26.11.1970
Efri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

119. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. nr. 185, hefur heilbr.- og félmn. athugað frv. um Innheimtustofnun sveitarfélaga og leggur til samhljóða, að frv. verði samþ. óbreytt. Í þessu frv. er lagt til, að komið verði á fót nýrri innheimtustofnun í samráði við sveitarfélögin til innheimtu á meðlögum hjá barnsfeðrum, en sú innheimta hefur verið mikið vandamál hjá Tryggingastofnun ríkisins og fjallar þetta frv. um ákveðið form í því efni. Í 5. gr. er þessari stofnun veitt mikið vald til að hafa möguleika á þessum innheimtum og er það talið upp í 5 þáttum, sem ég vona, að hv. þm. hafi kynnt sér. Nátengd þessu eru tvö önnur frv., sem væntanlega verða tekin hér fyrir á eftir, og ég tel ekki nauðsyn á að hafa hér langa framsögu. Það kom fram í framsögu hæstv. félmrh., að þessu frv. fylgja tvö önnur, ef frv. til l. um Innheimtustofnun sveitarfélaga nær fram að ganga.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til 3. umr.