26.11.1970
Efri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

119. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki mörgum orðum að bæta við þær upplýsingar, sem komið hafa fram við það frv., sem hér liggur fyrir til umr. Erindi mitt er fyrst og fremst það, að ég fagna því, að þetta frv. er fram komið og náðst hefur um það sú samstaða, sem lýsir sér í afstöðu n. til þess. Ég fagna þessu sérstaklega fyrir þá sök, að ég var einn þeirra alþm., sem stóðu að flutningi þeirrar þáltill., sem leiddi til þess, að þetta frv. er komið fram. Eins og tekið hefur verið fram, felur þetta frv. í sér gagngerðar breytingar á lagaákvæðum um meðlagsgreiðslur, þó aðeins á þann veg, að það snertir ekki eða skerðir á neinn hátt þann rétt, sem barnsmæður hafa átt til meðlagsgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins heldur er þetta einungis til þess ætlað að herða á innheimtu hjá barnsfeðrunum. Þegar litið er til þessara mála yfir lengri tíma, verður það hverjum manni augljóst, að til þess þurfti að koma, því að sú innheimta hefur verið með eindæmum erfið. Má á það benda, að á árinu 1969, eins og fram kemur í grg. með frv., eru þessar meðlagsgreiðslur, sem Tryggingastofnunin hefur greitt til mæðranna rúmlega 100 millj. kr., en af þeirri upphæð hefur sveitarstjórnunum í sumum sveitarfélögum ekki tekizt að innheimta nema um 10% og jafnvel minna af því, sem þeim bar að innheimta, og þar sem bezt hefur látið, hefur þetta legið í kringum 60%. Nú er það að sjálfsögðu ekki fyrirséð, hvernig sú innheimta gengur, sem hér er ætlað að koma af stað. En þó má fullyrða, að það eru sterkar líkur fyrir því, að innheimtan verði allt önnur, þegar hún er á einni hendi fyrir öll sveitarfélögin, því að þessum málum hefur verið þannig háttað, að sveitarfélag, sem barnsfaðir hefur átt lögheimili í, þegar meðlagsúrskurður er felldur, á að krefja hann um meðlagið allan þann tíma, sem meðlagsgreiðslan varir, hvort sem hann á þar lögheimili eða ekki. Það má því ætla, að það verði á allan hátt hægara fyrir eina stofnun að fylgjast með hreyfingum þessara manna og gera kröfur um greiðslurnar frá þeim heldur en einstök sveitarfélög, sem verða að eltast við menn landshorna á milli, víða við mjög erfiðar aðstæður í þessum efnum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Ég vildi einungis láta það koma fram, að ég fyrir mitt leyti fagna því mjög, að þetta frv. er hér fram komið, og ég hygg, að sveitarstjórnir almennt í landinu fagni því einnig. Svo ákveðin samstaða hefur verið með þeim um þetta mál.