18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

14. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. sjútvn. á þskj. 555, þá mælir n. með frv. með þeim breytingum, sem hún flytur á þskj. 556. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að fylgja frekari brtt., sem fram kynnu að koma við þetta mál.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að aflatryggingasjóður sjávarútvegsins gegnir mikilsverðu hlutverki fyrir sjávarútveginn, einkum þegar svo ber undir, að sveiflur verða í aflabrögðum, annaðhvort yfir landið allt eða í einstökum landshlutum. Það er þegar komin alllöng reynsla af starfsemi sjóðsins. Hann hefur að vísu starfað eftir býsna margbrotnum og flóknum reglum, sem oft hefur e. t. v. þurft að hnika til í framkvæmd, en við endurskoðun þá á lögum um aflatryggingasjóð, sem hér liggur fyrir, hefur verið stuðzt við þá reynslu, sem fengizt hefur af starfsemi sjóðsins. Lögin eru búin að vera lengi í endurskoðun. Mig minnir, að endurskoðunin hafi hafizt árið 1965, og frv. um þetta efni hefur áður legið fyrir hv. Alþ., þannig að góður tími hefur gefizt til þess að athuga það frá ýmsum hliðum, og þær ábendingar, sem áður hafa komið fram við meðferð málsins, hafa, að ég hygg, að verulegu leyti verið teknar til greina af endurskoðunarnefndinni. Þess vegna er það svo, að þótt þetta frv. hafi legið hjá hv. Ed. frá því snemma á þessu þingi, þá hefur sjútvn. þeirrar d. ekki gert verulegar breytingar á því, heldur aðeins minni háttar leiðréttingar.

Ég vil taka það fram, að það má vel vera, að sjútvn. þessarar hv. d. hefði gert víðtækari brtt. við frv., ef hún hefði haft rýmri tíma til skoðunar á því en raun ber vitni. Ég skal ekki orðlengja um það, en niðurstaða okkar hefur orðið sú, að takmarka okkur við þær brtt., sem fram eru bornar á þskj. 556, og skal ég með örfáum orðum gera grein fyrir þeim brtt.

1. till. er við 9. gr. frv. Hún er um það, að síðasta setningin í þeirri gr., sem hljóðar svo: „Heimild þessi nái aftur til 10. maí 1969,“ falli niður. En í þessari gr. er gert ráð fyrir, að stjórn sjóðsins sé heimilt að greiða bætur til báta, sem hafa þurft að hætta veiðum á tilteknum veiðisvæðum, hafi svæðin verið friðuð um tiltekinn tíma vegna hrygningar nytjafiska. N. varð sammála um, að ekki væri rétt að tímabinda þetta eins og gert er í gr., þannig að þetta verkaði aftur fyrir sig til þessa dags, 10. maí 1969. Það þýðir þó ekki, að n. telji, að vegna þeirrar niðurfellingar, ef samþykkt verður, sé sjóðsstjórninni óheimilt að greiða bætur aftur fyrir sig, hafi verið gefinn einhver ádráttur um slíkt. Þarna getur ekki verið nema um óverulegar bætur að ræða, þar sem upphæðin, sem miðað er við hverju sinni, er aðeins 1 millj. kr.

Þá er það 2. brtt. n., sem er við 12. gr. frv. Þar er lagt til að breyta þeim tölum, þ. e. a. s. grunntölum, sem greiddar eru í fæðispeninga eða fæðiskostnað sjómanna. Lagt er til, að í stað 100 kr. í a-lið 17. gr. komi 120 kr., — þetta á við það, þegar greiddur er fæðiskostnaður á bátum yfir 151 brúttórúmlest, — og að í stað 85 kr. í b-lið sömu gr. komi 100 kr., en það á við á bátum, sem eru allt að 150 rúml. og kjarasamningar sjómanna taka til. Þessar breytingar eru teknar þarna inn að beiðni hæstv. ríkisstj., en þessi hækkun á hlutdeild í fæðiskostnaði sjómanna, sem greidd er úr áhafnadeild, er gerð í framhaldi af samkomulagi, sem gert var í kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna nýlega. Eins er ástatt um fyrri mgr. í brtt. sjútvn. við bráðabirgðaákvæði frv., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn aflatryggingasjóðs er heimilt með samþykki sjútvrn. og samkv. reglum, sem það setur, að greiða til togara úr áhafnadeild sjóðsins framlag, sem nemur þeirri fjárhæð, sem ætla má að renni til hennar af öllum útflutningsafurðum togaraafla.“

Þessi brtt. er einnig flutt að beiðni hæstv. ríkisstj. og loforð hennar um það, að þetta ákvæði yrði tekið upp, mun hafa verið einn þáttur í lausn togaradeilu þeirrar, sem nýlega stóð milli yfirmanna á togurum annars vegar og togaraútgerðarfyrirtækja hins vegar. En svo sem kunnugt er, hafa runnið til áhafnadeildarinnar útflutningsgjöld, fyrst 1% og nú 1.5%, af allri útflutningsframleiðslu, þ. á m. útflutningsframleiðslu, sem kemur frá togaraflotanum. Togararnir hafa aftur á móti ekki fengið neinar bætur úr áhafnadeild. Með því að taka þessa heimild upp í bráðabirgðaákvæði frv. er sem sé gert ráð fyrir, að þetta gjald endurgreiðist, að því er togarana varðar.

Þá leggur n. til breytingu á 2. og 3. mgr. 17. gr., sem felur það í sér, að áhafnadeildin taki upp greiðslu á hluta af fæðiskostnaði vegna opinna vélbáta með 85 kr. á hvern róður og áhafnarmann. Eins og kunnugt er, hefur áhafnadeildin ekki greitt hluta af fæðiskostnaði nema til þilfarsbáta fram að þessu. Þetta hefur skapað talsvert mikið óréttlæti, því að það er þannig með þá, sem stunda fiskveiðar á opnum bátum, að þeir hafa greitt gjald til sjóðsins eins og ég gat um áðan að togaraútgerðin hefði gert, en ekki fengið bætur úr sjóðnum. Samkv. þessari till. n., ef samþ. verður, munu þeir fá bætur frá ársbyrjun 1971. Ég þarf ekki að rekja ástæðurnar fyrir því, hvers vegna þessi mismunun hefur átt sér stað. Stofnun áhafnadeildarinnar er upphaflega komin inn í þessi lög vegna kjarasamninga útvegsmanna og sjómanna, þar sem báðir aðilar komu sér saman um að fara fram á það, að slík deild yrði stofnuð við aflatryggingasjóð og greiðslur á hluta af fæðiskostnaði sjómanna færu fram með þeim hætti, sem hefur tíðkazt síðan. — Mig minnir, að það hafi verið í febrúar 1969, sem þessi ákvæði komu fyrst til framkvæmda.

Það hefur komið fram hér, að ýmsum finnst þetta fyrirkomulag óæskilegt og eru andvígir því. Ég get fyrir mitt leyti að ýmsu leyti tekið undir það og sérstaklega vegna þess, að eins og fram hefur komið í því, sem ég hef sagt hér á undan, þá hefur fyrirkomulagið í mörgum tilfellum skapað margs konar misrétti. Á s. l. ári var reynt að draga nokkuð úr þessu misrétti með því að ákveða, að áhafnadeildin skyldi greiða eigendum fiskibáta með þilfari, sem ekki hafa lögskráningarskyldu, hluta af fæðiskostnaði þeirra, 85 kr. á úthaldsdag og áhafnarmann. Þessu ákvæði er í till. sjútvn. haldið algerlega óbreyttu, eins og það var samþ. á s. l. ári. Ég vil þó geta þess í sambandi við þá bátastærð, sem það ákvæði á við að í framkvæmd hefur það komið þannig út, að þeir hafa ekki allir fengið bætur úr áhafnadeildinni. Stafar það af því, að samkv. ákvæðum gr. ber eigendum umræddra báta að tryggja áhafnir þeirra sömu slysatryggingum, svo og líf- og örorkutryggingum, sem samið er um í heildarkjarasamningum sjómanna og útvegsmanna. Meðal þeirra trygginga, sem samið er um í þeim kjarasamningum, sem þarna er vísað til, eru svokallaðar ábyrgðartryggingar. Nú hefur það sýnt sig, að í mörgum tilfellum, þegar útgerðarmenn minni báta hafa ætlað að fá ábyrgðartryggingar hjá tryggingafélögum, þá hefur þeim verið bent á, að í þeim tilfellum, þar sem eingöngu eru eigendur á bátunum, þá hafi ábyrgðartryggingarnar ekkert gildi, því að þær eru þess eðlis, að þær gilda eingöngu gagnvart þriðja aðila. Þessir aðilar hafa síðan ekki getað lagt fram vottorð um það hjá áhafnadeildinni, að þeir hefðu ábyrgðartryggingar og því ekki fengið bætur úr sjóðnum. Nú höfum við í sjútvn. þessarar hv. d. undir meðferð málsins rætt þetta mál við Fiskifélagið, eða þá aðila þar, sem mest hafa með áhafnadeildina að gera, og við höfum gert þeim grein fyrir þeirri skoðun okkar, að það sé ekki ætlunin, að menn verði sviptir bótum úr áhafnadeildinni, enda þótt þeir hafi ekki getað fengið ábyrgðartryggingarnar af þeim ástæðum, sem ég gat um áðan. Eins og vikið er að í nál. okkar, þá er það a. m. k. eindregin skoðun sjútvn., að í framkvæmd verði að sjá í gegnum fingur með þetta, en hins vegar leggja þeim mun meiri áherzlu á, að aðrar tryggingar, sem um er samið í samningum stærri bátanna, þ. e. a. s. slysa- líf- og örorkutryggingar, séu einnig í lagi hjá minni bátunum, eigi þeir að fá bætur úr áhafnadeildinni.

Sjútvn. hefur haft til meðferðar frv., sem flutt var snemma á þessu þingi af hv. 9. landsk. þm., Braga Sigurjónssyni, varðandi bætur úr áhafnadeild vegna opinna vélbáta. Með því að taka ákvæði um það upp í till. sjútvn. telur n. sig hafa afgreitt það mál fyrir sitt leyti. Hef ég leyfi til þess fyrir hönd hv. 9. landsk. þm. að láta það koma fram hér, að hann sættir sig mjög vel við þessa afgreiðslu málsins, enda þótt bótagreiðslur til opinna báta séu í till. n. háðar mun strangari skilyrðum en hann setti fram í sínu frv. Það er gert ráð fyrir, að til þess að opnu bátarnir geti fengið þessar bætur, þurfi þeir að vera skráðir (nafn og umdæmisnúmer) og að þeim sé haldið út til fiskveiða, annarra en grásleppuveiða, minnst 3 mánuði á ári og að þeir fullnægi að öðru leyti sömu skilyrðum og tilgreind eru í lögum varðandi stærri bátana, þ. e. að því er þær tryggingar varðar, sem ég minntist á áðan. Þá er þess að geta, að í framhaldi af kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna er gert ráð fyrir, að á þær bætur, sem nú verða mismunandi háar eftir bátastærð, þ. e. 85, 100 og 120 kr. sem grunnbætur, greiðist hækkun í samræmi við fæðislið framfærsluvísitölu frá 1. jan. 1970. Þetta ákvæði er tekið inn í brtt. n. í framhaldi af kjarasamningum útvegsmanna og sjómanna.

Loks vil ég vekja athygli hv. dm. á síðari mgr. í brtt. okkar við bráðabirgðaákvæði, en þar leggur n. til, að stjórn sjóðsins verði heimilt með samþykki rn. og samkv. reglum, sem það setur, að endurgreiða hluta prósentugjalda af útflutningi til aflatryggingasjóðs og áhafnadeildar, þegar um er að ræða niðursoðnar og niðurlagðar sjávarafurðir. Umrædd gjöld, sem lögð eru á fyrir þessa sjóði, eru ekki útflutningsgjöld í venjulegum skilningi, þannig að þau séu til þess að afla ríkinu tekna, heldur renna þau aftur í einu eða öðru formi til útgerðarinnar sjálfrar. Í þessu tilfelli er um að ræða 11/4% gjald, sem rennur í aflatryggingasjóð og 1.5% gjald, sem rennur til áhafnadeildar vegna fæðiskostnaðar sjómanna. Þetta eru samtals 22/3, og að sjálfsögðu er það tilfinnanlegt gjald, einkum þegar um er að ræða mikið unna vöru eins og niðurlagðar og niðursoðnar sjávarafurðir. Það er ríkjandi mikill áhugi fyrir því að fullvinna sjávarafurðir sem allra mest og reyna þannig að komast inn á nýja markaði, en þetta gjald leggst af augljósum ástæðum því þyngra á vöruna sem hún er meira unnin. Þess vegna var það samdóma álit sjútvn., að það ætti að létta þessu gjaldi að verulegu leyti af þessari starfsemi, og till. okkar um, að það megi endurgreiða allt að 2/3 hluta af gjöldunum miðast við það, að af þessari framleiðslu sé reiknað gjald, sem svarar til þess, að greitt sé af hráefnisverðinu.

Ég vona, herra forseti, að þessar brtt. sjútvn., sem ég hef nú gert grein fyrir, fái góðar undirtektir hv. d. og að málið hljóti afgreiðslu með þessum brtt.