02.12.1970
Neðri deild: 26. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

138. mál, iðnfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. eða shlj. frv. þessu var flutt á síðasta þingi af hv. menntmn. þessarar hv. d. að beiðni menntmrn., en þá vannst ekki tími til þess að afgreiða málið. Nú er málið flutt öðru sinni og í þetta skipti sem stjfrv. En málavextir eru þessir:

Með gildandi lögum um iðnfræðslu frá 1966 var m. a. stefnt að því að fækka iðnskólum verulega frá því, sem nú á sér stað eða fækka iðnskólum úr 22 í 10 skóla. Í þessu skyni gera lögin ráð fyrir því, að landið skiptist í 8 skólaumdæmi, sem í meginatriðum falla saman við núverandi kjördæmi landsins, og er gert ráð fyrir einum skóla í hverju umdæmi nema í Suðurlandsumdæmi og Reykjanesumdæmi, þar sem lögin gera ráð fyrir tveimur skólum í hvoru umdæmi. Í lögunum er svo kveðið á, að sveitar- og sýslusjóðir hvers umdæmis greiði sameiginlega stofn- og rekstrarkostnað viðkomandi skóla að hálfu á móti ríkissjóði. Frá því að lögin tóku gildi á árinu 1966 hafa verið gerðar af hálfu menntmrn. ítrekaðar tilraunir til þess að koma á nauðsynlegu samstarfi milli sveitarfélaga um stofnun og rekstur skóla í samræmi við lögin og hafa þessar tilraunir einkum beinzt, eins og eðlilegt er, að þeim skólaumdæmum, þar sem þörfin er ríkust á að koma á fót nýjum skólum, þ. e. a. s. í Reykjanesumdæmi, Austurlandsumdæmi og Norðurlandsumdæmi vestra. En því miður hefur ekki tekizt að koma á því samstarfi milli sveitarfélaga í þessum skólaumdæmum, sem lögin gera ráð fyrir. Þau viðhorf sveitarstjórna, sem hafa valdið því, að þessar tilraunir hafa ekki borið tilætlaðan árangur, eru einkum þrenns konar. Í fyrsta lagi hafa sveitarstjórnir, sem starfrækt hafa iðnskóla á grundvelli áður gildandi laga, reynzt ófúsar til þess að leggja þá skóla niður og taka þátt í stofnun og rekstri í öðru sveitarfélagi, þótt innan sama kjördæmis sé. Í öðru lagi hefur komið í ljós, að innan hinna ýmsu skólaumdæma eru skiptar skoðanir um það, hvar hentugast sé að hafa iðnskólasetur og hafa deilur um þetta komið í veg fyrir nauðsynlegt samstarf um skólana. Og í þriðja lagi hefur þeirra sjónarmiða gætt í ýmsum sveitarstjórnum, sem ekki hafa áður starfrækt skóla af þessu tagi, að þær telja nemendum úr sínu byggðarlagi henta betur að sækja annan skóla en þann, sem staðsettur er í skólaumdæminu, eða vilja a. m. k. hafa valfrelsi í þessum efnum.

Þessi þrjú atriði, sem ég nú hef rakið lauslega, eru meginorsök þess, að ekki hefur tekizt að koma á því samstarfi, sem hin nýju iðnskólalög gera ráð fyrir. Við þetta má raunar bæta því, að ýmsar sveitarstjórnir hafa ekki treyst sér til þess að hefjast handa um framkvæmdir — þó að almennt sé viðurkennt, að þær séu nauðsynlegar — vegna óvissu um hlutdeild annarra sveitarfélaga í kjördæminu eða skólaumdæminu í stofn- og rekstrarkostnaði skólanna. Komið hefur greinilega fram, að hér er um hnút að ræða, sem með einhverju móti verður að höggva á. Þess vegna var það, að menntmrn. fól þeirri n., sem hafði samið iðnskólafrv. upphaflega, fól henni 4. okt. 1969 að athuga, hvort ástæða væri til breytinga á lögunum til þess að úr þessum hnút gæti raknað. Og n. samdi þetta frv. á s. l. vori, sem menntmrn. síðan þegar í stað sendi menntmn. þingsins. N. var einróma þeirrar skoðunar, að það ætti ekki að breyta því grundvallaratriði nýju iðnfræðslulaganna, að iðnskólar skuli vera 10 og ekki fleiri og að ekki heldur skyldi breyta því grundvallaratriði laganna, að einn skóli skyldi vera í hverju umdæmi nema tveir á Suðurlandi og í Reykjanesumdæmi. En til þess að greiða úr þeim hnút, sem hér hefur bundizt, þá stingur n. upp á því, að eitt eða fleiri sveitarfélög geti stofnað og rekið iðnfræðsluskóla í samræmi við ákvæði laganna á þeim stöðum, þar sem skólasetur hefur verið ákveðið, þótt ekki náist samkomulag allra sveitarfélaga, sem aðild ættu að eiga að skólunum. Hins vegar leggur n. til, að lögtekið verði ákvæði um, að þær sveitarstjórnir, sem stofna og reka skóla, þó öll sveitarfélög standi ekki að skólanum, fái greiddan þann kostnað, sem þær verða fyrir vegna skólasóknar nemenda úr sveitarfélögum, sem ekki kjósa að eiga aðild að skólanum. Og er þetta aðalnýmæli þessa frv. N. taldi, að þessu marki mætti ná með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., að sveitarstjórnir, sem ekki standa að iðnfræðsluskólum, greiði námsvistargjald vegna þeirra nemenda úr umdæmi sínu, sem þessa skóla sækja, og verði gjaldið við það miðað, að þau sveitarfélög, sem starfrækja skóla, fái greiddan rekstrarkostnað og ekki aðeins rekstrarkostnað vegna nemenda úr öðrum sveitarfélögum, heldur einnig eðlilega hlutdeild í stofnkostnaði þeim, sem lagður er fram af öðrum en ríkinu. Þetta er meginefni þessa frv.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.