25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

238. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ásamt hv. 4. landsk. þm., Jónasi Árnasyni, flutti ég fyrr á þessu þingi frv. til l. um breyt. á þeim sömu lögum og það frv., sem hér er til umr., fjallar um. Í okkar frv. er þó gert ráð fyrir meiri lækkun á þeim upphæðum, sem renna eiga í Stofnfjársjóð fiskiskipa af óskiptum aflahlut og til þátttöku í rekstrarkostnaði útgerðarinnar, en gert er ráð fyrir í því stjfrv., sem hér liggur fyrir, þar sem aðeins er lagt til, að skerðingarprósentan lækki úr 22% í 16%, þegar um er að ræða sölu á afla í erlendri höfn. Þar sem sýnilegt er, að frv. okkar hv. 4. landsk. þm. fæst ekki afgreitt á þessu þingi, höfum við á þskj. 641 flutt frv. okkar að mestu leyti að nýju með þeim hætti að gera ákvæði þess að brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir, og kemur efni okkar frv. þá væntanlega til atkv. Við 1. umr. um frv. okkar gerði ég grein fyrir efni þess og þeirri nauðsyn, sem við teljum á því, að það verði samþ. Af þeim sökum tel ég ekki ástæðu til að ræða málið efnislega að þessu sinni, en hv. þm. ætti að vera kunnugt um, að til Alþ. hafa borizt fjölmargar áskoranir frá sjómönnum og útgerðarmönnum um, að frv. okkar verði samþ.