10.11.1970
Neðri deild: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

101. mál, atvinnuöryggi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður. Aðalástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs aftur, voru þau furðulegu ummæli hæstv. viðskmrh. í gærkvöldi, að efnahagsmálaaðgerðirnar sumarið 1956 hjá vinstri stjórninni væru hliðstæðar við þessi ósköp, sem við erum hér að fjalla um. En það hefur verið vikið að þessum málum af tveimur ræðumönnum hér í dag og mjög rækilega af hv. seinasta ræðumanni, og skal ég þess vegna stytta mál mitt um þessar fjarstæður, þessa blekkingu, sem hæstv. ráðh. fór með, því að þar talaði hann gegn betri vitund, þar sem hann var þátttakandi í þeim aðgerðum sumarið 1956 sjálfur. Hann fór með blekkingar og rangt mál, og því miður verð ég að fullyrða, að hann gerði það vísvitandi. Það er kórónan á slíka framkomu. (Gripið fram í.) Kannske hefur hæstv. ráðh. verið að halda því fram, að það væru 2% kjarabætur, eins og hann hélt fram um þessar aðgerðir, kannske hann hafi meint það, og þá hefur þetta allt saman verið lof um aðgerðirnar 1956. Ekki gat ég nú samt skilið orð hans þannig. Málflutningur hans var sannarlega á þá lund, að það hefðu verið tekin af launþegunum 1956 3% án bóta, en nú væri verið að færa þeim á silfurdiski a. m. k. 2% sem kjarabót. Svona stillti hann því upp. Og ekki dró það úr rangfærslunum eða ósannindunum varðandi þetta atriði.

Það er búið að gera það mál nú ljóst, að sumarið 1956 voru þessi mál rædd við verkalýðshreyfinguna rækilega og ýtarlega, ekki bara leitað til stjórnar Alþýðusambands Íslands, heldur eins og hér var upplýst áðan, til fjöldamargra forustumanna verkalýðsfélaga og annarra samtaka eins og fulltrúaráðsins í Reykjavík, og að fengnum meðmælum þeirra með því, að ríkisstj. borgaði niður hina fyrirsjáanlegu hækkun á landbúnaðarvörum með haustinu, þá kæmi auðvitað afleiðingin af því ekki fram í hækkuðu kaupi. Það var búið að nema í burt orsökina, og þá sögðu verkalýðsfélögin já við því, að þau sættu sig við, að 6 stiga kauphækkunin, sem þau áttu að fá, ef engar aðgerðir voru gerðar, kæmi ekki til framkvæmda. Það er aðeins einn liður í þessu frv., sem fer líkar brautir eins og frv. frá 1956. Það er niðurfelling á vísitölustigum, sem eru borguð niður. En það er ekki meginatriði þessa máls, heldur árásin á nýgerða samninga verkalýðshreyfingarinnar, sem felst í þessu án nokkurs samþykkis þeirra. Ef það væri sannleiksneisti í þessu hjali hæstv. ráðh. um það, að það væri verið að bjóða verkalýðshreyfingunni kjarabætur með þessu, þá hefði hann ekki átt að vera feiminn við það í sumar að bjóða henni þessa kjarabót, og ólíklegt þykir mér, að verkalýðshreyfingin hefði neitað því að fá 2% í viðbót við kjörin, sem samið var um í vor.

Ekki meira um þetta, en auðvitað sér hver heilvita maður það, að það væri fjarstæða að geta ímyndað sér það, að frv. til l., sem borið er fram vegna erfiðleika í efnahagsmálum til þess að reisa skorður við verðbólguflóði og dýrtíð, geti jafnframt verið kjarabótafrv. Hverjum getur dottið það í hug? Það er svo þykkt smurt hjá hæstv. ráðh., að það er gjörsamlega útilokað, að nokkur maður sé til svo fávís, að hann geti lagt trúnað á svona ýkjur, svona villukenningu. Það væri ekki frv. um sársaukafullar aðgerðir í efnahagsmálum, ef það væri hægt í leiðinni að bjóða einum eða neinum kjarabætur, enda er það svo, að hæstv. forsrh., sem skýrði þetta mál í upphafi umr., lét sér ekki til hugar koma að fara með slíkar gyllingar, þótt hann að vísu í öllum sínum málflutningi drægi, eins mikið og hann sá fært, úr þeim byrðum, sem á fólk væru lagðar með þessu frv., en að hann færi að halda því fram, að það væri verið að færa heilum stéttum kjarabætur, það datt honum ekki til hugar að segja. Hann sagði hins vegar, — ég tók það orðrétt eftir Morgunblaðinu, ég vona að það hafi prentað rétt hans ræðu, — með leyfi hæstv. forseta:

„Á hinn bóginn má til sanns vegar færa, að með ráðstöfunum sem þessum sé verið að lækka tekjur einstakra aðila og ráðstöfun þeirra tekna til neyzlu og fjárfestingar frá því, sem þessir sömu aðilar höfðu gert sér í hugarlund.“

Þetta er hans játning um frv. Svo kemur bara hæstv. viðskmrh. og heldur því fram, að þetta sé nú eitthvað annað en það, að búið sé að raska vísitölugrundvelli gerðra samninga, skerða hana á nokkurn hátt. Það sé búið að auka kaupmátt launanna hjá verkafólkinu, ekki aðeins í bili, heldur og varanlega, meira núna heldur en á meðan lögin standi, því að svo verði þeim skilað 2% í viðbót, þegar þessu verðstöðvunartímabili ljúki, þá sé það bara tekið úr pokanum, líklega með vöxtum og vaxtavöxtum og með auknum kaupmætti. Nei, það fer oftast nær þannig, að þegar menn halda sér ekki nákvæmlega á brautum sannleikans, og fara síðan í vitnastúkuna og bera vitni, þá ber ljúgvitnum ekki saman, og það hefur farið þannig hér. Það fer ekkert á milli mála, að verðstöðvun er nafnið tómt og argasta blekking, nema tekið sé á meinsemdinni, sjálfri verðbólgunni, en hér er aðeins um það að ræða að fresta því að verðhækkanir komi fram, og hér er við ákveðinn tíma miðað. Það er ákveðið að fresta því, að verðhækkanirnar komi fram fyrr en eftir kosningar.

Það var ekki skýrt svar, sem hæstv. forsrh. gaf við því, hvað mundi gerast, eftir að verðstöðvunartímabilinu lýkur þann 31. ágúst 1971. Hann sagði frá orðaskiptum sínum og danska forsrh., og þegar sá danski var spurður, þá gaf hann heldur ekkert svar, en bara brosti framan í íslenzka forsrh., þeir skildust með bros á vörunum báðir tveir, vafalaust tvírætt bros. Þessu sagði hæstv. íslenzki forsrh. okkur frá og játaði þar með, að hann hefði ekki fengið svar við því, hvernig þetta yrði í Danmörku að loknu verðstöðvunartímabili, og eins væri líkt um það að segja hér. En þann 31. ágúst 1971 og á dögum og vikum þar á eftir, þá kemur alveg ótvírætt í ljós, hvernig skila sér þá hin geymdu vísitölustig launþeganna, eitthvað 350 millj. króna verðmæti. Koma þau þá með vöxtum og vaxtavöxtum og auknum kaupmætti? Þá kemur það í ljós, hvort verðbólguþróunin hefur verið stöðvuð varanlega í raun með þessu frv. eða aðeins frestað. Það er þetta, sem gerist, það getum við alveg fullyrt, eftir 31. ágúst 1971. Það kemur þá í ljós, hvort það hefur verið skorið til meinsins, hvort það hefur verið ráðizt að rótum verðbólguþróunarinnar eða öllum vandanum bægt frá sér, breitt yfir hann og honum frestað, verðhækkunum tímabilsins safnað saman í poka eða skjóðu og síðan hellt úr þessari skjóðu yfir landslýðinn á árinu 1971. Það er þetta, sem kemur í ljós þá, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að það verður hið síðara, og þá þætti mér líklegt, að það yrði eitthvað annað en tvíræð bros, sem forsrh. vor skiptist á við forsrh. nágrannalandanna. (Gripið fram í: Hver verður forsrh. þá?) Hver, sem hann verður, þegar verið væri að velta þessum afleiðingum fyrir sér.

Áður hefur verið bent á, að ákaflega litlir tilburðir hafi verið hafðir uppi hjá stjórnvöldum 1966 og við hefðum horfzt í augu við afleiðingarnar 1967, og hverjar voru þær afleiðingar? Hvað kom eftir að verðstöðvunartímabilinu 1967 lauk? Það voru þrot hjá atvinnulífinu, það var nýtt dýrtíðarflóð, upp úr því atvinnuleysi, og svo komu aðgerðirnar, tvær gengislækkanir. Ekki ein gengislækkun, heldur tvær á 11 mánuðum. Ég vildi vona, að eitthvað yrðu nú afleiðingarnar af þessu tiltæki mildari, en þær gætu verið nógu sárar og viðkvæmar samt.