17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

231. mál, tollskrá o.fl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við frv. það á þskj. 436, sem hér liggur fyrir til 1. umr. og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir, vil ég taka fram örfá atriði. Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ég fagna þeirri breytingu, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, bæði það að fjölga bifreiðum þeim, sem árlega eru veittar því fólki, sem hefur orðið fyrir veikindum á einn eða annan hátt, og enn fremur að hækka tollaeftirgjöfina og rýmka það ákvæði verulega. Þetta tel ég hið mesta nauðsynjamál og ég vil endurtaka það, að ég fagna því, að það skuli vera fram komið. Vegna hins atriðisins, sem í þessu frv. felst, sem er síðari hluti eða b-hlutinn af 1. gr., viðvíkjandi atvinnubifreiðastjórunum, er mín ánægja ekki eins mikil. Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ég tel, að frv. um að lækka tollana á þessum atvinnutækjum hafi verið sanngjarnt og hafi byggzt á því, að þessi atvinnustétt væri nauðsynleg vegna þjónustustarfa í landinu og þess vegna ætti að lækka tollana vegna þeirra starfa, sem þeir inntu af hendi. Það væri því ekki um neina náðargjöf að ræða, heldur það, að þessi þjónusta væri metin álíka, þ. e. þjónusta atvinnubifreiðastjóra og sérleyfishafa. Ég sé ekki, hvaða rök eru fyrir því að meta þetta ekki nokkuð til jafns, því að engum okkar dytti það í hug, að atvinnurekstur leigubifreiðastjóra félli niður. Þess vegna hef ég kunnað miklu betur við, að lækka þessa tolla um það, sem samkomulag hefði orðið um, heldur en að hafa endurgreiðsluformið eins og hér er lagt til og mér finnst vera allt annar blær á. Og það verkar á mig eins og nokkurs konar styrktarstarfsemi, sem ég tel, að ekki eigi við í þessu tilfelli vegna þess, að ég lít á þessa atvinnustétt sem nauðsynlega atvinnustétt í landinu. Hitt hefði ég getað fallizt á, að þetta hefði ekki orðið að þessu sinni nema 40%, að það hefði staðizt. Við það hefði ég ekkert haft að athuga, ef samkomulag hefði verið um það að lækka tollinn niður í 40%. Og frá mínum bæjardyrum séð hefði líka verið hægt að fallast á það að hafa vissa hámarkstölu bifreiða, sem inn væru fluttar. Þessi tvö atriði hefði ég getað fallizt á og ekki fundizt neitt óeðlilegt, þó að þannig hefði verið að farið, að tollurinn hefði ekki verið færður niður nema í 40% og hámarkstala bifreiða hefði verið ákveðin. Ég held, að það orki nokkuð tvímælis, að það sé rétt mat, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan, að með þessu, að ákveðin fjárhæð væri gefin eftir af tollinum, þá væri stefnt að því, að bifreiðastjórar tækju ódýrari bifreiðar. Ég hygg, að bifreiðastjórar, sem stunda þessa atvinnu, færi fram þau rök, að einmitt hinar stærri bifreiðar séu í þessum tilfellum margfalt betri, og ef á allt sé litið, séu þær raunverulega ódýrari. Þess vegna hefði ég nú viljað fara fram á það við hæstv. ráðh., hvort ekki væri hugsanlegt, að hann hefði viljað endurskoða þetta mál þannig að lækka tollinn um ákveðna prósentu og fara þá niður í 40% og hafa hámarkstölu árlega, sem nyti þess arna. Þetta hefði ég talið, að hefði verið skynsamleg lausn í þessu máli og á engan hátt um að ræða neitt fjárhagsatriði, sem skiptir máli fyrir ríkissjóð, en aðferðin að gera þetta með þeim hætti yrði í alla staði eðlilegri og skemmtilegri, því að það er viðurkenning á því, að hér sé um atvinnu að ræða, sem sé nauðsynleg, og ég hef ekkert við það að athuga, þó að hún sé takmörkuð við hámarkstölu.