16.11.1970
Efri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

101. mál, atvinnuöryggi

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Um þetta frv. hafa nú þegar orðið miklar umr. bæði í hv. Nd. og svo einnig hér, og margt af því, sem ég hefði gjarnan viljað um málið segja, hefur þegar verið sagt, svo að ég get stytt mál mitt og haft það aðeins stutt.

Frv. þetta ber með sér, að ríkisstj. Íslands hefur gert ýmsar merkar uppgötvanirnar á efnahagslífi þjóðarinnar, þegar hún fór að brjóta þessi mál til mergjar og leggja niður fyrir sér, hvað hægt væri að gera í þessum vanda, sem allir kannast við, að er nokkur, þar sem verðlag hefur farið mjög ört vaxandi að undanförnu. Það þarf að binda enda á, eða a. m. k. fresta því, að allt það hækkanaflóð, sem að undanförnu hefur verið á ferðinni, haldi áfram og máske með vaxandi hraða, eins og það virðist hafa tilhneigingu til. Það ber að viðurkenna, að við þennan vanda varð að glíma, og á honum varð að taka. Ríkisstj., sem stendur að því frv., sem hér er til umr., hefur við samningu þess eða undirbúning uppgötvað hluti eins og þá, að tekjumöguleikar ríkissjóðs eru miklu meiri en hún hafði áður gert sér grein fyrir, þótt ekki sé liðinn lengri tími síðan samið var frv. til fjárlaga. Þetta er auðvitað gleðilegt og ætti að færa stjórnvöldum landsins heim sanninn um það, að það er ekki æskilegt, ekki heldur fyrir ríkissjóð, að láglaunakerfi það, sem hér var í gildi, þangað til að það tók breytingum nokkrum s. l. vor, dregur einnig heim í garð til ríkissjóðs fátækt og umkomuleysi. En breytingar á því til hækkunar eru einnig hagur ríkissjóðs. Þessi sannindi tel ég vera svo augljós, að þau verða varla vefengd, þegar borið er saman það álit á tekjumöguleikum ríkisins, sem ríkisstj. áður hafði, og þeir möguleikar, sem fram koma í þessu frv., að hún hefur trú á, að nú séu fyrir hendi. Þá er það ekki síður gleðilegur vottur, að stjórnvöld virðast hafa uppgötvað það, að með því að lækka innlendar búvörur í verði til íslenzkra neytenda, þá sparast svo mikið í útflutningsuppbótum, að það er einnig stór tekjuöflun fyrir hið opinbera. Þessar tvær uppgötvanir, þótt ekki væri neitt annað, sanna það, að það var vissulega mikils um það vert, að þetta frv. skyldi verða samið. Þetta eru hvort tveggja sannindi, sem stjórnvöldunum hefur sézt yfir áður, en nú virðast þau hafa fengið á því nokkurn skilning.

Ég hef hér tínt til bjartar hliðar á þessu frv. Þær eru raunar fleiri en ég hef nefnt, við skulum segja auknar fjölskyldubætur. Ég er þeim mjög samþykkur og fagna þeim. Allt þetta sýnir, að slíkur góðærisbragur er á búskap Íslendinga um þessar mundir, að hann gefur mikla möguleika til þess, að hér sé hægt að auka hagsæld í landi. Þess vegna verð ég að láta í ljósi mikil vonbrigði mín yfir því, að frv. skyldi samt enda á því, að ríkisstj. leggur til, að lagðir verði til hliðar nýgerðir launasamningar og hætt að greiða eftir þeim. Á ég þar við þau tvö vísitölustig, sem reiknað er með, að ekki komi til útborgunar samkvæmt frv. þessu fyrr en í lok verðstöðvunartímabilsins, þ. e. a. s. 1. sept. á næsta ári. Hér er reyndar í krónum talið um svo lítilfjörlega upphæð að ræða, að ég get alveg tekið undir það með síðasta hv. ræðumanni, að þetta er ekki sú fjárfúlga, sem réttlætir það, að ró og vinnufriði á almennum vinnumarkaði sé stefnt í hættu með því að fella þau burt. Þess vegna teldi ég það vera mikils virði, ef ríkisstj. endurskoðaði málið og sæi sér fært að falla frá þessu, eins og mér skilst, að nokkur von sé um.

Þó finnst mér annað verra í þessu frv., og það er tilhneigingin til þess að taka upp nýjan vísitöluútreikning, þ. e. a. s. að hætta að reikna vísitöluna út með þeim hætti, sem gert hefur verið. Á þeim grundvelli var samið, og hvort sem það er brennivín og tóbak eða eitthvað annað, sem fellt er burt, þá er þetta að breyta vísitölugrundvellinum á miðju tímabili, sem hann er hafður að mælistiku. Þetta er svipað og að stytta metrann með lögum, ef mönnum fyndist það, sem menn ættu að fá útmælt í metrum — fyrir ákveðnar krónur, vera of mikið. Þetta er alveg fráleitt. Ég tel, að ráðstafanir af þessu tagi megi aldrei gera. Þegar búið er að búa til ákveðna mælistiku og semja um útmælingu, hvort heldur er á launum eða einhverju öðru eftir mælistikunni, þá eru það rangindi að breyta málstokknum. Ég skal ekki hafa fleiri orð um það. Þetta frv. er eins og mörg, sem sézt hafa hér á þingi af svipuðu tilefni, og hreint ekki það ljótasta, öðru nær. Og skerðingarákvæðin í því til handa launafólki eru ekki meiri en svo, að eins og ég hef áður minnzt á, teldi ég, að það færi bezt á því, að ríkisstj. drægi þau aftur og endurskoðaði afstöðu sína til þeirra, og ég vona, að hún muni geta komizt að þeirri niðurstöðu, að hér hafi verið synt svo nálægt landi, að hægt sé að skreiðast upp í fjöruna, án þess að menn þurfi endilega að drukkna í flæðarmálinu, eins og þetta frv. nánast væri, ef nota mætti þá samlíkingu. En allt eru þetta bráðabirgðaráðstafanir, og nú vildi ég af þessu tilefni eins og raunar fleiri ræðumenn hafa hér gert, vitna til þeirrar samþykktar, sem stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur gert um þetta mál og ég tel vera allrar athygli verða. Sú samþykkt er efnislega á þá leið, að stjórn Bandalagsins telur þær aðgerðir, sem frv. gerir ráð fyrir, alls ófullnægjandi til þess að leysa sjálfan vandann, að stöðva verðbólguna. Aðgerðirnar eru með sama merki brenndar og allar dýrtíðarráðstafanirnar frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þær eru bráðabirgðaúrræði nær algerlega á kostnað launþega, en árangurslausar sem frambúðarlausn. Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja gerir það að till. sinni, að allar peningalegar tilfærslur, skuldir og innstæður, laun og vextir, verði tengdar réttri vísitölu og gengið verði að mestu leyti gefið frjálst.

Hér eru á ferðinni till., sem ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj. um. Hefur hún nokkru sinni fengið sinni Efnahagsstofnun það verkefni, að rannsaka það, hverjar afleiðingar þetta mundi hafa? Ég er þessum till. mjög hlynntur, vegna þess að mér sýnist fljótt á litið, að þær hefðu það stóra gildi, ef þær kæmu til framkvæmda, að draga úr þeirri ásælni, sem stór hluti þjóðarinnar hefur, til að láta verðbólgu alltaf fara vaxandi. Ef gripið væri til þessa ráðs, sýnist mér, að augljóst sé, að ásælni manna í að geta borgað skuldir sínar með minni krónum en þeir fengu lánaðar, mundi hverfa. En sú staðreynd hefur blasað við öllum skuldugum mönnum eða langflestum, a. m. k. öllum þeim, sem ekki voru þá með vísitölutryggð lán á herðunum, að geta komizt þannig léttar út úr greiðslunum, borgað með minni verðmætum en þeir fengu. Auðvitað efast ég ekkert um, að einmitt þessi staðreynd margra undangenginna ára hlýtur að hafa skapað vissan verðbólguþorsta í þjóðfélaginu, og ef hægt væri að koma í veg fyrir þann verðbólguþorsta, þá sýnist mér augljóst, að mikið væri áunnið til þeirrar áttar að geta haldið verðbólgunni í skefjum. Ef ríkisstj. hefur ekki látið rannsaka þessar leiðir, þá held ég, að hún ætti að gera það. Og ég held einnig, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar hér í hv. Ed., ætti að fá umsögn hagfróðra manna um það, hvernig þeim litist á þessar leiðir. Ég tel, að ef þetta væri raunverulega svo, eins og mér sýnist, þá sé hér um að ræða stórt skref í þá áttina, að við getum a. m. k. minnkað verðbólguna í þjóðfélaginu, en hinn öri vöxtur hennar ár frá ári hefur verið eitt af stærstu vandamálum í íslenzku þjóðfélagi að undanförnu.