02.12.1970
Neðri deild: 26. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

155. mál, Útflutningsmiðstöð iðnaðarins

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um Útflutningsmiðstöð iðnaðarins hefur átt nokkurn aðdraganda og þarf ég ekki nema að litlu leyti að árétta það, sem gerð er grein fyrir um það atriði í aths. við lagafrv. Iðnaðurinn hefur í æ ríkara mæli verið að hasla sér völl á útflutningssviðinu á undanförnum árum eða stefnt að því, og iðnþróunarráð skipaði 1968 n., útflutningsnefnd, til að huga að möguleikum til aukins útflutnings og í framhaldi af niðurstöðum þeirrar n. voru svo skipaðar tvær n. af hálfu rn. til þess að vinna að auknum útflutningi úr íslenzkum hráefnum, skinnum og ull og öðru slíku og einnig í sambandi eða í tengslum við sjávarútveginn. Allt var þetta hugsað sem byrjun og bráðabirgðaráðstafanir, en á sama tíma hafði einnig Félag ísl. iðnrekenda frumkvæði um það að setja upp útflutningsskrifstofu, sem unnið hefur að sýningum á íslenzkum iðnvarningi erlendis í samvinnu við ýmsa aðila og að því að greiða fyrir auknum útflutningi. Þegar sú skrifstofa var sett á laggirnar 1968, hlaut hún nokkurn styrk af opinberu fé eins og kunnugt er, og er ætlað fé til hennar á þessu ári um 3 millj. kr., opinbert fé á fjárl., og gert ráð fyrir í fjárl. fyrir 1971, að hún fái nokkurn styrk, en á því ári mundi væntanlega geta komið til þess, að þessi útflutningsmiðstöð yrði sett á laggirnar, þá mundu þessar tvær stofnanir renna saman. Það var sameiginleg skoðun ríkisstj. og fulltrúa iðnrekstursins, að það væri eðlilegt í upphafi að veita nokkurn opinberan stuðning við slíka starfsemi, en hins vegar bæri að stefna að því, að hún gæti staðið undir sér sjálf, bæði af útflutningi iðnaðarvarnings, þegar hann færi að eflast og fyrir þá þjónustu, sem slík stofnun léti aðilum í té. Það er gerð grein fyrir því í grg., að frá því í marzmánuði s. l. hafi verið unnið að undirbúningi þessa frv. og það var með samvinnu við Félag ísl. iðnrekenda og þá deild Sambandsins, sem hefur með iðnvarning og sölu að gera á því sviði, og svo í samvinnu við þau rn., sem hér koma helzt til greina, en það er iðnrn., viðskrn. og utanrrn.

Það er gert ráð fyrir, að hér sé um sjálfstæða stofnun að ræða og að henni standi þessir aðilar, sem ég nú hef vikið að, ásamt með tveimur rn., viðskrn. og iðnrn. Í 3. gr. frv. er nánar gerð grein fyrir hlutverki slíkrar útflutningsmiðstöðvar, sem er fyrst og fremst að efla útflutning íslenzks iðnaðarvarnings og veita honum fyrirgreiðslu með því m. a., sem þar segir og er talið upp í 6 töluliðum, sem ég skal ekki rekja nú. Það má segja, að við þátttöku okkar í Fríverzlunarbandalaginu kunni að skapast tímamót á því sviði að auka útflutning iðnvarnings. Það er að vísu rétt og ég hef orðið var við það, að mönnum finnst, að það hafi ekki orðið nógu mikil þáttaskil eða stökkbreytingar á þessu sviði, en allt tekur þetta sinn tíma, t. d. að vinna erlenda markaði, en á mörgum sviðum hefur verið að þessu unnið að undanförnu, en ég held, að engum blöðum sé um það að fletta, að með stofnun slíkrar útflutningsmiðstöðvar geti skilað verulega áleiðis í þessu efni til aukins styrks fyrir þessa atvinnugrein, sem okkur er mjög þýðingarmikið að geta eflt og hefur verið á ýmsan hátt efld, eins og t. d. með löggjöf frá s. l. Alþ., bæði stofnun iðnþróunarsjóðsins og laganna um útflutningssjóð iðnaðarins og eins samkeppnislán o. fl., sem hv. þm. er gerkunnugt um. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.