04.02.1971
Efri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins til þess að gefa hér örlitlar upplýsingar um afstöðu okkar, hv. 3. þm. Vestf. og mín, til þessa máls. Það er rétt, sem hv. frsm. fjhn. var að segja hér áðan, að undir nál., sem gefið var út 17. des. eða rétt fyrir jólin, skrifuðum við, en með fyrirvara. Þetta mál var afgreitt í flaustri. Hæstv. fjmrh. sagði í framsöguræðunni, að það mundi ekki verða afgreitt, ef ekki yrði samstaða um það hér í d. Margir tóku það svo, þegar við 1. umr. kom fram ákveðin rödd gegn frv., og töldu, að þá mundi það þar með vera úr sögunni að sinni.

En á síðustu annadögum þingsins var þó þetta frv. tekið fyrir í fjhn., og við, ég og hv. 3. þm. Vestf., tókum þátt í því að laga tillgr. að mínum dómi, því að eins og hún var upphaflega, var ómögulegt, alveg fráleitt, að samþykkja hana, vegna þess að þar var það lagt á vald stofnunar úti í bæ, efnahagsstofnunar ríkisins - og fjmrh. að vísu, að ákveða, hver innheimtan skyldi vera, og engin takmörk á því, hver hún gæti orðið, þannig að allt upp í 100% var mögulegt eftir frv. Það fannst okkur fjarstæða, að ég held, flestum í n. — ekki bara okkur framsóknarmönnunum þar, heldur öllum, og við stóðum því að því að gera brtt., þar sem prósentan var lækkuð niður í 57% að hámarki. Nú hefur hv. meiri hl. enn á ný breytt tillgr. að sumu leyti til bóta, en að öðru leyti til hins verra, þar sem prósentan er hækkuð úr 57% í 60%, en aftur á móti er heimildin nú miðuð aðeins við yfirstandandi ár. Nú skal ég engu spá um það, hvort við það verður látið sitja í framtíðinni, að það verði aðeins á þessu ári, 1971, sem fyrirframinnheimtan fær að nema 60%, en miðað við reynslu af ýmsum ákvæðum, sem látin eru gilda til ársins, þá kæmi mönnum það ekkert á óvart, þó að það kæmu framlengingarfrv., eins og í svo mörgum tilfellum á sér stað. Ég man ekki t. d., hvað það eru mörg ár síðan ýmis gjöld með viðauka . . . (Fjmrh.: Mjög langt síðan.) Það er mjög langt síðan, eins og hæstv. fjmrh. segir, og löngu fyrir hans tíð, sem byrjað var á því að framlengja þau frá ári til árs, og þannig er þetta í mörgum tilfellum. Ég veit það ekki, en gæti það ekki orðið í þessu tilfelli þá líka?

Það er vissulega hárrétt hjá hv. 10. þm. Reykv., að það er ekki líklegt, að peningarnir vaxi að verðgildi á næstu mánuðum. Það er ákaflega hætt við því, að þegar 1. sept. rennur upp yfir okkur alla, þá verði það a. m. k. nokkuð gefið, að peningar manna hafa ekki vaxið að verðgildi. Og það er sennilega ráðlegt fyrir fólk að borga opinber gjöld. Ég er ekkert frá því, að menn ættu að gera það og taka þessi varnaðarorð hv. þm. til greina. En ég sé ekki beinlínis þörf á því að lögskylda fólk til þess að greiða þessi gjöld frekar en orðið er. Það er alveg rétt, að sveitarfélögin hafa talsverðra hagsmuna að gæta með að fá þetta. Ég skal ekkert gera lítið úr því. Ég hygg t. d., að fyrir Reykjavíkurborg sé hér um 80 millj. kr. fjármagn að tefla. Fyrir fram greidd útsvör eru miðuð við útsvör fyrra árs. Mig minnir, að útsvör Reykvíkinga 1970 hafi verið röskar 800 millj. kr. Fyrirframinnheimtan á þessu ári ætti þá eftir gömlu reglunni að vera 400 millj. kr., en getur farið upp í 480 millj. kr., ef þessi regla verður samþykkt. Það er nokkurt fé 80 millj. kr., ég geri ekki lítið úr því. En annað eins hefur nú sézt eins og það að útvega í fjóra mánuði 80 millj. kr. að láni, þ. e. 20 millj. kr. á mánuði þá fjóra mánuði, sem eftir eru af tímabilinu, ef fjárhagur borgarinnar er þá þannig, að þess þurfi. En það er enn þá rétt, sem ég benti á hér við 1. umr. þessa máls, að aðalútgjaldatímabil sveitarfélaganna er tæpast komið, þegar þessari fyrirframgreiðslu á að verða lokið a. m. k. er það ekki komið að svo stöddu.

Ég skal ekki vera að þreyta hv. þdm. á ræðuhöldum um þetta mál. En ég vil bara lýsa yfir því fyrir mína hönd, að ég er nú við nánari athugun, eftir að raunverulegt tóm hefur gefizt til þess að hugleiða þetta mál, mótfallinn því, að þetta frv. nái fram að ganga og mun greiða atkv. gegn því.