, að standi óbreytt um langt árabil. Hitt er þó víst, að árlegar breytingar á aðstöðu atvinnuveganna og hin mikla óvissa, sem svo tíðum breytingum hlýtur að fylgja, draga verulega úr afköstum þjóðarbúsins og tefja þar með, að lífskjörin batni eins ört og yrði að öðrum kosti. Af þessum sökum er það megintilgangur þeirrar stefnubreytingar, sem ríkisstjórnin leggur til, að framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna sé skapaður traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöllur en atvinnuvegirnir hafa átt við að búa undanfarandi ár.“

Hér kemur fram sú meginstefna, sem mótuð var af hæstv. ríkisstj. í ársbyrjun 1960. Til þess að tryggja þá stefnu í framkvæmd ákvað hæstv. ríkisstj. að afnema vísitöluna. Um það atriði segir svo í þessum sama bæklingi:

„Til þess að koma í veg fyrir, að aftur hefjist það kapphlaup milli verðlags og kaupgjalds, sem tókst að stöðva á s. l. ári, leggur ríkisstjórnin til, að óheimilt sé að miða kaupgjald við breytingar á vísitölu. Reynslan hefur sýnt, að það vísitölukerfi, sem hér hefur verið í gildi síðan í byrjun heimsstyrjaldarinnar síðari, hefur ekki verið launþegum til neinna varanlegra hagsbóta. Þess vegna leggur ríkisstjórnin til, að það verði afnumið. Hins vegar eru ekki í tillögum stjórnarinnar nein ákvæði um grunnkaup. Það er stefna ríkisstjórnarinnar, að það sé og eigi að vera verkefni samtaka launþega og atvinnurekenda að semja um kaup og kjör. Þegar afkoma atvinnuveganna leyfir hækkun kaupgjalds, telur ríkisstjórnin hana eðlilega og sjálfsagða, en hún mun beita sér gegn því, að kaup verði hækkað og kostnaðinum við þá hækkun síðan velt yfir á herðar almennings í landinu með hækkun vöruverðs eða á annan hátt.“

Þetta er sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. markaði sér í upphafi. Og fyrir nokkrum mánuðum var það ítrekað og því lýst yfir af hæstv. núv. forsrh., að hið nýja ráðuneyti hans mundi fylgja í öllum aðalatriðum sömu stefnu og þarna var mörkuð.

En hvað hefur reynsla okkar sýnt um afleiðingar þessarar stefnu í þjóðarbúskap okkar á áratugnum 1960 til 1970? Hefur hún tryggt það, að ekki hafi þurft að grípa til árlegra aðgerða til þess að halda atvinnuvegunum gangandi og koma í veg fyrir viðtækt atvinnuleysi? Lítum lítillega á það, sem gerðist á þessu yfirstandandi kjörtímabili. Þá má sjá, að á árinu 1966 var framkvæmd verðstöðvun á mjög svipaðan hátt og nú er fyrirhuguð. Á árinu 1967 var grípið til margvíslegra ráðstafana, þeirrar stærstu, gengisfellingarinnar, auk margháttaðra uppbóta og annarra aðgerða til þess að koma í veg fyrir, að atvinnulíf landsmanna stöðvaðist. Á árinu 1968 var gripið til gengisfellingar, og nú í ár, árið 1970, á enn á ný að grípa til verðstöðvunar til þess að tryggja atvinnuvegina, að þeir verði í gangi a. m. k. fram yfir næstu kosningar. Þetta er þá reynslan af hinni nýju stefnu, að á síðasta kjörtímabili hefur orðið á hverju ári að grípa til aðgerða til þess að forða frá meiri háttar óhöppum í þjóðarbúskap okkar. Og hvernig hefur hin nýja stefna tryggt grundvöll atvinnuveganna? Hvernig hefur hún reynzt t. d. að því leyti að tryggja stöðugt verðlag í landinu? Ég hef hér fyrir framan mig tölur, sem Hagstofan hefur reiknað út um hreyfingu á vísitölu vöru og þjónustu á grundvelli verðlagsins 1914, og ef við lítum á þær hækkanir, sem orðið hafa á tímabilinu frá 1930 til 1970 og tökum hver 10 ár fyrir sig, þá sjáum við, að vísitala vöru og þjónustu hefur á áratugnum 1930–1940 hækkað um 35%. Á árunum 1940–1950 hækkar þessi vísitala um 263%, en ég bið hv. alþm. að hafa það í huga, þegar ég nefni þessa háu tölu, að þetta eru einmitt styrjaldarárin, sem að sjálfsögðu höfðu mjög veruleg áhrif á allt verðlag í landinu, og er því ekki óeðlilegt þegar af þeirri ástæðu, að hækkun vísitölu vöru og þjónustu sé há á þeim áratugnum. En svo kemur áratugurinn 1950–1960, sem sýnir, að hækkun vísitölu vöru og þjónustu er 123 stig, eins og hér hefur áður verið nefnt, en hækkun vísitölu vöru og þjónustu á síðasta áratug, frá 1960–1970, er 250 stig, þ. e. a. s. að hækkun vísitölunnar á síðasta viðreisnaráratugnum hefur verið meiri en tvöfalt hærri en á áratugnum á undan. Þessi staðreynd segir talsvert mikla sögu um það, hvernig til hefur tekizt um stjórn þjóðarbúsins á þessum tíma.

Ég hef líka fleiri tölur, sem segja mikið mál. Ég hef hér tölur frá Hagstofunni um hækkun á nokkrum algengum neyzluvörum almennings frá 1958 til 1970, miðað við verðlag eins og það var þessi árin í ágústmánuði. Þar sést m. a., að magn af súpukjöti, sem kostaði 100 krónur 1958, kostar 1970 um 505 kr. Magn af kartöflum, sem kostaði 100 kr. 1958, kostar árið 1970 1421 kr. Magn af nýjum fiski, sem kostaði 100 kr. 1958, kostar 1970 775 kr., og hrísgrjón hafa hækkað á þessu tímabili úr 100 kr. upp í 1004 kr.

Ég nefni ekki fleiri dæmi um þær verðlagshækkanir, sem hafa orðið á nauðsynjavörum almennings, en einnig þessar tölur segja nokkuð mikla sögu um þau rassaköst, sem hér hafa verið í sambandi við verðlagsmálin í þjóðfélagi okkar á undanförnum áratugum.

Þá tekur ekki betra við, ef við reynum að bera þróun þessara mála í okkar þjóðfélagi síðasta áratuginn saman við það, sem hefur verið meðal annarra þjóða, sem nálægt okkur eru og við getum fyllilega borið okkur saman við. Ég hef hér tölur um þróun vísitölu verðlags á Norðurlöndum á tveim tímabilum, þ. e. a. s. í fyrsta lagi á árunum 1954–1958, sem segir, að á þeim tíma hafi meðaltalshækkun á hverju þessara ára verið þessi: 4% hækkun í Danmörku, 7% hækkun í Finnlandi, 6% hækkun á Íslandi, 3% hækkun í Noregi og 4% hækkun í Svíþjóð.

En hins vegar á árunum 1958–1967 eru tölurnar þessar: Danmörk 4%, Finnland 4.5%, Ísland 10%, Noregur 3% og Svíþjóð 3.5%. Síðan hef ég tölur um hækkunina á Íslandi á árunum 1967–1970, en þar er meðaltalshækkunin 20%, en ég hef ekki sambærilegar tölur frá hinum Norðurlöndunum.

Og þær upplýsingar fékk ég í gær hjá Efnahagsstofnuninni, að samkv. skýrslum frá O. E. C. D., Efnahags- og framfarastofnuninni, þá hafi meðaltalshækkun verðlags í löndum þeirrar stofnunar á tímabilinu 1963–1969 numið 4%, en á Íslandi hafi þessi hækkun numið um 12.8%, eða rúmlega þrisvar sinnum hærri en meðaltalshækkun verðlagsins í öðrum löndum O. E. C. D.

Ef hv. alþm. minnast orða, sem mikilsvirtur, látinn stjórnmálaforingi íslenzkur sagði fyrir nokkrum árum, að flest eða allt væri unnið fyrir gýg í efnahagsmálum okkar, ef ekki tækist að ráða við eða hamla gegn verðbólgunni, þá held ég, að ekki geti leikið á því nokkur vafi, að í meginatriðum hefur stjórnarstefnan, sem hér hefur ríkt undanfarandi áratug, mistekizt svo hrapallega, að slíks eru engin eða a. m. k. fá dæmi úr sögu okkar, síðan við fluttum valdið í eigin málum inn í landið. Það er mikið sagt með þessu, mér er það fyllilega ljóst, en ef menn hafa þessar staðreyndir, sem ég var að nefna, í huga og rifja svo upp fyrir sér, hvað hæstv. viðskmrh. lét sér um munn fara hér í gær, er hann sagði, „við höfum fylgt réttri efnahagsstefnu“, þá sjá menn, hversu lítt grundvallaður málflutningur það er af hálfu hæstv. ráðh., þegar hann heldur fram slíkum staðhæfingum sem þessari, enda er það svo sannast sagna, að hjá flestum, sem fylgzt hafa með þróun þessara mála hér á landi undanfarin ár, þá hljóta yfirlýsingar sem þær, sem hæstv. viðskmrh. viðhafði í gær og ég var hér að endurtaka, að verka sem hreinasta öfugmæli:

Ég held líka, að það sé hægt að renna verulega gildum stoðum undir þær staðhæfingar, að sjálf stjórnarstefnan eigi mikla sök, ef ekki meginorsök þess, hvernig hér hefur farið í sambandi við verðlagsþróunina í landinu. Það er staðreynd, að ríkið eða ríkissjóður hefur á undanförnum árum beitt stórtækari skattheimtu en þekkzt hefur áður. Það er rétt, að menn rifji það upp fyrir sér, að fjárlög spegla mjög vel þá stefnu, sem fylgt hefur verið af hálfu ríkissjóðs í þessum málum. Fjárlög 1960 sýndu niðurstöður upp á 1.5 milljarð, en samkv. fjárlagafrv. fyrir árið 1971, sem hefur verið dreift fyrir nokkrum vikum á borð hv. alþm., er gert ráð fyrir því, að niðurstöður fjárlaga þess árs muni nema um 10 milljörðum og 6 millj. kr., eða hafi að minnsta kosti sjöfaldazt frá því sem var á árinu 1960. Að sjálfsögðu er mér ljóst, að krónurnar eru ekki sambærilegar á næsta ári við þær, sem voru á árinu 1960. En þó er það öllum ljóst, að hér er um svo gífurlega mikla hækkun að ræða, í krónum, að hin óhóflega skattheimta, sem beitt hefur verið undanfarin ár, er öllum augljós.

Þá er það breyting í sjálfri skattastefnunni, sem ég tel, að eigi verulega mikla sök á þeirri verðlagsþróun innanlands, sem orðið hefur undanfarandi ár og ég hef vikið að. Það er sú breyting, sem verið hefur að gerast á undanförnum árum, að óbeinir skattar og þá fyrst og fremst söluskattur hafa verið stórlega hækkaðir, en að sama skapi hafa beinir skattar minnkað og að söluskattur hefur nú verið lagður í æ stærra mæli á nauðþurftir landsmanna, en eins og menn vita, þá var þeirri stefnu fylgt áður að reyna að hlífa nauðþurftum landsmanna við álagningu söluskatts.

Þriðja atriðið, sem er á valdi hæstv. ríkisstj. og hefur átt mjög mikinn þátt í þeirri verðlagsþróun, sem verið hefur í landinu, er sú stefna að gefa þeim, sem í þjónustustarfsemi starfa, mjög aukið álagningarfrelsi, sem hefur verið notað í mörgum tilfellum ákaflega gáleysislega.

Ég held því, að þótt þetta frv. verði samþykkt, þá sé ekki á nokkurn hátt brotið blað í baráttunni gegn verðbólgunni. Verstu afleiðingum stjórnarstefnunnar verður að vísu frestað um sinn og væntanlega fram yfir kosningar, en með því er alls ekki á nokkurn hátt ráðizt að rótum þess vanda, sem við er að stríða og ég hef verið að reyna að lýsa, hver er. Ég hef t. d. aldrei skilið það, af hverju er ekki alveg eins hægt að semja um verðlag bæði vöru og þjónustu til einhvers ákveðins tíma, eins og við höfum hér í landinu haft um margra ára skeið samkomulag, eða jafnvel lög, um það, að kaup skuli hækka eftir vissum reglum, hvernig eigi að ákveða fiskverð í landinu og hvernig eigi að verðlegg a landbúnaðarvörur og þar fram eftir götunum. Ég fæ ekki skilið, af hverju megi ekki t. d. semja um verðlag til þriggja mánaða í senn, svo að maður nefni einhvern tíma.

Þá er það skoðun mín, að verðlagseftirlitið, eins og það er framkvæmt núna, sé ekki í nógu góðu lagi. Ég held, að það eigi ekki að vera að fylgjast svo mjög með verðlagi einstakrar vöru í einstaka verzlunum, heldur ætti að taka ákveðna vöruflokka út úr og reyna almennt að fylgjast með þróun verðlagsins í þessum vöruflokkum. Ég held, að slíkt verðlagseftirlit yrði áhrifaríkara en það, sem nú er. Vel getur verið, að mér missjáist í því, en þó finnst mér, að sú reynsla, sem við höfum haft í sambandi við verðlagsþróunina hér innanlands undanfarin ár, hljóti að neyða okkur til þess að fara að skoða þessi mál í nýju ljósi, því að allar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum til þess að halda verðlagi niðri í landinu, hafa brugðizt að meira eða minna leyti, eins og þær tölur, sem ég nefndi hér áðan, bera vitni um.

Því hefur verið haldið fram, m. a. af mér, að það frv., sem hér er til meðferðar, gæti ekki leyst úr þeim grundvallarvandamálum, sem við eigum við að stríða. Mér sýnist, að allur undirbúningur að þessu frv. og efni þess reyndar líka, hljóti að gefa vísbendingu um, að reynslan af því verði ákaflega lík því, sem við reyndum árið 1966 og 1967. Það hefur komið fram hér í umr. að verðlag hefur hækkað frá því að verðstöðvuninni lauk 1967 og til þessa dags um 67 stig. Ég fæ ekki séð annað en að nákvæmlega sama muni gerast að öllu óbreyttu eftir 1. sept. m. k. og mánuðina þar á eftir.

Hér hefur verið talað um, hvort frv. þetta feli í sér árásir á samningsrétt verkalýðsfélaganna. Hæstv. viðskmrh. vildi neita því í þeirri ræðu, sem hann flutti í gær og var að reyna að finna því stað. Ég verð þó að segja, að þau rök, sem hann flutti fyrir því, að svo væri ekki með þessu frv., sannfærðu mig ekki. Ég verð að segja, að ég tek fullt eins mikið tillit til álits þeirra tveggja ræðumanna úr verkalýðshreyfingunni, sem talað hafa um þetta, og báðir hafa haldið því sama fram. Annar talaði í gær, hv. þm. Hannibal Valdimarsson, og hinn í dag, hv. þm. Eðvarð Sigurðsson. Ég tel það ótvírætt, að sú ákvörðun stjórnar Alþýðusambandsins að slíta þeim viðræðum, sem í gangi hafa verið undanfarið á milli ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins, undirstriki þá skoðun stjórnar A. S. Í., að með frv. þessu sé einmitt ráðizt á samningsrétt verkalýðsfélaganna. Ég hef líka, eftir því sem ég hef aðstöðu til að kynna mér, ákaflega ríka tilhneigingu til að trúa því, að bæði afkoma ríkissjóðs á næsta ári, eins og hún verður bezt séð nú, og eins afkoma atvinnuveganna í landinu, sem nú er að mörgu leyti óvenjulega góð, sé slík, að ekki hafi þurft þeirra vegna að grípa til þess óyndisúrræðis, sem í frv. felst, að ráðast á samningsrétt verkalýðsfélaganna. Það er staðreynd, að hækkun á verðmæti útflutningsins á fyrri helmingi þessa árs, muni nema um 40%, og sennilega verður hækkunin á síðari helmingi ársins nokkru meiri, eða allt að 49%, að því er sumir telja, þannig að líkur benda til þess, að aukning þjóðartekna á þessu ári verði einhvers staðar á milli 10% og 11% miðað við árið í fyrra.

Hæstv. forsrh. sagði í gær, að stjórnarandstæðingar hér á hv. Alþ. ættu að styðja þjóðþrifamál eins og þetta, eins og gerzt hefði með öðrum þjóðum. Sennilega hefur hann átt við það, sem gerðist í Danmörku og Svíþjóð nú fyrir nokkru, en þar hafa verið samþykkt lög um verðstöðvun. En á lagasetningu þar og hér er einn mjög veigamikill munur, eftir því sem ég bezt veit. Það munu ekki finnast í verðstöðvunarlögunum dönsku eða sænsku nein ákvæði, er hrófla við samningsbundnu kaupi launþega í þessum löndum. En eins og ég hef áður vikið að, þá eru ákvæði um þetta veigamikla atriði í því frv., sem hér er verið að ræða, og raunar standa þær deilur, sem um þetta hafa orðið á hv. Alþ. fyrst og fremst um þetta atriði, því að ég þori að fullyrða að engum hv. þm . dettur í rauninni í hug að vera á móti aðgerðum, sem í reyndinni væru í alvöru lagaðar til þess að stöðva þá verðbólguskriðu, sem hér hefur ætt fram undanfarin ár. Ég held, að enginn hugsi þannig.

Það kom einnig fram í umr. hér í gær hjá hæstv. viðskmrh., og hann lagði á það mjög mikla áherzlu, að þrátt fyrir samþykkt þessa frv., þá yrði sá kaupmáttur, sem fékkst í samningunum frá 19. júní s. l. ekki skertur að neinu leyti. Hann sagði að 19. júní hefði verið samið um 21% kauphækkun, sem í reynd hefði þýtt 17% aukningu kaupmáttar launa.

Og hann margsagði, að þetta hefði verið réttlát kauphækkun til launþega, sem þjóðfélagið hefði getað borið.

Þær reikningskúnstir, sem hæstv. ráðh. notaði í gær til þess að rökstyðja, að kaupmáttur þessara kauphækkana væri í engu skertur með frv., voru ekki mjög sannfærandi að mínu viti. Að sumu leyti minntu þær á reikningskúnstir Sölva Helgasonar. Við höfum heyrt á hv. þingi og raunar annars staðar líka álit forystumanna launþegasamtakanna í landinu um þessa staðhæfingu ráðh. Báðir þeir þm., sem ég minntist á hér áðan, hafa mótmælt þessu sem röngu, og ég fæ ekki skilið þau rök, sem mér skildist, að lægju helzt á bak við þessa staðhæfingu hæstv. ráðh., er hann sagði, að vegna þess að kauphækkun, sem yrði vegna vísitölunnar, kæmi alltaf á eftir verðlagshækkunum, að þá yrði frestun á því, að 2 stig vísitölunnar kæmu fram í heilt ár, í stað þess að koma venjulega á þriggja mánaða fresti, mikil réttarbót.

Herra forseti. Ég skal nú ekki orðlengja þetta öllu meira, en ég vil undirstrika, að með þessu frv. er að mínu viti verið fyrst og fremst að undirbúa þá kosningabaráttu, sem háð verður á næsta ári. Það á að gera það á svipaðan hátt og var gert í kosningunum 1967, sem gaf nokkuð góða raun fyrir stjórnarflokkana. Ég held, að það sé óyggjandi og raunar óumdeilanlegt, að með frv. er ekki höggvið að rótum þeirra meinsemda, sem orsakað hafa verðbólguna í landinu. Hún mun halda áfram með auknum krafti, þegar verðstöðvunartímabilinu lýkur, og gera ýmis þau vandamál, sem fyrir eru, jafnvel enn erfiðari viðureignar en þau eru þó nú. Það hlýtur því að vera ályktun mín miðað við það, sem ég hef áður sagt, að fyrst hv. stjórnarflokkar eða forystumenn þeirra eru ekki til viðtals um að breyta sjálfri stjórnarstefnunni, sem er meginorsök þeirra ófara, sem hér hafa orðið, þá sé ekki nema eitt ráð til og það sé að fella þann meiri hl. stjórnarflokkanna í næstu þingkosningum og freista þess á þann hátt að fá fram þær breytingar á stjórn landsmála, er tryggi betri og hagkvæmari lífskjör í landinu en þessi stjórnarstefna hefur verið fær um að gera.