13.11.1970
Neðri deild: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

101. mál, atvinnuöryggi

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. hefur haldið hér býsna athyglisverða ræðu. Það leynir sér auðvitað ekki, að hann er farinn að finna til einhvers samvizkubits. Það hefur einhver hróflað eitthvað við honum. Hann kemur nú hér og heldur því fram, að í umr. um þetta mál hafi því verið haldið hér fram af andstæðingum málsins, svona í hita umr. eins og hann sagði, að með samþykkt þessa frv. væri verið að brjóta stjskr. Og síðan var hann með ýmsa tilburði til þess að sanna það, að hér væri ekki um það að ræða, að það væri stefnt að því að brjóta stjskr. Ég held, að hæstv. viðskmrh. hafi fylgzt eitthvað afskaplega illa með þeim umr., sem hér hafa farið fram. Ég tel mig hafa fylgzt með umr. nokkurn veginn óslitið. Ég hef ekki heyrt á þetta minnzt hér í umr., að það væri sérstaklega verið að tala um það, að þetta frv. miðaði að því að brjóta stjskr. Það, sem hér hefur verið sagt, er það, sem hæstv. viðskmrh. varð að viðurkenna hér í sinni ræðu, að þetta frv. stefnir að því að breyta gerðum kjarasamningum á milli verkafólks í landinu og vinnuveitenda, að þetta frv. stefnir að því að raska grundvelli kjarasamninga, sem gerðir hafa verið. Þetta viðurkennir hæstv. ráðh., þetta er inntak frv.

Það er að okkar dómi býsna alvarlegur hlutur, þegar lagalega viðurkenndur réttur er tekinn af aðilum. Kjarasamningarnir, sem gerðir voru á s. l. sumri, voru gerðir samkv. lögum og reglum, og þar var um gildandi samninga að ræða. Auðvitað hefur okkur, sem deilum á þetta frv., ekki dottið í hug að halda því fram, að Alþ. geti ekki sett lög. Við vitum það, að það hafa margsinnis verið sett lög, m. a. sem hæstv. viðskmrh. hefur stutt hér áður, um það að afnema vísitöluuppbætur á laun, ekki taka aðeins 2 stig, heldur afnema þær með öllu. Það hafa líka verið sett hér lög um það að færa niður kaup, sem samið hefur verið um í kaupgjaldssamningum. Hann hefði meira að segja getað gengið svo langt hér að samþykkja lög um það, að kaupið skyldi bara fært niður í núll með öllu. Það þarf að setja lög um þetta. En það er eins og hæstv. viðskmrh. hafi enga tilfinningu fyrir því, hvaða siðareglur eiga að gilda, varðandi t. d. samningsfrelsi, sem er yfirlýst í þjóðfélaginu. Það er eins og hann telji það ekkert athugavert, þótt almennum launa- og kjarasamningum, sem gerðir hafa verið samkv. lögum milli aðila, sé gerbreytt, nokkru eftir að þeir hafa verið gerðir, með lögum frá Alþ. Það er eins og hæstv. viðskmrh. sé það nóg að geta sagt: „Við, sem höfum hér meiri hl. á Alþ., höfum leyfi til þess að setja lög, um hvað sem er, svo lengi sem það brýtur ekki beinlínis stjskr.

Svo finnur hæstv. ráðh. sér það til í þessum röksemdafærslum að benda á það, að Alþ. hafi t. d. leyfi til þess að breyta launaskatti. Skyldu það nú vera sérstök rök í þessu, að Alþ. hafi leyfi til þess að breyta skattlagningu eða að Alþ. hafi tvímælalaust heimild til þess að banna tilteknar framkvæmdir í landinu? Engin deila hefur staðið um þessi atriði í sambandi við þetta mál. Það, sem deilan hefur snúizt um, er það, hvort það fái staðizt í reynd að raska þannig löglega gerðum kjarasamningum, að það, sem um er samið, fái ekki að gilda í reynd. Það er auðvitað enginn vafi á því, að hinn frjálsi samningsréttur er brotinn á þessum aðilum, sem hér er um að ræða. Það er ákaflega hætt við því, sbr. reynsluna, að það geti haft sín áhrif úti í þjóðfélaginu á eftir, að brjóta þennan frjálsa samningarétt. Spurningin er í rauninni um það, hvort menn vilja virða lög og löglega gerða samninga, eða hvort það á að grípa inn í og breyta löglega gerðum samningum einhliða öðrum aðilanum í óhag.

Ég held, að hæstv. viðskmrh. muni ekki geta huggað sig lengi við þá kenningu, að samþykktir félagasamtaka úti í bæ hafi hér ekkert að segja og gildi hér ekkert. Ég er ósköp hræddur um það, að hann eigi eftir að reka sig á það, að það eru einmitt félagasamtökin, þ. e. fólkið í landinu, sem ráða, þegar til á að taka í tilfellum eins og þessu. Hæstv. ráðh. sagði, að í þessum efnum væri það sérstaklega hættulegt, ef alls konar fundir úti í bæ og félagasamtök ætluðu sér að gera samþykktir sem hefðu áhrif á störf Alþ., jafnvel til þess að Alþ. breytti fyrirætlunum sínum. Hvað er að heyra, telur þessi hæstv. ráðh. sig ekki einmitt boðbera lýðræðis og lýðræðislegra vinnubragða? Skyldi nú hæstv. ráðh. kannske vilja taka þetta til baka? Vill þá hæstv. ráðh. kannske endurtaka það? Ég bíð og hlusta á, hvað hann hefur að segja um þetta. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðh. sagði meira en þetta. Hann sagði, að það væri sérstaklega hættulegt. Það gefst kannske tími til þess að lesa þetta upp, því að nú er þetta allt saman sett á band, og því má lesa þetta nákvæmlega upp. Hann sagði meira en þetta, að í því lægi sérstök og mikil hætta, ef slíkar samþykktir ættu að fara að hafa áhrif á gerðir Alþ., jafnvel þannig að Alþ. þyrfti að breyta fyrirætlunum sínum. En ég lít þannig á málið, að þetta séu aðeins venjuleg lýðræðisleg vinnubrögð. Fólkið í landinu og félagasamtökin eiga að láta til sín heyra. Þau eiga að láta Alþ. vita um sitt álit, sínar skoðanir og hafa sín áhrif eðlilega á Alþ. Hins vegar verða vitanlega alþm. að draga sínar ályktanir af því, sem er að gerast hjá þjóðinni, og haga sér samkv. því. En hæstv. ráðh. verður ekki bjargað við með því, að hann heyri ekki álit almennings í landinu, ef hann heyrir ekki álit hinna fjölmennu félagasamtaka. Það er enginn vafi á því, að hann verður látinn heyra álit þessara aðila, og hann fær að kenna á því áliti líka, ef hann tekur ekki tillit til þess. Það er svo allt of billegt hjá hæstv. ráðh. að segja það, að þetta hafi engin áhrif á núv. ríkisstj. Þetta breyti ekki afstöðu hennar í neinu, af því að hún hafi ekki gefið yfirlýsingu á hliðstæðan hátt og stjórn Hermanns Jónassonar um það, að hún ætlaði að hafa sérstakt samstarf við t. d. samtök launþega í landinu. Ég held, að engin ríkisstj, komist upp með það, þegar á reynir, að taka ekki tillit til þess, sem t. d. hin fjölmennu launþegasamtök í landinu segja.

Mergurinn málsins í þessum efnum er sá, sem hér hefur margsinnis verið bent á, að hér er um það að ræða, að fyrirhugað er að breyta með l. frá Alþ. nýlega gerðum og löglega gerðum kjarasamningum, sem varða flesta landsmenn. Og þegar búið er að grípa inn í gerða samninga á þann veg, að það er búið að raska samningagrundvellinum, þá er ofur eðlilegt, að sá aðilinn, sem hallað er á, segi um leið og búið er að raska grundvelli samninganna, að þá geti hann ekki lengur talið sig skuldbundinn til þess að standa við önnur ákvæði þeirra. Það, sem skiptir því máli í þessum efnum, er það, hvernig þessir samningaaðilar bregðist við þessum málum. Það var sagt í umr. um málið fyrr, að vel geti verið, að það sé hægt að deila nokkuð langan tíma um það, hvort þetta sjónarmið verkalýðssamtakanna sé rétt samkv. stífustu lagaákvæðum, að halda því fram, að samningarnir séu þar með niður felldir. Það er jafnvel hægt að varpa málinu fyrir félagsdóm, og félagsdómur getur kveðið upp einhvern úrskurð, á meðan stendur e. t. v. allt atvinnulíf í landinu stopp. Það er hægt að halda uppi deilum um þetta í alllangan tíma, en það er hitt atriðið sem gildir: Leiðir þessi samþykkt til stöðvunar á atvinnulífi landsmanna? Leiðir það til þess, að samningarnir falla niður í reynd, og hér verður ekki lengur vinnufriður? Það er það, sem gildir.

Hæstv. viðskmrh. vék svo hér að einu efnisatriði úr umr., en það var það, sem ég hafði bent á, að í ræðu hans hafði komið fram, að þegar búið væri að framkvæma öll ákvæði þess frv., sem hér liggur fyrir, þá mundi eftir sem áður kaupmáttur launa vera u. þ. b. 17% hærri en hann var í mal. Og nú segir hæstv. ráðh., að það skipti engu máli, hvort heldur sé miðað við kaupmáttinn í maí eða kaupmáttinn, eftir að samningar voru gerðir um miðjan júnímánuð. Nú veit hæstv. ráðh. það, að í maímánuði stóðu mál þannig, að verðlag hafði þá hækkað á undanförnum mánuðum svo mikið, eins og hér hefur komið fram í umr., að launþegar áttu þá að fá vegna þeirrar verðhækkunar, sem orðin var 1. maí, 4.48 stig í kaupgjaldsvísitölu til þess að bæta upp þessa verðhækkun. Síðan var samið um ákveðna grunnkaupshækkun, 15–18%. Nú kemur hæstv. viðskmrh. og heldur, að hann geti sveiflað sér út úr þessu með því að hringla til tölum og ætlar að segja mönnum það, að það sé nákvæmlega sama, hvort kaupmátturinn er tekinn í malmánuði, á meðan enn vantaði 4.48 stig í kaupgjaldsvísitöluna til að bæta upp þá verðhækkun, sem þá var orðin, eða hvort kaupmátturinn er tekinn um miðjan júnímánuð, þegar launþegar voru búnir að fá þessi 4.48 stig og einnig þá grunnkaupshækkun, sem þá var samið um. Auðvitað vita það allir, að kaupmáttur launanna í maímánuði var lægri þá en á eftir eftir að þeir fengu þessa kaupuppbót. (Gripið fram í.) Já, en hæstv. ráðh. var búinn að miða áður kaupmáttaraukninguna við maí-grundvöll. (Gripið fram í.) Menn geta leikið sér að því að hlaupa svona fram og til baka, frá því sem þeir segja, en hæstv. ráðh. var að segja hér í áheyrn allra þeirra, sem hér eru inni, að það væri nákvæmlega sama, hvort miðað væri við kaupmáttinn í maí eða síðar. En ég hef sýnt fram á það með alveg augljósum dæmum, að kaupmátturinn í maí var allt annar en kaupmátturinn í júnímánuði. Því er sá kaupmáttur, sem samið var um í júní, þ. e. sá kaupmáttur, sem þá myndaðist, skertur með þessum fyrirhuguðu ráðstöfunum, sem nemur í kringum 3%. Undan því verður ekki flúið.

Eitt atriði vildi ég, að kæmi hér fram í sambandi við þessar umr., fyrst ég er kominn hér upp í ræðustólinn, til viðbótar því, sem áður hefur komið fram en það eru upplýsingar, sem fjhn. hefur fengið um ýmsar verðbreytingar, m. a. eftir miðjan okt. og fram til 1. nóv. Þetta eru upplýsingar, sem fjhn. hefur fengið frá verðlagsstjóra og eiga að réttu lagi að komast hér til allra hv. þm., enda tekið skýrt fram af okkur í fjhn., að við óskuðum þar ekki eftir neinum upplýsingum, sem við mættum ekki fara með hvert sem væri, enda er hér væntanlega ekki um nein launungarmál að ræða. En vegna þeirra umr., sem hér hafa farið fram um þessi verðlagsmál, þá tel ég rétt að lesa hér upp úr þessum upplýsingum frá verðlagsstjóra um þessar verðbreytingar. En í skýrslunni segir m. a. þetta:

15. okt. Hámarksverð á benzíni, gasolíu og fúelolíu. Beiðni: benzín 3.8%, gasolía 20.4%, fúelolía 10.7%. Heimiluð hækkun: benzín 2.3%, gasolía 19.6%, fúelolía 10.l%. Samþ. með 5 atkv. gegn 2. Tveir sátu hjá.

Þann 15. okt. voru einnig samþ. flutningsgjöld á olíu með skipum innanlands. Beiðni: 25%. Heimiluð hækkun: 20%. Samþ. með 5 atkv. gegn 4.

15. okt. var samþ. verðskrá málningarverksmiðja. Beiðni: 12–13%. Heimiluð hækkun: 10%. Samþ. með 5 atkv., 4 sátu hjá.

23. okt. Hámarksverð á brauðum, vínarbrauðum, tvíbökum og kringlum. Heimiluð hækkun: 2.2–5.7%. Samþ. með 9 shlj. atkv.

23. okt. Hámarksverð á öli og gosdrykkjum. Beiðni: 10–12%. Verksmiðjum heimiluð hækkun um 4.5–7.1%. Samþ. með 4:4 atkv., 1 sat hjá.

28. okt. Áskriftargjöld, lausasöluverð og auglýsingaverðskrá dagblaða. Beiðni: áskrift 18.2%, lausasala 50%, auglýsingar 25%. Heimiluð hækkun: áskrift 18.2%, lausasala 20%, auglýsingar 25%. Samþ. með 8:1 atkv.

28. okt. Fargjöld og flutningsgjöld með flugvélum innanlands. Beiðni: 15%. Heimiluð hækkun: 10%. Samþ. með 5:4 atkv.

28. okt. Flutningsgjöld á vörum frá útlöndum. Beiðni: 20–27%. Heimiluð hækkun: 10%. Samþ. með 5 atkv., 4 sátu hjá.

28. okt. Fargjöld með sérleyfisbifreiðum. Beiðni: 20%. Heimiluð hækkun: 15%. Samþ. með 5 atkv., 4 sátu hjá.

(Gripið fram í.) Ég er ekki ennþá farinn að ræða um afstöðu til þessara hækkana. Ég á eftir að koma að því, en afskaplega gerast ráðh. vorir nú ókyrrir. Þola þeir ekki að hlýða á þennan lestur? Þeir hafa sjálfir staðið að þessari hækkun. (Gripið fram í.) Já, ég var ekki búinn með allan lesturinn.

30. okt. Fargjöld Strætisvagna Reykjavíkur. Beiðni: 33%. Heimiluð hækkun: 15%. Samþ. með 5:4 atkv.

30. okt. Gjaldskrá leigubifreiða. Beiðni: 6.4%. Heimiluð hækkun: 4%. Samþ. með 7 atkv., 2 sátu hjá.

30. okt. Fargjöld Strætisvagna Kópavogs. Beiðni: 19%. Heimiluð hækkun: 15%. Samþ. með 5 atkv., 3 sátu hjá.

Og svo kemur hér neðanmáls: Sept.–okt., hækkunarbeiðnir, sem nefndin synjaði: Öllum beiðnum um verðhækkanir vegna launahækkana, 4.21%, 1. sept. 1970, þ. e. a. s. vísitöluhækkun var synjað, nema í sambandi við útselda vinnu í byggingarvinnu. Beiðni um 7.3% almenna hækkun verzlunarálagningar og sérstaka hækkun álagningar á skófatnaði og tilbúnum fatnaði var synjað. Út- og uppskipunargjöld í Reykjavík, viðbótarhækkunarbeiðni var synjað. Og verðskrá á hárgreiðslustofum, erindi hárgreiðslumeistara um viðbótarhækkun var synjað.

Auk þessa, sem ég hef lesið, fylgja svo hérna með í hverjum lið nokkrar skýringar á ástæðum, hvað teljist til vinnulaunahækkana og hvað vegna hækkana á innflutningsverði og ýmsu öðru, sem ég hef ekki lesið hér.

Ég tel, að það komi alveg greinilega fram í þessum upplýsingum, að á því tímabili, sem hér hefur verið nokkuð rætt um, þ. e. a. s. frá því að hæstv. forsrh. gaf yfirlýsingu sína í sjónvarpi um það, að til stæði að samþykkja verðstöðvun, þá hafa beinlínis verið samþykktar af verðlagsyfirvöldunum fjöldamargar hækkanir og sumar allríflegar. En það kalla ég ríflega hækkun, t. d. að taka, þegar samþ. er að heimila 10% hækkun á flutningsgjöld frá útlöndum, þegar þess er gætt, að búið var nokkru áður að hækka flutningsgjöld frá útlöndum um 16% frá öllum löndum nema Danmörku 28% og Bretlandi 34%, og svo komu 10% til viðbótar þessu öllu. Ég álít, að þessar upplýsingar sýni það alveg glöggt, að það var fullur skriður á verðhækkununum seinni hlutann í okt., eins og reyndar á tímabilinu þar á undan. Hér er vitanlega aðeins skýrt frá skriðunni, sem varðar beinlínis verðlagsyfirvöldin sjálf, þ. e. a. s. verðlagsskrifstofuna, og það, sem þurfti að sækja um heimildir fyrir. Hér er hins vegar ekki minnzt á þá skriðu, sem þeir settu á stað, sem réðu verðlaginu sjálfir. En það er í ýmsum greinum, að aðilarnir, sem selja vöruna, ráða verðinu sjálfir. Og með í þessu er heldur ekki upptalning á ýmsum hækkunum, sem ekki flokkast undir verðlagsskrifstofuna, en flokkast undir opinberar stofnanir, eins og t. d. hækkunin hjá Pósti og síma. Ég tel, að bæði þessar og aðrar upplýsingar, sem hér hafa komið fram í þessum umr. um verðlagshækkanir í sumar og haust, sýni það, svo að ekki verði um villzt, að vandinn, sem nú er við að glíma í íslenzku efnahagslífi, stafar frá allt of miklum verðlagshækkunum, sem hafa verið heimilaðar í sumar og haust. Hinir ýmsu aðilar hafa komizt upp með það, ekki aðeins að velta af sér út í verðlagið öllum þeim áhrifum kauphækkananna, — þeir tóku ekki á sig neitt af kauphækkuninni, — sem um var samið á miðju sumri, heldur hafa þeir einnig komizt upp með það að fá í sinn hlut í gegnum hækkandi verðlag verulegar hagsbætur frá því, sem áður var, og það, sem síðan hefur gerzt, er það, að í kjölfar hins hækkaða verðlags hefur síðan framfærsluvísitalan í landinu hækkað, og þar af leiðandi átti kaupgjaldsvísitalan einnig að hækka, og launafólk hafði gert samning um það í sumar að fá bætur í launum til þess að vega upp verðlagshækkanir af þessu tagi. En þegar komið er að því, að það eigi að greiða út bæturnar á launin vegna þessara verðlagshækkana, þá þarf að gera sérstakar efnahagsráðstafanir hér á Alþ. í þá átt að draga úr bótarétti fólksins, sem samið hafði verið um í kaupgjaldssamningunum.

Það er skoðun mín, að hið almenna efnahagskerfi þjóðarinnar hafi verið þannig á þessu ári, að það hefði átt að vera hægt að tryggja launþegum raunhæfar kjarabætur, sem nam kaupgjaldshækkununum, sem samið var um 19. júní í sumar. Þjóðarframleiðslan fór stórkostlega vaxandi, verð á útflutningsvörum þjóðarinnar hækkaði nú meir en nokkru sinni áður, þjóðartekjurnar munu vaxa á þessu ári yfir 10%. Nú var aðstaða til þess að segja við atvinnurekendur: „Þið verðið að taka á ykkur stærsta hlutann af kauphækkuninni og bera hann,“ og það átti að standa gegn verðlagshækkunum í lengstu lög. Mér dettur þó ekki í hug að neita því, að í einstaka tilfellum hefði átt að samþykkja einhverjar verðlagshækkanir, m. a. þar sem um var að ræða hækkun á vörum erlendis, en ég held, að þær verðlagshækkanir hefðu ekki þurft að verða meiri en svo, að það hefði ekki þurft að ríða neinu á slig. En það er þetta, sem er alltaf að gerast hér hjá okkur, að stjórnarvöld landsins eru alltof viljug á það að heimila verðhækkanir, en þegar kemur að því að menn eigi að standa við verðhækkunina og sjá verðhækkunina í launakjörum, þá hrökkva þeir við, þá þarf að gera ráðstafanir.

En slíkar ráðstafanir duga skammt. Það getur verið, að það sé hægt að koma þeim fram í krafti meirihlutavalds á Alþ., og það getur verið, að slíkar ráðstafanir standi í nokkra mánuði, en svo verður þeim hrundið til baka, venjulega í gegnum vinnustöðvanir, framleiðslustöðvanir, tap fyrir þjóðarheildina. Svo koma nýir kjarasamningar, og ef leikurinn byrjar upp á nýtt, að stjórnarvöld gefa eftir, leyfa miskunnarlaust allar verðlagshækkanir, þá vitanlega kemur innan skamms að því, að það þarf að fara að fella gengið, og ný kollsteypa byrjar. Það er í þessum efnum, sem þarf að breyta um stefnu í þjóðfélaginu. En því fer víðs fjarri, að ríkisstj. leysi vandann á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og jafnvel þó að hæstv. viðskmrh. finni það út, að l. út af fyrir sig fái staðizt, þá leysir þetta ekki vandann, en það er hætt við því, að þetta leiði til ennþá meiri vanda við að eiga en við höfum þurft að glíma við að undanförnu.