26.03.1971
Neðri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

238. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það mál, sem ég ætlaði að hreyfa hér við þessa umr., varðar ekki beinlínis það frv., sem hér liggur fyrir, heldur eitt atriði í lögunum, sem frv. er miðað við. Eins og hv. þdm. sjálfsagt muna, þá var á sínum tíma tekið upp í lög um útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem er undanfari laga um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu, ákvæði þess efnis, að til samtaka sjómanna skyldi greiða 0.67% samkv. reglum, sem sjútvrh. setji. Nú hefur þessi prósentutala breytzt, þannig að í gildandi lögum, lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu, er hún 0.50%, en tilgreind sama kvöð og áður, að hún skuli greidd samtökum sjómanna samkv. reglum, sem sjútvrn. setji. Á sínum tíma, þegar þetta ákvæði var tekið upp í l., þ. e. a. s. á árinu 1967, þá minnist ég þess, að sjútvn. þessarar hv. d. barst erindi frá Alþýðusambandi Vestfjarða, sem ég skýrði hér frá við 2. umr. málsins þann 18. apríl það ár. Í erindinu er bent á, í sambandi við þessa fyrirhuguðu breytingu á l. um útflutningsgjald af sjávarafurðum, að Alþýðusamband Vestfjarða hafi allt síðan árið 1952 samið við vestfirzka útvegsmenn um kaup og kjör háseta, matsveina og vélstjóra á Vestfjörðum og að samningar þessir taki til sjómanna á bátum, sem stundi veiðar með línu, þorskanetum, botnvörpu, dragnót og humarvörpu og einnig til þeirra, sem stunda síldveiðar. Með tilliti til þessara upplýsinga, var síðan farið fram á það í umræddu erindi, að við afgreiðslu málsins yrði það tryggt, að Alþýðusamband Vestfjarða fengi hluta af þeim tekjum, sem þetta gjald gæfi, þar sem það er fyrst og fremst ætlað samtökum sjómanna. Ég tók það fram í framhaldi af upplestri þessa erindis hér í hv. d., að ég fylgdi þessu máli fyrir mitt leyti að því tilskildu, og í trausti þess, að sjútvrh. sæi um það, að samtök eins og Alþýðusamband Vestfjarða yrðu ekki hlunnfarin, hvað þetta snertir.

Nú hefur mér borizt vitneskja um það, að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi Alþýðusamband Vestfjarða ekki fengið einn einasta eyri af þessu gjaldi. Gjaldinu mun vera skipt milli þriggja aðila, þ. e. Alþýðusambands Íslands, Sjómannasambandsins og Farmanna- og fiskimannasambandsins. Alþýðusamband Vestfjarða, sem er deild í Alþýðusambandi Íslands, hefur snúið sér hvað eftir annað til Alþýðusambandsins, en ekki fengið neina áheyrn um það, að þetta stóra fjórðungssamband fengi hluta af þessum tekjum. Aftur á móti hef ég heyrt og hygg, að það muni rétt með farið, að sambandsstjórn Alþýðusambands Íslands hafi ákveðið að láta þetta gjald að hluta renna sem hlutafé í Alþýðubankann, og nota það að einhverju leyti til þess að standa undir ferðakostnaði sambandsstjórnarmanna. Ég leyfi mér að draga í efa, að þessi ráðstöfun sé leyfileg á þessum fjármunum á sama tíma sem stóru verkalýðssambandi eins og Alþýðusambandi Vestfjarða er neitað um hlutdeild í þessu gjaldi. Þar sem það ákvæði er enn í fullu gildi, að þessum fjármunum skuli ráðstafað til samtaka sjómanna samkv. reglum, sem sjútvrh. setur, þá vil ég eindregið beina því til hans, að hann sjái um það, að hlutur Alþýðusambands Vestfjarða verði leiðréttur hvað þetta snertir. Að öðrum kosti tel ég, að nauðsynlegt sé að endurskoða afstöðuna til alls þessa máls í heild.